Monday, February 5, 2018

Bosníustríð rifjast upp

(birt 3. febr 2018 á Fésbók SHA)

Horfði á vonda mynd, „Endurborin“ á RÚV í gær. Um barbarisma í Bosníustríðinu, gerist í Sarajevó. Miðlægur atburður er að bosnísk kona er gripin, nauðgað og börnuð af setuliði Serba í borginni. Aðalpersónan (ítölsk) fær þetta barn og flýr með í NATO-flugvél burt úr stríðinu og elur það upp. Ég hafði þá nýlesið hjálagða Counterpunch grein um yfirstandandi herferð NATO fyrir að „vernda konur gegn kynferðislegu ofbeldi á átakasvæðum“. Og í greininni er einmitt farið vel yfir það hvernig fullyrðingar í vestrænni pressu um skipulegar nauðganir Serba á múslimakonum og „nauðgunarbúðir“ voru afar snar þáttur í áróðri NATO í Bosníustríðinu. SÞ lét reyndar rannsaka þetta, sem reyndist 99% blöff, en því var aldrei slegið neitt upp. Í frelsisstríði NATO fyrir Líbíu fullyrti svo sendiherra USA hjá SÞ að Gaddafí nestaði hermenn sína með viagra til að þeim gengi betur að nauðga andstæðingunum. Lesið greinina.

Saturday, February 3, 2018

Innrás Tyrkja í Sýrland: Árásaraðilarnir í hár saman

(Birtist í Neistum.is 26. jan 2018)

Sýrlandsstríðið tekur á sig nýja króka og flækjan eykst. Tyrklandsher réðist nú inn á sýrlenska svæðið Afrin sunnan tyrknesku landamæranna, vestarlega. Það er svæði sem um árabil hefur verið undir stjórn Varnarsveita Kúrda, YPG (sem er meginaflið í Sýrlenska lýðræðishernum, SDF) sem Erdógan kallar hryðjuverkamenn. Í árásinni eru Tyrkir studdir af Sýrlenska frelsishernum (FSA) sem er náinn bandamaður þeirra og opinberlega studdur af USA og NATO-veldunum. 
En þessi árás Tyrkja veldur nú miklum titringi vítt um lönd af því þeir sem ráðist er á, hersveitir YGP/SDF, eru einnig nánir bandamenn NATO-veldanna, sérstaklega Bandaríkjanna. Á meðan Sýrlandsher hefur undangengin tvö ár, með aðstoð Rússa, að mestu rústað kalífati Íslamska ríkisins og þrengt mjög kosti annarra mikilvægustu hópa uppreisnarinnar (Al Nusra/Al-Sham..), hafa Bandaríkin veðjað á vopnaða Sýrlandskúrda sem sinn meginbandamann í Sýrlandi. Kúrdarnir berjast fyrir sjálfstjórn á sínu svæði og hafa um leið barist harkalega við ISIS – en fyrir Bandaríkin er aðalmálið baráttan við Sýrlandsstjórn. Forusta Kúrda hefur að sínu leyti þegið USA sem bandamann sinn og verndara. 
Bandarísk yfirvöld höfðu örfáum dögum fyrr gefið það út að þau hygðust byggja upp 30 000 manna her í norðaustur Sýrlandi, mannaðan að mestu af Kúrdum. Allt að 2000 bandarískir sérsveitarmenn ku starfa með Kúrdum á svæðinu. Sú heruppbygging er augljóslega liður í áformum um sundurlimun Sýrlands, sem hefur verið „plan B“ í Washington þegar „plan A“ um valdaskipti í Damaskus ætlaði ekki að ganga upp. Erdógan getur vel hugsað sér báðar hugmyndirnar – um valdaskipti í Sýrlandi og sundurlimun landsins – en ekki skilyrðislaust. Innrás hans núna núna er snöggt svar til vina hans í Washington: Skipting Sýrlands skal aldrei verða með styrkingu „kúrdneskra hryðjuverkamanna“! Og öll plön USA eru þar með í upplausn.
Það hefur örugglega verið Kúrdum áfall að Bandarísku verndararnir hafa ekki hreyft legg né lið þeim til varnar gegn Erdógan. Tillerson utanríkisráðherra lét nægja að senda Tyrkjaforseta skeyti segjandi: „við viljum hvetja Tyrkland til að gæta hófs og tryggja að hernaðaraðgerðirnar séu takmarkaðar í tíma og umfangi.“ En þetta hefðu Kúrdar mátt segja sér sjálfir af langri og biturri reynslu, það er forgengilegra en flest annað í heimi hér að veðja á vinskap heimsvaldasinna.
Sýrlandsstjórn mótmælti auðvitað hinn löglausu innrás harkalega. En hún hefur látið þar við sitja. Sýrlandsher hefur fullar hendur á öðrum svæðum, ekki síst Idlib, síðasta stóra yfirráðasvæði ISIS og Al Kaídahópa í Sýrlandi. Hann getur illa bætt á sig stríðsátökum við Tyrklandsher sem er sá 8. stærsti í heimi. Assad-stjórnin kærir sig vissulega hvorki um kúrneskt ríki né tyrkneskt yfirráðasvæði á
sýrlensku landi. En hún metur stöðuna líklega sem svo: Ef Tyrkir veikja stöðu kúrdneskra aðskilnaðarsinna (studda af USA) í Afrin getum við vonandi aftur náð stjórn á því svæði við samningaborðið i Sochi (þar standa friðarviðræður yfir þessa dagana) eða við önnur samningaborð í náinni framtíð.

Tuesday, January 16, 2018

Sterkur Oliver Stone um Úkraínudeiluna

(birtist á fésbók SHA 16. janúar 2017)

Hér er afar sterkur og mikilvægur dókumentari Olivers Stone um Úkraínudeiluna. Sem er skólabókardæmi um framkvæmd litabyltinga. Annars vegar stúderar Stone ítarlega vinnubrögð hins CIA-rekna National Endowment for Democracy (þó hún kalli sig "Non Govermental", NGO) og bandaríska sendiráðsins á sviði almannatengsla og skipulagningar uppþotanna og hins vegar fer hann vel í forsögu úkraínsks fasisma og síðan hvernig þessir tveir gruggugu lækir renna saman í einn og vestrænu bakmennirnir gera fasistana að sínu mikilvægasta verkfæri. Áhersla bandarískra strategista á að vinna Úkraínu yfir er gríðarleg. Sbr orð Zbigniew Brzezinski um að tilvera Rússlands sem "evrasísks veldis" stæði og félli með stöðu Úkraínu. Í myndinni spyr Stone Pútín um afleiðingar þess ef Úkraína lenti inn í NATO og hann svarar: "Af hverju bregðumst við svo harkalega við útþenslu NATO? Þegar land hefur gerst aðili að NATO getur það ekki staðist þrýstinginn frá Bandaríkjunum. Og skjótt getur hvað sem er birst í þessu landi - eldflaugavarnarkerfi, herstöðvar, eldflaugaárásarkerfi. Hvað gerum við? Við verðum að gera gagnráðstafanir, miða eldfaugakerfum okkar á þennan nýja búnað sem við lítum á sem ógn..." Stone hefur að nokkru leyti tekið að sér að miðla heimsmyndinni eins og hún lítur út frá Rússlandi en líka eins og málin líta út frá sjónarhóli almennrar skynsemi.

Sunday, January 14, 2018

Truman og Churchill

(birtist á fésbók SHA 14. janúar 2017)
Harry Truman og Winston Curchill

Talandi um Kalda stríðið. Fáeinum mánuðum eftir stríðslok, í mars 1946, stóðu þeir Winston Churchill og Harry Truman Bandaríkjaforseti saman á fundi í Fulton í Missouri USA. Þeir tóku stöðuna og Churchill meitlaði hana í fræga setningu: “Frá Stéttin við Eystrasalt til Trieste við Adríahaf hefur fallið niður járntjald yfir þvera álfuna“.
Hvað gaurar voru þetta, nýkomnir úr stríði við fasismann? Ja. Winston Curchill hafði hitt Mússólíni 1927. Eftir fundinn sagði hann við ítalska blaðamenn: „Hefði ég verið Ítali er ég viss um að ég hefði staðið heilshugar með ykkur frá upphafi til enda í árangursríkri baráttu ykkar gegn villimannlegri græðgi og ofstæki lenínismans." (sjá R.M.Langworth 2017, Winston Churchill, Myth and Reality, bls. 106). Síðar, í stríðssögu sinni staðfesti Churchill þetta þegar hann rifjaði upp: „Ennfremur, í átökunum milli fasisma og bolsévisma var enginn vafi hvar samúð mín og sannfæring lá“ (sjá Churchill 1949, Their Finest Hour, 106). Harry Truman var litlu betri. Daginn eftir að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin 1941 mælti hann: „Ef við sjáum að Þýskaland er að sigra ættum við að hjálpa Rússum, en ef Rússland er sigursælt ættum við að hjálpa Þýskalandi og á þann hátt láta þá drepa eins marga og mögulegt er.“
Hvorugur þessara manna var andfasisti þó ekki væru þeir fasistar. Þeir voru fyrst og síðast auðvalds- og heimsvaldasinnar, og þeir höguðu seglum á alþjóðavettvangi eftir því sem kom þeirra eigin heimsveldi best. Og fyrir þeirra eigin heimsveldi voru fasistaríkin augljóslega helsta ógnin árið 1941. Fyrrnefnd ummæli Trumans þetta ár um Þýskaland og Rússland má þó ekki skilja svo að hann hafi lagt fasisma og kommúnisma að jöfnu. Eftir að hann varð forseti var andkommúnismi einna sterkasti þáttur í stjórnarstefnunni. Í utanríkismálum fylgdi hann Truman-kenningunni um að koma böndum á kommúnisma hvar í heimi sem væri, í samvinnu við m.a. fjölmargar fasista- og herforingjaklíkur – og í hans forsetatíð náði  McCarthyisminn hámarki heima fyrir. En þarna árið 1946 voru sem sagt þessi helstu forustumenn og spámenn hins „frjálsa heims“ að leggja línuna fyrir Kalda stríðið. Það var ekki von á góðu.

Rætur Kóreudeilunnar

(birtist á neistar.is 13. janúar 2017)

Samkvæmt boðskap vestrænu heilaþvottavélarinnar, sem endurvarpað er samviskusamlega af íslensku fréttastofunum, eru stjórnvöld Norður Kóreu stórhættuleg umheiminum fyrir brjálsemi sakir. Þó eru þau, eftir að þau misstu bakhjarl sinn, heimskommúnismann, fyrst og fremst til að hlæja að, skv. sama boðskap. Samt er það svo að það er ekki brjálsemi og árásarhneigð Norður-kóreskra leiðtoga sem veldur spennunni þar. Ekki heldur leifar af „gagnkvæmri tortryggni“ Kalda stríðsins. Heldur hefur meginorsökin alla tíð verið botnlaus yfirgangur forysturíkis Vestursins gagnvart þessu litla landi, Norður-Kóreu, og Kóreu allri.

Bandarískir hermenn að taka Kóreska hermenn sem fanga
Bandarískir hermenn að taka Kóreska hermenn sem fanga

Til að skilja ástandið á Kóreuskaga er óhjákvæmilegt að seilast aftur í og aftur fyrir Kóreustríðið (1950-53). Jaltasamningurinn undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari gerði ráð fyrir sameiginlegu hernámi Kóreu af hálfu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna meðan hernám Japans væri upprætt. Kórea hafði þá verið undir grimmdarlegu japönsku hernámi frá 1910. En þegar Japanir höfðu gefist upp og áður en til hernáms landsins kom hafði þjóðfrelsishreyfing Kóreu komið upp ákveðnu stjórnkerfi sem borið var uppi af sk. „alþýðunefndum“ og miðstjórn þeirra, og stefndi á fullt sjálfstæði.
Sovétmenn sendu her inn í landið frá norðri en Bandaríkin sendu skömmu síðar miklu stærri her inn að sunnan og hernámu beinlínis suðurhluta landsins. Bandarísk herstjórn beitti strax yfirdrifnum herstyrk af því hún óttaðist hið pólitíska ástand innan landsins, nefnilega mikinn styrkleika kommúnista og eindreginna þjóðernis- og andheimsvaldasinna í þjóðfrelsishreyfingunni, ástand sem einkenndi flest hernámssvæði Japana í Austur-Asíu í stríðslok (eins og reyndar líka hernámssvæði Þjóðverja í Evrópu). Það gilti m.a. um Kóreu, allt Indó-Kína, Filipseyjar og ekki síst Kína.

Tuesday, January 2, 2018

Íran - leiðarvísir um valdaskipti

(birt á fésbók SHA 2. jan 2018)
                                           Ali-Khalmenei æðstiklerkur segir óvini Írans standa að baki mótmælum

Ekki skal draga í efa raunverulega óánægju í Íran með spillingu og ójöfnuð. En ekki heldur efast um að óvinveitt veldi standi að baki og leiði uppþotin þar, eins og Írönsk stjórnvöld segja. Minna skal á CIA-stýrt valdarán gegn þjóðhollri stjórn Mosaddeghs 1953. (sjá hér)

Skoðið síðan vel þennan leiðarvísi til uppþota og valdaskipta í Íran, samin í tengslum við mótmælaölduna þar 2009. Hann var útgefinn af Brookings-stofnuninni, voldugustu utanríkis-hugveitu Bandaríkjanna. Kaflaskipting leiðarvísisins: 1. "Dissuading Tehran: The Diplomatic options" 2. "Disarming Tehran: The Military options" 3. "Toppling Tehran: Regime Change". Það eru svo undirkaflar við þennan punkt: f. "The Velvet revolution" g. "Inspiring an insurgency" h. "The coup: supporting a Military Move against the regime". (sjá heimild) Þarna er ekki farið í felur með neitt, skipulagning innri andstöðunnar og alþjóðleg fjölmiðlaherferð, og loks skipulagning valdaránsins. RÚV lætur sitt ekki eftir liggja.

Vaxandi viðsjár á Norðurlöndum 2017


Stórstríð er í gerjun. Á Norðurlöndum færist það einnig nær. Á árinu 2017 var Ísland flækt betur í styrjaldarundirbúning Bandaríkjanna og NATO. Í júní og júlí stóð tveggja vikna NATO-flotaæfing við Ísland. Þar tóku þátt 2000-3000 manns frá 9 NATO-ríkjum. Tilefnið var sagt vera vaxandi umsvif rússneskra kafbáta á svæðinu. Keflavíkursamningurinn er í gildi og Pentagon hefur nú eyrnamerkt 1,5 milljarð króna til uppgerðar á flugskýlum sínum á Keflavíkurvelli. Það er fyrsta skref.

Í þrjár vikur í september sl. var NATO-heræfingin Áróra haldin í Svíþjóð, stærsta heræfing þar í landi eftir Kalda stríðið. Yfir 20 þúsund hermenn tóku þátt, frá a.m.k. 5 NATO-löndum auk Svíþjóðar og Finnlands. Svíþjóð lét af hlutleysi sínu 1994 þegar það gerðist aukaaðili að NATO undir yfirskriftinni „Partnership for Peace“. Og 2016 tók NATO næsta skref og gerði „gestgjafasamning“ við Svía: Svíþjóð heimilar NATO-æfingar í landi sínu, NATO fær að geyma hergögn í landinu og sendir mannafla með litlum fyrirvara ef ófriðlegt skyldi gerast. Í höfuðstöðvum NATO var heræfingin Áróra skýrð svo: „Í ljósi núverandi stöðu öryggismála, með auknum áhyggjum af rússneskri hernaðarvirkni, þá styrkir NATO samvinnuna við Svíþjóð og Finnland á Eystrasaltssvæðinu.

Nýjustu fréttir frá Noregi: Í Noregi hafa þegjandi og hljóðalaust orðið brotthvarf frá upphaflegum NATO-skilmálum landsins frá 1949 þar sem sagði að ekki yrðu leyfðar í landinu herstöðvar eða herafli framandi hervelda á friðartímum. Nú hefur bandaríski flotinn viðvarandi herafla og hergögn á Værnes í Þrándheimsfirði. Og nú í desember er þar mættur bandarískur yfirhershöfðingi, Robert Neller, heldur fund með bandarískum hermönnum þar og segir: „Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en það er stríð á leiðinni.“ Neller kallar það stórstríð, „a big-ass fight“. Á sama fundi sagði undirforingi hans, Ronald Green: „We've got 300 Marines up here; we could go from 300 to 3,000 overnight.“ Norsk stjórnvöld hafa ekki hafnað þessum orðum herforingjans.

Hin stóraukna beislun Norðurlandanna fyrir stríðsvagninn er hluti af innikróun Rússlands og stríðsundirbúningi NATO gegn Rússum. Aðrir þættir í því eru hinir miklu flutningar hergagna og liðsafla NATO til nýju NATO-ríkjanna, nágrannalanda Rússlands að vestan, m.a. kerfi nýrra eldflaugaskotpalla í Póllandi, Rúmeníu og víðar og tilheyrandi NATO-heræfingar. Allt þetta hefur svo enn margfaldast frá árinu 2014 (þá yfirtóku Rússar Krímskaga) á öllu beltinu frá Eystrasaltssvæðinu til Svartahafs og Miðjarðarhafs. Liðir í hinum sama eru hinar víðtæku efnahagslegu refiaðgerðir USA og NATO-ríkja gegn Rússum sem Íslendingar taka þátt í með stuðningi allra flokka á þingi nema Flokks fólksins (?).

Yfirhershöfðinginn Robert Neller er ekki hver sem er. Hann er meðlimur í Joint Chiefs of Staff, voldugustu einingu bandarískra hermála. Ræða hans í Værnes er stefnumarkandi og eftirfarandi orð hans hafa líklega meira vægi en ef þau kæmu frá Donald Trump: „Ég hef trú á að við munum fljótlega snúa athygli okkar“ sagði hann „frá Miðausturlöndum til Rússlands og Kyrrahafsins“. Þ.e.a.s. áherslan snýst frá svæðisbundnum átökum og beinist beint að hinum strategísku óvinum, Rússlandi og Kína.

Loks verður að nefna Rússafárið í Bandaríkjunum. Bandaríska þjóðin kaus Donald Trump sem forseta m.a. af því hann sagaðist mundu draga úr spennu gagnvart Rússum, en slíkt gengur augljóslega gegn stefnu „djúpríkisvaldsins“ og hefur skapað forsetanum mikinn vanda. Slík pólitík verður ekki leyfð. Og eins og þessi forsetakosning hafi aldrei farið fram eykur bandaríska heilaþvottavélin jafnt og þétt áróðursmoldviðrið um rússneskt samsæri og rússneska íhlutun um bandarískar kosningar og önnur bandarísk innanríkismál. Rússafárið er sálfræðileg kynding stríðsaflanna.

Framantalin atriði snúast ekkert um leifar „kaldastríðs-hugsunar“ eða neitt slíkt. Þau snúast öll um ógnir nýs heimsvaldastríðs sem hrannast nú upp.