Tuesday, January 16, 2018

Sterkur Oliver Stone um Úkraínudeiluna

(birtist á fésbók SHA 16. janúar 2017)

Hér er afar sterkur og mikilvægur dókumentari Olivers Stone um Úkraínudeiluna. Sem er skólabókardæmi um framkvæmd litabyltinga. Annars vegar stúderar Stone ítarlega vinnubrögð hins CIA-rekna National Endowment for Democracy (þó hún kalli sig "Non Govermental", NGO) og bandaríska sendiráðsins á sviði almannatengsla og skipulagningar uppþotanna og hins vegar fer hann vel í forsögu úkraínsks fasisma og síðan hvernig þessir tveir gruggugu lækir renna saman í einn og vestrænu bakmennirnir gera fasistana að sínu mikilvægasta verkfæri. Áhersla bandarískra strategista á að vinna Úkraínu yfir er gríðarleg. Sbr orð Zbigniew Brzezinski um að tilvera Rússlands sem "evrasísks veldis" stæði og félli með stöðu Úkraínu. Í myndinni spyr Stone Pútín um afleiðingar þess ef Úkraína lenti inn í NATO og hann svarar: "Af hverju bregðumst við svo harkalega við útþenslu NATO? Þegar land hefur gerst aðili að NATO getur það ekki staðist þrýstinginn frá Bandaríkjunum. Og skjótt getur hvað sem er birst í þessu landi - eldflaugavarnarkerfi, herstöðvar, eldflaugaárásarkerfi. Hvað gerum við? Við verðum að gera gagnráðstafanir, miða eldfaugakerfum okkar á þennan nýja búnað sem við lítum á sem ógn..." Stone hefur að nokkru leyti tekið að sér að miðla heimsmyndinni eins og hún lítur út frá Rússlandi en líka eins og málin líta út frá sjónarhóli almennrar skynsemi.

Sunday, January 14, 2018

Truman og Churchill

(birtist á fésbók SHA 14. janúar 2017)
Harry Truman og Winston Curchill

Talandi um Kalda stríðið. Fáeinum mánuðum eftir stríðslok, í mars 1946, stóðu þeir Winston Churchill og Harry Truman Bandaríkjaforseti saman á fundi í Fulton í Missouri USA. Þeir tóku stöðuna og Churchill meitlaði hana í fræga setningu: “Frá Stéttin við Eystrasalt til Trieste við Adríahaf hefur fallið niður járntjald yfir þvera álfuna“.
Hvað gaurar voru þetta, nýkomnir úr stríði við fasismann? Ja. Winston Curchill hafði hitt Mússólíni 1927. Eftir fundinn sagði hann við ítalska blaðamenn: „Hefði ég verið Ítali er ég viss um að ég hefði staðið heilshugar með ykkur frá upphafi til enda í árangursríkri baráttu ykkar gegn villimannlegri græðgi og ofstæki lenínismans." (sjá R.M.Langworth 2017, Winston Churchill, Myth and Reality, bls. 106). Síðar, í stríðssögu sinni staðfesti Churchill þetta þegar hann rifjaði upp: „Ennfremur, í átökunum milli fasisma og bolsévisma var enginn vafi hvar samúð mín og sannfæring lá“ (sjá Churchill 1949, Their Finest Hour, 106). Harry Truman var litlu betri. Daginn eftir að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin 1941 mælti hann: „Ef við sjáum að Þýskaland er að sigra ættum við að hjálpa Rússum, en ef Rússland er sigursælt ættum við að hjálpa Þýskalandi og á þann hátt láta þá drepa eins marga og mögulegt er.“
Hvorugur þessara manna var andfasisti þó ekki væru þeir fasistar. Þeir voru fyrst og síðast auðvalds- og heimsvaldasinnar, og þeir höguðu seglum á alþjóðavettvangi eftir því sem kom þeirra eigin heimsveldi best. Og fyrir þeirra eigin heimsveldi voru fasistaríkin augljóslega helsta ógnin árið 1941. Fyrrnefnd ummæli Trumans þetta ár um Þýskaland og Rússland má þó ekki skilja svo að hann hafi lagt fasisma og kommúnisma að jöfnu. Eftir að hann varð forseti var andkommúnismi einna sterkasti þáttur í stjórnarstefnunni. Í utanríkismálum fylgdi hann Truman-kenningunni um að koma böndum á kommúnisma hvar í heimi sem væri, í samvinnu við m.a. fjölmargar fasista- og herforingjaklíkur – og í hans forsetatíð náði  McCarthyisminn hámarki heima fyrir. En þarna árið 1946 voru sem sagt þessi helstu forustumenn og spámenn hins „frjálsa heims“ að leggja línuna fyrir Kalda stríðið. Það var ekki von á góðu.

Rætur Kóreudeilunnar

(birtist á neistar.is 13. janúar 2017)

Samkvæmt boðskap vestrænu heilaþvottavélarinnar, sem endurvarpað er samviskusamlega af íslensku fréttastofunum, eru stjórnvöld Norður Kóreu stórhættuleg umheiminum fyrir brjálsemi sakir. Þó eru þau, eftir að þau misstu bakhjarl sinn, heimskommúnismann, fyrst og fremst til að hlæja að, skv. sama boðskap. Samt er það svo að það er ekki brjálsemi og árásarhneigð Norður-kóreskra leiðtoga sem veldur spennunni þar. Ekki heldur leifar af „gagnkvæmri tortryggni“ Kalda stríðsins. Heldur hefur meginorsökin alla tíð verið botnlaus yfirgangur forysturíkis Vestursins gagnvart þessu litla landi, Norður-Kóreu, og Kóreu allri.

Bandarískir hermenn að taka Kóreska hermenn sem fanga
Bandarískir hermenn að taka Kóreska hermenn sem fanga

Til að skilja ástandið á Kóreuskaga er óhjákvæmilegt að seilast aftur í og aftur fyrir Kóreustríðið (1950-53). Jaltasamningurinn undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari gerði ráð fyrir sameiginlegu hernámi Kóreu af hálfu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna meðan hernám Japans væri upprætt. Kórea hafði þá verið undir grimmdarlegu japönsku hernámi frá 1910. En þegar Japanir höfðu gefist upp og áður en til hernáms landsins kom hafði þjóðfrelsishreyfing Kóreu komið upp ákveðnu stjórnkerfi sem borið var uppi af sk. „alþýðunefndum“ og miðstjórn þeirra, og stefndi á fullt sjálfstæði.
Sovétmenn sendu her inn í landið frá norðri en Bandaríkin sendu skömmu síðar miklu stærri her inn að sunnan og hernámu beinlínis suðurhluta landsins. Bandarísk herstjórn beitti strax yfirdrifnum herstyrk af því hún óttaðist hið pólitíska ástand innan landsins, nefnilega mikinn styrkleika kommúnista og eindreginna þjóðernis- og andheimsvaldasinna í þjóðfrelsishreyfingunni, ástand sem einkenndi flest hernámssvæði Japana í Austur-Asíu í stríðslok (eins og reyndar líka hernámssvæði Þjóðverja í Evrópu). Það gilti m.a. um Kóreu, allt Indó-Kína, Filipseyjar og ekki síst Kína.

Tuesday, January 2, 2018

Íran - leiðarvísir um valdaskipti

(birt á fésbók SHA 2. jan 2018)
                                           Ali-Khalmenei æðstiklerkur segir óvini Írans standa að baki mótmælum

Ekki skal draga í efa raunverulega óánægju í Íran með spillingu og ójöfnuð. En ekki heldur efast um að óvinveitt veldi standi að baki og leiði uppþotin þar, eins og Írönsk stjórnvöld segja. Minna skal á CIA-stýrt valdarán gegn þjóðhollri stjórn Mosaddeghs 1953. (sjá hér)

Skoðið síðan vel þennan leiðarvísi til uppþota og valdaskipta í Íran, samin í tengslum við mótmælaölduna þar 2009. Hann var útgefinn af Brookings-stofnuninni, voldugustu utanríkis-hugveitu Bandaríkjanna. Kaflaskipting leiðarvísisins: 1. "Dissuading Tehran: The Diplomatic options" 2. "Disarming Tehran: The Military options" 3. "Toppling Tehran: Regime Change". Það eru svo undirkaflar við þennan punkt: f. "The Velvet revolution" g. "Inspiring an insurgency" h. "The coup: supporting a Military Move against the regime". (sjá heimild) Þarna er ekki farið í felur með neitt, skipulagning innri andstöðunnar og alþjóðleg fjölmiðlaherferð, og loks skipulagning valdaránsins. RÚV lætur sitt ekki eftir liggja.

Vaxandi viðsjár á Norðurlöndum 2017


Stórstríð er í gerjun. Á Norðurlöndum færist það einnig nær. Á árinu 2017 var Ísland flækt betur í styrjaldarundirbúning Bandaríkjanna og NATO. Í júní og júlí stóð tveggja vikna NATO-flotaæfing við Ísland. Þar tóku þátt 2000-3000 manns frá 9 NATO-ríkjum. Tilefnið var sagt vera vaxandi umsvif rússneskra kafbáta á svæðinu. Keflavíkursamningurinn er í gildi og Pentagon hefur nú eyrnamerkt 1,5 milljarð króna til uppgerðar á flugskýlum sínum á Keflavíkurvelli. Það er fyrsta skref.

Í þrjár vikur í september sl. var NATO-heræfingin Áróra haldin í Svíþjóð, stærsta heræfing þar í landi eftir Kalda stríðið. Yfir 20 þúsund hermenn tóku þátt, frá a.m.k. 5 NATO-löndum auk Svíþjóðar og Finnlands. Svíþjóð lét af hlutleysi sínu 1994 þegar það gerðist aukaaðili að NATO undir yfirskriftinni „Partnership for Peace“. Og 2016 tók NATO næsta skref og gerði „gestgjafasamning“ við Svía: Svíþjóð heimilar NATO-æfingar í landi sínu, NATO fær að geyma hergögn í landinu og sendir mannafla með litlum fyrirvara ef ófriðlegt skyldi gerast. Í höfuðstöðvum NATO var heræfingin Áróra skýrð svo: „Í ljósi núverandi stöðu öryggismála, með auknum áhyggjum af rússneskri hernaðarvirkni, þá styrkir NATO samvinnuna við Svíþjóð og Finnland á Eystrasaltssvæðinu.

Nýjustu fréttir frá Noregi: Í Noregi hafa þegjandi og hljóðalaust orðið brotthvarf frá upphaflegum NATO-skilmálum landsins frá 1949 þar sem sagði að ekki yrðu leyfðar í landinu herstöðvar eða herafli framandi hervelda á friðartímum. Nú hefur bandaríski flotinn viðvarandi herafla og hergögn á Værnes í Þrándheimsfirði. Og nú í desember er þar mættur bandarískur yfirhershöfðingi, Robert Neller, heldur fund með bandarískum hermönnum þar og segir: „Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en það er stríð á leiðinni.“ Neller kallar það stórstríð, „a big-ass fight“. Á sama fundi sagði undirforingi hans, Ronald Green: „We've got 300 Marines up here; we could go from 300 to 3,000 overnight.“ Norsk stjórnvöld hafa ekki hafnað þessum orðum herforingjans.

Hin stóraukna beislun Norðurlandanna fyrir stríðsvagninn er hluti af innikróun Rússlands og stríðsundirbúningi NATO gegn Rússum. Aðrir þættir í því eru hinir miklu flutningar hergagna og liðsafla NATO til nýju NATO-ríkjanna, nágrannalanda Rússlands að vestan, m.a. kerfi nýrra eldflaugaskotpalla í Póllandi, Rúmeníu og víðar og tilheyrandi NATO-heræfingar. Allt þetta hefur svo enn margfaldast frá árinu 2014 (þá yfirtóku Rússar Krímskaga) á öllu beltinu frá Eystrasaltssvæðinu til Svartahafs og Miðjarðarhafs. Liðir í hinum sama eru hinar víðtæku efnahagslegu refiaðgerðir USA og NATO-ríkja gegn Rússum sem Íslendingar taka þátt í með stuðningi allra flokka á þingi nema Flokks fólksins (?).

Yfirhershöfðinginn Robert Neller er ekki hver sem er. Hann er meðlimur í Joint Chiefs of Staff, voldugustu einingu bandarískra hermála. Ræða hans í Værnes er stefnumarkandi og eftirfarandi orð hans hafa líklega meira vægi en ef þau kæmu frá Donald Trump: „Ég hef trú á að við munum fljótlega snúa athygli okkar“ sagði hann „frá Miðausturlöndum til Rússlands og Kyrrahafsins“. Þ.e.a.s. áherslan snýst frá svæðisbundnum átökum og beinist beint að hinum strategísku óvinum, Rússlandi og Kína.

Loks verður að nefna Rússafárið í Bandaríkjunum. Bandaríska þjóðin kaus Donald Trump sem forseta m.a. af því hann sagaðist mundu draga úr spennu gagnvart Rússum, en slíkt gengur augljóslega gegn stefnu „djúpríkisvaldsins“ og hefur skapað forsetanum mikinn vanda. Slík pólitík verður ekki leyfð. Og eins og þessi forsetakosning hafi aldrei farið fram eykur bandaríska heilaþvottavélin jafnt og þétt áróðursmoldviðrið um rússneskt samsæri og rússneska íhlutun um bandarískar kosningar og önnur bandarísk innanríkismál. Rússafárið er sálfræðileg kynding stríðsaflanna.

Framantalin atriði snúast ekkert um leifar „kaldastríðs-hugsunar“ eða neitt slíkt. Þau snúast öll um ógnir nýs heimsvaldastríðs sem hrannast nú upp.

Tuesday, December 26, 2017

Byltingarhugsun og byltingarframkvæmd. Nokkrir punktar um Októberbyltinguna

(birtist á vefsíðunni http://sosialistaflokkurinn.is 23. des 2017)

Hvers konar bylting var Októberbyltingin?
„Byltingarnar eru eimreiðar mannkynssögunnar.“ (Karl Marx, „Stéttabaráttan í Frakklandi 1848-50“, Úrvalsrit, 93) Októberbyltingin spratt upp úr heimsstyrjöldinni fyrri, hún var afsprengi þess hvernig rússnesk stéttabarátta brást við heimsstyrjöldinni og þeirri pólitísku kreppu sem hún olli. Byltingarnar voru nánar tiltekið tvær. Sú fyrri, Febrúarbyltingin sk., var mikið til sjálfsprottin, ekki skipulögð af neinum stjórnmálaöflum. Það var borgaraleg lýðræðisbylting gegn ríkjandi valdstétt, rússneska aðlinum, en sérstæð að því leyti að hún var fyrst og fremst drifin áfram af verkalýð bæjanna og verkfallsbaráttu hans, einkum í Petrógrad, og síðan af uppreisnum í hernum – en að litlu leyti af borgarastéttinni. Þegar keisarinn afsalaði sér völdum fór síðan af stað uppskipting aðalsjarða, þ.e. bylting jarðlausra bænda gegn landeigendaaðlinum.
Seinni byltingin, Októberbyltingin, var verkalýðsbylting, framkvæmd einkum af verkamannaráðunum (sovétunum) í PetrógradMoskvu og miklu víðar sem spruttu fram í framhaldi af Febrúarbyltingunni. Öfugt við Febrúarbyltinguna var Októberbyltingin í hæsta máta skipulögð – afurð markviss pólitísks starfs. Það sem mestu réði um stefnu og rás atburðanna frá febrúar til október (raunar mars – nóvember) var þróun meðal verkalýðsins og innan hinnar ungu sósíalísku hreyfingar landsins, og alveg sérstaklega var afgerandi þáttur róttækasta hluta hennar – bolsjevíkaflokksins sem leiddi verkamannaráðin til valdatöku og byltingar þann 7. nóvember (25. október á rússnesku dagatali þess tíma).
Valdatakan var fyrirfram boðuð undir þremur meginslagaorðum: Friður! Jarðnæði! Brauð! Á næstu mánuðum voru þessi slagorð sett í framkvæmd – þannig: 1. Hinar stóru landeiginr aðalsins voru teknar eignarnámi og skipt milli þeirra sem erjuðu landið. 2. Saminn var friður við Miðveldin í Brest-Litovsk í mars 1918. Það aflétti ógnarlegum þjáningum af landsmönnum, þó að friðarskilmálarnir væru Rússum erfiðir. Friðurinn var forsenda fyrir framkvæmd síðasta slagorðsins – 3. Rússneski herinn, sem að stærstum hluta var bændaher, gat farið heim og framleitt brauð.
Byltingarstjórnin gat ekki komið í veg fyrir að fyrri valdstéttir, aðall og auðstétt, hæfu borgarastríð árið 1918 sem stóð fram á árið 1922. Þær fengu til liðs við sig 14 kapítalísk ríki sem lögðu þeim til herafla. Rauði herinn hafði þó sigur. Borgarastríðið hafði afgerandi áhrif á stjórnarfar verkalýðsríkisins og átti sinn þátt í að það þróaðist yfir í flokksræði Bolsévíkaflokksins. Það flokksræði var samt stéttbundið eins og pólitísk völd jafnan eru, og sótti vald sitt og stuðning fyrst og fremst til verkalýðsstéttarinnar, lengi vel.


Monday, October 23, 2017

Hverflyndi og þagnarbindindi VG í Evrópumálum

(birtist á Neistar.is 21. okt 2017)

Umræða um ESB er algjörlega fjarverandi í kosningaefni Vinstri grænna. Hins vegar: „Alls segj­ast 51 pró­sent stuðn­ings­manna Vinstri grænna vera fylgj­andi því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir sam­tökin Já Ísland.“ (Kjarninn 16 október) Skv. sömu könnun er um 40% þjóðarinnar ESB-sinnuð en 60% andvíg. VG-kjósendur eru sem sagt orðnir mun aðildarsinnaðari en þjóðin. Þó að VG hafi enn á stefnuskrá að Ísland sé betur komið utan ESB hefur flokkurinn VG nokkrum sinnum á síðustu 4 árum ályktað um að hann vilji að Ísland taki aðildarsamningana upp að nýju og „ljúki aðildarviðræðunum“. Í ljósi þessarar stöðu og þróunar hjá VG og í ljósi þess að Samfylking og Viðreisn hafa umsókn á stefnuskrá sinni og í ljósi þessarar stöðu er hættan á að ný miðju-vinstri stjórn reyni að halda áfram aðildarumsókninni. Það sem verður okkur til happs í þessum efnum er núverandi tregða hjá ESB að opna á aðildarviðræður og frekari stækkun að sinni.

Það sem ég vil einkum benda á í þessu samhengi er: ESB-þróun VG sýnir hvað gerist með flokk sem svíkur sjálfan sig. VG fór í ríkisstjórn með Samfylkingunni 2009 og fórnaði þá ESB-stefnu sinni snarlega fyrir það samstarf (fórnaði reyndar ýmsum öðrum stefnumálum líka) og lagði inn aðildarumsók án þess að spyrja þjóðina fyrst – vísandi til „lýðræðisástar“ flokksins þar sem þjóðin skyldi fá að tjá sig um lokaniðurstöðuna! Ekki nóg með það, frá þessari stjórnarmyndun tók VG-forustan ESB-andstöðuna algjörlega af dagskrá sinnar orðræðu meðan aðildarsinnar fluttu sitt mál sem óðir væru. Hjörleifur Guttormsson þingmaður og félagi í flokknum til 2013 skrifaði seinna: „Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009 minnist ég þess ekki að Steingrímur J. sem formaður eða arftakinn Katrín Jakobsdóttir hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.“ ("Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018", Mbl. 26. október 2016)

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn.

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn.