Saturday, July 8, 2017

Fleiri göt á lygahjúpinn um eiturgasið í Sýrlandi

(birtist á fésbók SHA 7. júlí 2017)
                                                   Fréttamynd um fórnarlamb saríns í Khan Sheikhoun

Meðhöndlun vestrænnar pressu á nýlegum eiturgas-skrifum Seymour Hersh segir sitt um fjölmiðlafrelsið í hinum vestræna heimi. Heimildarmenn hans í bandarískri leyniþjónustu sögðu honum að opinbera útgáfan af eiturárás í sýrlenska bæinn Khan Sheikhoun – sem gaf Trump yfirvarp til að hefja opið stríð gegn Sýrlandsstjórn – væri fals. Hersh gat ekki komið greinum sínum í neitt útbreitt blað í Bandaríkjunum eða Bretlandi. Um síðir kom hann þeim í þýska vikublaðið Welt am Sonntag. Þá kom næsti leikur meginstraumspressunnar: Hún hefur síðan fylgt SKIPULEGRI ÞÖGGUN gagnvart þessum afhjúpunum. Þegjum manninn í hel! Þögnin nær þó ekki til mótstraumsmiðla, og um þá ratar Hersh vel. Um þetta fjallar Jonathan Cook á Counterpunch: sjá heimild.

Aðra glufu í sama lygahjúp gerir Bandaríkjamaður að nafni Scott Ritter. Hann var æðsti vopnaeftirlitsmaður SÞ í Írak frá 1991 til 1998, þ.e.a.s. á undan Hans Blix, og staðhæfði þá staðfastlega að ásakanirnar um gjöreyðingarvopn Íraka væru fals. Þungaviktarmaður m.ö.o. Hann skrifaði núna grein í The American Conservative 29/6. Þarna kannar hann skipulega þau gögn sem lögð hafa verið fram um Khan Sheikhoun, að Sýrlandsher hafi „kastað sarínsprengju“. Gögnin eru myndir frá „Hvítu hjálmunum, myndir sem einkum hafa verið greindar af Human Rights Watch sem hafa dreift þeim áfram gagnrýnislaust. Ritter sýnir fram á að þessi gögn eru víðsfjarri öllu sem kenna má við vísindalega könnun. Engin óháð rannsókn hefur enn farið fram í Khan Sheikhoun. Ritter er ennfremur alveg ómyrkur í máli í afgreiðslu sinni á aðferðum „Hvítu hjálmanna“ sem hann kennir við „leikhúsbrellur“, enda fengu þeir Óskarinn í flokki „heimildarmynda“. Sjá heimild 

Tuesday, July 4, 2017

Stríðið og framtíðarhorfur Sýrlands

(birt á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 4 júlí 2017)

Inngangur eftir Þórarin Hjartarson og grein eftir Patrik Paulov


Í Speglinum 27. júní fjallaði Kári Gylfason um Sýrlandsstríðið. Hann hafði þar eftirfarandi eftir bandarískum blaðamanni, Jonathan Spyer: „Sýrland er ekki lengur til. Því hefur þegar verið skipt upp í sjö aðskilda hluta.“ (heimild) Greining Kára studdist einkum við grein frá 19. maí í ritinu Foreign Policy – sem er mjög miðlægt í bandarískri utanríkisumræðu og mætti kalla málgagn „The Deep State“ vestan hafs. Í greininni skýrir Spyer nánar skiptinguna í sjö svæði: „...svæðið undir yfirráðum stjórnarinnar, þrjú aðskilin svæði undir stjórn uppreisnarmanna, tvær kúrdneskar kantónur og ISIS-svæðið.“ Aftar í greininni slær hann föstu: „Sýrlandi verður skipt á milli stjórnarhlutans í vestri, uppreisnarmanna súnníaraba í norðvestri og suðvestri, svæði tyrknesk-studdra uppreisnarmanna í norðri, SDF-stýrða svæðið í norðaustri og loks eitthvert fyrirkomulag á austursvæðinu sem felur í sér yfirráð bæði SDF og vestrænt studdra araba.“ Stöðu síðastnefnda svæðisins, austursvæðisins, orðaði hann svo á öðrum stað: „...og æ opinskárri stuðningur Bandaríkjanna við þessar sveitir opnar möguleikann á að USA-studdur landshluti verði til austan Efrats“. (heimild)
Þessi greining er auðvitað ekki persónulegt álit Kára Gylfasonar. Hún er ekki heldur greining blaðamannsins Jonathan Spyers. Þetta er línan sem nú er við lýði í Washington (RÚV leitar aldrei annað eftir réttri túlkun átakanna í Miðausturlöndum). Hugveitan RAND Corporation, sem er hluti af bandaríska stjórnkerfinu, nánar tiltekið sérhugveita fyrir herinn,  hefur á undanförum árum árlega birt nokkuð sem hún kallar „Peace Plan for Syria“. Nýjasta áætlunin „Peace Plan for Syria III“ sem lögð var fram í febrúar sl. (ég deildi henni á fésbók SHA 26. febr.) er nánast orðrétt samhljóða framtíðarsýn Spyers um Sýrland. (heimild)

Seymour Hersh afhjúpar enn og aftur lygar um eiturgas

(birtist á fésbók SHA 27. júní 2017)

Það er skammt stórra högga á milli hjá Seymour Hersh. Stefán Pálsson deildi hér á síðunni greininni "Trumps' Red Line" 25/6 þegar hún birtist í Welt am Sonntag. Sjá hér. Og sama dag birti Hersh aðra grein í sama blaði: „We got a fuckin‘ problem“. Þar birti hann "chat protocol" á milli öryggisráðgjafa úr leyniþjónustunni og manns úr bandarískri herstöð í Miðausturlöndum rétt eftir gasárásina í Khan Sheikhoun. Í samtalinu kemur fram pirringur úr leyniþjónustunni með samráðsleysi forsetans. Þarna kemur skýrt fram að leyniþjónustan vissi alltaf að eiturgasið kom ekki frá Sýrlandsher. Einhverjir úr leyniþjónustunni sýndu þennan pirring í verki með því að leka upplýsingunum til Seymour Hersh.

Í samtalinu segir öryggisráðgjafinn um frammistöðu CIA: "You may not have seen Trumps press conference yesterday. He's bought into the media story without asking to see the Intel. We are likely to get our asses kicked by the Russians. Fucking dangerous. Where are the godamn adults? The failure of the chain of command to tell the President the truth, whether he wants to hear it or not, will go down in history as one of our worst moments."


Skriffinnar sem verja hin hörðu viðbrögð USA gegn Sýrlandsstjórn gagnrýna Seymour Hersh einkum fyrir að nota nafnlausa heimildarmenn. Við því er þetta að segja: Slík viðtöl og slíkir lekar út úr bandarísku leyniþjónustunni, lekar sem stríða gegn opinberri línu, fást aldrei birtir nema með skilyrðum nafnleyndar. Á sínum tíma snéri Hersh öllum öðrum blaðamönnum fremur bandarísku almenningsáliti á Vietnamstríðinu með afhjúpun sinni á fjöldamorðunum í My Lai 1969 og fékk Putitzer Prize árið eftir. Lesið aftur samtalið hér að ofan, samtalið sem Hersh birti í Welt am Sonntag. Það nægir. Samtalið fór fram og því var lekið til Hersh. Hann myndi aldrei hætta sínum fjalltrausta blaðamennskuferli á að birta leka sem væri fleipur eða samtal sem ekki hefði farið fram.

Monday, June 26, 2017

Seymour Hersh og sarínið í Sýrlandsstríðinu

Stefán Pálsson deildi á fésbókarsíðu SHS grein eftir Seymour Hersh sem birtist á Welt am Sonntag 25. júní (2017). Hér að neðan er athugasemd mín eftir lestur greinarinnar.

Gott. Hraðlas greinina. Hersh hefur mikil tengsl inn í CIA. Heimildarmenn hans þar hallast að fyrstu tilgátu Rússa, að sýrlensk hefðbundin sprengja hefði hitt eiturefni í Khan Sheikhoum. Næsti liður í skýringunni sem Hersh gefur er gríðarleg hvatvísi Donalds Trump. Þriðji liður er svo bandaríska pressan sem skellti auðvitað skuldinni á Assad einum rómi. Þar með er dómurinn fallinn a.m.k. um allan hinn vestræna heim, „Sýrlandsher kastaði sarínsprengju“, og mönnum þykir forsetinn loksins sanna sig með hröðum og snöggum viðbrögðum!

Hefðbundin sprengja sem sagt, sjálfstýrandi reyndar. Og CIA vissi það allan tímann. Henni var beint á hús í Khan Sheikhoum þar sem fór fram fundur toppmanna úr al-Nusra og Ahrar al-Sham en verslunarlager var á neðri hæð. Bendir ákveðið til að þar hafi eiturefnin verið. Ennfremur: Rússar höfðu látið bandaríska herstjórn í Doha vita af skotmarkinu og tegund árásar fyrirfram.


Neðanmáls: Seymour Hersh er með virtari rannsóknarblaðamönnum Bandaríkjanna og Pulitzer-verlaunahafi. Hersh varð heimsfrægur er hann afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai í Víetnam 1969. Árið 2007 skrifaði hann grein í The New Yorker um stefnubreytingu bandarískra strategista í hernaðinum í Miðausturlöndum, um það hvernig Bush-stjórnin veðjaði á „trúardeilutrompið“, að styðja hernað súnní múslima gegn sjía múslimum. Þetta var ekki breyting á markmiðum strategistanna, meinti Hersh, heldur ný taktík þeirra Hann reyndist algjörlega sannspár. Sjá greinina í The New Yorker. Í desember 2013 gerði Hersh í London Review of Books úttekt á gasárásinni í Ghouta nærri Damaskus í ágúst sama ár sem nærri nærri hafði sett af stað stórstríð Vestursins og bandamanna gegn Sýrlandsstjórn. Hann færði öflug rök að því að sarínið hefði komið frá "uppreisnarmönnum" og hefði borist þeim frá Tyrklandi. 

Saturday, June 24, 2017

Kafbátaheræfing og Rússahættan.

(bistist á fésbókarsíðu SHA 23. júní 2017)

                                Kafbáta-flotaæfingin Dynamic Mongoose 2016 við Noreg


Nú á mánudaginn 28. júní hefst tveggja vikna NATO flotaæfing, við Ísland með áherslu á kafbátahernað, nefnd Dynamic Mongoose. Talað er um 2000-3000 manns sem tekur þátt í æfingunni, frá 9 NATO ríkjum. Ótilgreindur fjöldi herskipa og kafbáta tekur þátt. RÚV talaði í kvöld við NATO-herforingja sem sagði að ástæðan sé vaxandi umsvif Rússneskra kafbáta sem geti farið að laumast gegnum GIUK-hliðið (línan Skotland, Ísland, Hvarf á Grænlandi) – og benti á að nú fari aftur hraðvaxandi hernaðarlegt mikilvægi Íslands, og loftrýmiseftirlitsins. Hættumatið í íslenskum fréttum er allt á eina bók.
Rússar standa fyrir 4-5% af herútgjöldum heimsins. Það er alveg gífurlegur voði. USA stendur fyrir 37%, það er í lagi. NATO og nánustu bandamenn (Ísrael, Japan, Sádar..) standa fyrir svona 85%. Það er í lagi. Vel á minnst Sádar einir eru komnir upp fyrir Rússa, gott.
Rússar hernema herstöð sína til 234 ára á Krímskaga og heimsbyggðin formyrkvast. En USA og NATO ástunda samfellda og æ hraðari hernaðaruppbyggingu við vesturglugga Rússlands með eldflaugakerfum, þungavopnum og tvöföldum mannaflans á hverju einasta ári, guði sé lof!
Rússland hefur eina herstöð utan eigin lands, nefnilega í Sýrlandi. Voðalegt! Bandaríkin hafa 700 herstöðvar utan lands dreifðar um heim, ekki síst í hring um Rússland. Það er í góðu lagi.
Sagt er fyrir vestan haf að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar sl haust. Þetta er alveg hræðilegt, þó sannanir hafi enn ekki fundist. En árið 1996 fóru menn Clintons forseta massíft inn í kosningabaráttuna í Rússlandi til að tryggja Boris Jetsin sigur. 

                                                            Forsíða TIME í júlí 1996

Ritið TIME fjallaði um málið og aðalgreinin fjallaði um: „The secret story of how four U.S. advisers used polls, focus groups, negative ads and all the other techniques of American campaigning to help Boris Yeltsin win.“ Svo veifaði Jeltsin risaláni frá vini sínum Clinton sem fengist, ef sigur ynnist. Ja, göfugur tilgangur helgaði alla vega meðalið.
Ætlar SHA ekki að álykta um málið?

Thursday, June 22, 2017

Katardeilan og klofningur innan sýrlensku "uppreisnarinnar"

(birtist á fésbókarsíðu SHA 22. júní 2017)


Hér er grein frá REUTERS sem greinir erlenda stuðninginn við sýrlensku "uppreisnina" og hvernig Katardeilan virkar kljúfandi á hann. Stuðningur Katar hefur farið á hópa sem standa nálægt Múslimska bræðralaginu og al-Kaida/Nusra, sem kalla sig nú Tahir al-Sham. Þessir aðilar tengjast jafnframt Tyrkjum og starfa mest í Norður-Sýrlandi. Sádar styðja aðallega sömu aðila og CIA (Jaish al-Islam o.fl) sem eru sterkari á suðursvæðinu. Það er ljóst að slæmt stríðsgengi veldur vaxandi klofningi meðal leiguherjanna - nokkuð sem hjálpar Sýrlandsher. Hins vegar stuðlar þetta líklega að auknum beinum hernaði USA-bandalagsins og um leið skýrist æ betur hver er hans raunverulegi andstæðingur.


Í pistli í febrúar sl.vísaði ég í uppfærð plön (eftir „fall“ Aleppo) strategistanna í bandaríska stjórnkerfinu um sundurlimun Sýrlands (í alavíta- tyrkneskan- kúrdískan og súnní- hluta) sem kljúfi allan austurhluta landsins undan yfirráðum Damaskus. Ofannefnd skipting er mjög í samræmi við það. Nýleg fleygsókn Sýrlandshers austur að landamærum Íraks ógnar hins plönum strategistanna. 

Monday, June 19, 2017

Gróteskt þjófélagslegt raunsæi?

Hér leyfi ég mér að byrta ljósmynd af tveimur málverkum til upplífgunar síðunni. Án leyfis og í takmörkuðum ljósmyndagæðum. Ekki eru myndirnar eftir mig (!) heldur son minn, Þránd. Leyfi mér jafnframt að vísa í vefsíðu Þrándar . Myndirnar að neðan eru hluti af sýningunni Gustukaverk sem er í Galleríi Porti Laugavegi 23 b. Reykjavík nú seinni hluta júnímánaðar. Hér kveður við pólitískan tón hjá Þrándi. Kannski má kenna myndirnar við gróteskt þjóðfélagslegt raunsæi. 

                                     Titill: Aryan banki
                                  Titill: Gamma