Monday, November 5, 2012

Þjóðfélagsskipan í kreppu


(birtist á marxismi.com apríl 2009 og eggin.is ágúst 2009)


Hannes Hólmsteinn Gissurarson finnur orsakir núverandi kreppu í einu tæknilegu atriði, bandarískum húsnæðismálasjóðum (með upphaf í efnahagsstefnu Clinton-stjórnarinnar) sem veittu undirmálsfólki undimálslán (sjá hannesgi.blog.is – leitið að orðinu „undirmálslán“). Óstjórn, vanhæfni og spilling íslenskra ráðamanna er orsökin segja aðrir. „Spillt stjórnmálastétt“ segir Þorvaldur Gylfason. Gamaldags, borgaralegir og íhaldssamir umbótasinnar eins og Ragnar Önundarson greina á milli „féfletta“ sem stunda spákaupmennsku af fíkn og „alvöru fjárfesta“, og segir að þeir fyrrnefndu hafi orðið ofan á eftir aðsteðjandi sókn frjálshyggjunnar fyrir áratug eða rúmlega það. Þingmenn VG taka undir þetta og kenna um hægrisinnaðri stjórnarstefnu, „eftirlitslausu ríkisvaldi frjálshyggjunnar“. Þeir bæta við að með því að kjósa vinstristjórn megi endurbæta auðvaldskerfið, sníða af því vankanta og smyrja legur og reka það síðan sem skynsamlegan kapítalsima eða „blandað hagkerfi“, laust við stjórnleysi markaðarins, og væntanlega laust við bæði kreppur og misrétti. Þeir benda á Skandinavíu og vísa stundum í breska hagfræðinginn John M. Keynes. Loks koma prestar og siðapostular og tala um „græðgisvæðingu samfélagsins“ sem skýringu á ofvexti bankanna og vilja hefðja almenna siðvæðingu. Engin þessara skýringa leitar orsakanna í grundvellinum sem undir býr, í hagkerfi og þjóðfélagsskipan auðvaldsins.


I. hluti: Heimskreppan

Eðli og einkenni kapítalískrar kreppu

Hin innbyggða stöðuga tilhneiging auðvaldsskipulagsins til kreppu sprettur beint af  grundvallarandstæðum kerfisins, andstæðunni milli félagslegs eðlis framleiðslunnar og einkaeignar á framleiðslutækjum. Verslunarkreppurnar, segir i Kommúnistaávarpinu, steðja að með vissu millibili og þær

tefla allri tilveru hins borgaralega þjóðfélags í tvísýnu. Í verslunarkreppunum eru ekki aðeins miklar afurðir eyðilagðar heldur eru framleiðsluöfl sem fyrir eru að engu ger. Í kreppunum gýs upp þjóðfélagsleg farsótt sem öllum fyrri öldum hefði virst ganga brjálæði næst – farsótt offramleiðslunnar. Þjóðfélagið er snögglega hrapað aftur niður á villimennskustig um stundarsakir. Hungursneyð, allsherjar eyðingarstríð, virðist banna mönnum alla björg. Svo lítur út sem iðnaður og verslun  séu í rústum, – og vegna hvers?
Vegna þess að þjóðfélagið er búið of mikilli siðmenningu, of miklum vistum, of miklum iðanði, of mikilli verslun. Framleiðsluöflin sem borgarastéttin ræður yfir fá ekki lengur unnið eignahagsskipan hennar til gagns eða þrifa... Hvernig vinnur borgarstéttin bug á kreppunum? Annars vegar með því að ónýta framleiðsluöfl í stórum stíl. Hins vegar með því að afla sér nýrra markaða og nýta gerr hina gömlu. En hvað leiðir af þessum aðgerðum? Hún undirbýr margþættari og háskalegri kreppur í framtíðinni... (Kommúnistaávarpið, Hið ísl bókmenntafélag, 2008, bls. 184).

Ennfremur sprettur krepputilhneigingin af því sem er grundvallarmarkmið og hreyfiafl kapítalískrar framleiðslu og reksturs: gróðasókninni. Sóknin í gróða er innsta eðli auðveldskerfisins og birtist í upphleðsluhneigð, útþensluhneigð. Hana verður að skilja í samhengi við hið sérstaka kapítalíska form arðráns: framleiðslu á gildisauka. Vinnuaflið er vara á markaði. Gildi þeirrar vöru ákvarðast af kostnaði við framleiðslu hennar eins og gildi annarra vara (þá á Marx við skiptagildi, má líka kalla markaðsgildi), en hún býr yfir þeim eiginleika að auka gildi sitt í framleiðsluferlinu. Marx setti arðránið fram á eftirfarandi grafíska hátt: Verkamaður við framleiðslustörf vinnur tvískiptan dag, fyrst þann tíma sem hann framleiðir jafngildi þess sem hann þarf til eigin neyslu (tilsvarar launum) og síðan þann tíma sem hann framleiðir gildisauka – sem hann fær ekki greitt fyrir. Gróði auðherrans grundvallast allur á gildisaukanum og hann reynir eðlilega að stækka hann sem mest. Það er sögulegt markmið auðmagnsins að koma sem næst allri samfélagsstarfsemi á markað. Fyrir auðmagnið eru þau störf ein framleiðin sem framleiða vöru og þar með gildisauka. Aðrir hlutar atvinnulífsins, svo sem bankastarfsemi, verslun, löggæsla og opinber þjónusta nærast af gildisaukanum sem verður til í framleiðslugreinum.
            Sóknin í gildisaukann er ær og kýr auðvaldsins. En um leið er hún akkilesarhæll þess. Verkafólkið, almennt launafólk, framleiðir gildisaukann og er jafnframt helsta uppistaðan í kapítalískum markaði. Auðherrann reynir sífellt að stækka gildisaukann – þann hluta framleiðslunnar sem er umfram það sem svarar til neyslu verkafólksins. Gildisaukinn er því í eðli sínu umframframleiðsla. Arðránið ógnar sjálfu sér. Markmið og hvati kefisins verður ekki framleiðsla heldur umframframleiðsla, og þar af  skapast hin sífellda tilhneiging til offramleiðslu og samdráttar, þegar upp hleðst framleiðsla sem ekki er markaður fyrir.
            Sígild er spurningin um kaupgjaldið og áhrif þess á atvinnustig og kreppur. Hin andstæðu rök hafa gjarnan verið annars vegar rök hægri manna og atvinnurekenda og hins vegar rök sósíaldemókrata.  Hægrisinnaðir hagfræðingar segja að of há laun ellegar of mikil opinber velferðargæði skerði gróðahlutfallið svo mjög að það virki hamlandi á fjárfestingar og valdi svo haglægð og jafnvel kreppu. Gegn þeim er teflt klassískum rökum sósíaldemókrata að hærri laun og meiri opinber velferðargæði örvi svo eftirspurnarhliðina að það forði atvinnulífinu frá kreppu. Rök marxista eru hins vegar þau að það komi svipað út gagnvart kreppunni hvort heldur menn auka hlut launanna eða gildisaukann. Það er ekki hægt að auka hlut launanna öðru vísi en að það komi niður á arðsemi (gróðahlutfalli) og þar með fjárfestingarvilja auðmanna – og það er ekki heldur hægt að hækka gróðahlutfallið öðru vísi en að það komi niður á kaupgetu launamanna, og þar með markaðnum. Ástæðurnar eru ósættanlegar grundvallarandstæður auðvaldskefisins.
            Lýsa má útþensluhneigðinni með því að skoða tvo auðmenn sem gætu verið útrásarvíkingar eða eitthvað annað. Auðmaður N ráðstafar fyrirtæki með arðsemiskröfu upp á 5% en auðmaður M á fyrirtæki með arðsemiskröfu upp á 10%. Bæði fyrirtækin hófu göngu sína 1. jan. árið 2000 og nam fjármagn hvors fyrirtækis þá 100 milljónum.  Ári síðar er því fjármagn fyrirtækis N orðið 105 milljónir en fjármagn fyrirtækis M 110 milljónir. Með einföldum reikningi sést að árið 2010 er fjármagn fyrirtækis N orðið 163 milljónir en M 259 milljónir, og árið 2020 ráðstafar N 265 milljónum en M 673 milljónum o.s.frv. Ef auðmennirnir tveir eru keppinautar á hlutabréfamarkaðnum er auðskilið að innan fárra ára verða umsvif/ áhrif/ völd auðmanns N lítil í samanburði við auðmann M. Hann á m.a.s. á hættu að verða yfirtekinn af M eða rutt úr vegi. Jafnvel án þess að kreppa komi til skjalanna. Valkostir einstakra auðherra í samkeppni markaðarins eru þeir að þenjast út eða deyja ella. Og þetta eru álög auðvaldsskipulagsins sjálfs.
            Hin ríka upphleðsluhneigð kapítalismans reyndist búa yfir miklum krafti til að umbylta samfélögum og koma af stað mikilli þróun framleiðsluafla eins og m.a. er vel lýst í Kommúnistaávarpinu. En hin framfarasinnaða hlið auðvaldskerfisins tilheyrir sögunni og lengi hefur niðurrífandi hlið hans – miskunnarlaus rányrkja á fólki og náttúrulegu umhverfi – ráðið mestu.

Tilhneiging gróðahlutfallsins til að lækka – Almenna kreppan

Marx sundurliðar gildi framleiðslunnar (vörunnar) svo:
Heildargildi = fast auðmagn + breytilegt auðmagn (launakostnaður) + gildisauki.
Fast auðmagn (F) er sá hluti auðmagnsins sem felst í framleiðslugögnum (tækni, byggingum og hráefnum) en breytilegt auðmagn (B) er sá hluti auðmagns sem felst í vinnuafli. 
Heildargildi = F + B + G
Gildisaukahlutfallið er  G/B og má  einnig kalla arðránsstig. En gróðahlutfallið er sú tala sem auðmaðurinn frekar horfir á, þ.e.a.s. gildisauki á móti heildarfjárfestingu:
Gh = G/(F+B)
Nú er það svo með fjárfestingu í tækni að til langs tíma virkar hún fyrst og fremst verðlækkandi en ekki gróðaaukandi. Marx sýndi fram á að fasta auðmagnið skapaði ekki gildi heldur aðeins yfirfærði gildi sitt á framleiðsluvöruna. Aðeins varan vinnuafl (B) er ávöxtunarsöm og hefur þá sérstöðu að auka gildi sitt í framleiðsluferlinu (sem skýrir heitið „breytilegt auðmagn“). Aukin tæknivæðing og sjálfvirkni leiðir hins vegar til þess að hlutur fasta auðmagnsins vex meira en hlutur breytilega auðmagnsins. Þess vegna fer hlutfallið  F/B hækkandi – Marx kallaði það hækkandi „lífræna samsetningu“ auðmagnsins.  Gildisaukahlutfallið getur haldist óbreytt eða vaxið, en gróðahlutfallið er dæmt til að lækka í tímans rás.
            Til að vega upp á móti lækkandi gróðahlutfalli tekur auðherrann samt það ráð að auka tækni sína, auka fasta auðmagnið. Með því móti styrkir hann samkeppnisstöðuna, eykur gróða sinn í peningum og umsvifin aukast þó enn meir. Að örðum kosti verður hann undir. En gallinn er að aðrir auðmenn breðast eins við vandanum. Afleiðingarnar eru tvær: Annars vegar hlýtur þenslan að vaxa, útþensluhneigðin er kerfinu eðlislæg. Hins vegar hlýtur gróðahlutfall auðstéttarinnar í heild að lækka. Tilhneigingin til stöðnunar og endurtekins samdráttarskeiðs er einnig innibyggð í auðvaldskerfið, í langtímasamhengi lækkar hagvöxturinn frá einum áratug til annars. Þarna liggur hin almenna kreppa auðvaldsskipulagsins. Henni til viðbótar koma hagsveiflutengd samdráttarskeið og kreppur.
            Auðvaldskerfið reynir í sífellu að komast út fyrir hinar ásköpuðu takmarkanir sínar, auka arðránið, skapa nýja eftirspurn, stækka markaðinn. Þróun heimsauðvaldsins af stigi frjálsrar samkeppni og yfir á stig einokunarauðvalds báðum megin  við aldamótin 1900 leiddi annars vegar af sér mikla samþjöppun gróðans og hins vegar stóraukna innbyggða útrásarhvöt auðmagnsins, heimsvaldastefnuna. Síðan hefur kapítalísk heimsvaldastefna verið samgróin útþensluhneigðinni og er grundvallaraðferð kerfisins til að auka gróðann.
            Jafnframt er heimsvaldastefnan aðferð kerfisins til að forðast eilífa ásókn haglægðar og kreppu. Þetta birtist með ýmsu móti. Ein myndin er hervæðing efnahagslífsins. Vopnakaup ríkisins eru út af fyrir sig eftirspurn og eru þar með tilraun til að hindra efnahagssamdrátt sbr. útgönguleið Þriðja ríkisins úr kreppunni á 4. áratugnum. Sama má segja um heimsvaldasinnaðan hernað sem er efnahagskerfinu nauðsynlegur til viðhalds sér og tryggingar áhrifasvæða. Í Bandaríkjunum fara 43% skattpeninganna í hernaðarútgjöld um þessar undir.  Hversu vel heimsvaldasinnaður hernaður virkar á hagvöxtinn fer vissulega eftir því hve vel hann gengur. Írak I gekk vel en Írak II gengur brösuglega. Atént er stríðsreksturinn tvíbent vopn. Bæði hermálaútgjöld og styrjaldir koma harkalega fram í skattaálögum í heimsvaldaríkjunum sjálfum, og draga þannig úr kaupgetu fjöldans sem stuðlar um síðir einmitt að – kreppu.

Keynesismi og nýfrjálshyggja

Keynes var þekktasti fulltrúi borgaralegra hagfræðinga sem töldu að temja mætti kapítalismann og sníða af honum agnúana svo að hann fullnægði samfélagslegum þörfum. Endurbæturnar væru líka nauðsynlegar til að forða honum frá samdrætti og kreppu. Keynes sá, ekki síst í ljósi kreppunnar 1930, að endurskoða þurfti hina bjartsýnu trú á sjálfstýringu markaðarins (að framboðið skapaði sína eigin eftirspurn) og vinna þyrfti skipulega gegn hagsveiflum hans. Lausnir hans fólust einkum í því að styrkja eftirspurnarhliðina á samdráttartímum, með virku ríkisvaldi, auknum ríkisútgöldum fjármögnuðum m.a. með auknu peningamagni, prentun peninga og háum sköttum.
Með því að yfirvinna stjórnleysi hins óhefta markaðar, taldi Keynes, mætti tryggja óþrotlega fjárfestingamöguleika á markaðsforsendum samfara vaxandi velsæld þegnanna, og þar með sátt og samvinnu stéttanna. Á stríðsárunum slógu hugmyndir hans í gegn í Bandaríkjunum (það var þó stríðið sjálft sem leysti Bandaríkin úr kreppu, ekki keynesismi) og á eftirstríðsárunum í Evrópu. Fyrstu tvo áratugina eftir stríð ríkti bjartsýni um kreppulaust auðvaldsskipulag. Bandaríkin, forustuland auðvaldsins, komu efld og ósködduð út úr hildarleiknum, framleiðslukerfi þeirra bjó yfir feiknalegum krafti, þau þöndu út heimskerfi sitt og réðu yfir auðlindum í öllum heimshlutum. Efnahagur Vestur-Evrópu var endurreistur m.a. með Marshallaðstoð og bandarískum lánum, þar blómstruðu velferðarkerfi og atvinnuleysi var lítið. Sósíaldemókratíið dafnaði og þetta var góðæri stéttasamvinnunnar, en raunar var hugmyndum Keynes um hið virka ríkisvald óspart beitt af borgaralegum flokkum líka. Í hinum iðnvæddu löndum jókst framleiðslan hratt og gróðahlutfallið var hátt.
Fyrsta alvarlega samdráttarskeiðið í auðvaldsheiminum eftir síðari heimsstyrjöld kom á 8. áratugnum – í Bandaríkjunum kennt við „olíukreppu“ og batnaði ekki við ósigurinn í Indókína. Gróðahlutfallið tók þá að lækka alvarlega og vöxturinn í framleiðslunni hægði á sér til frambúðar. Offramleiðslukreppan birtist sem offjárfesting og vannýtt afköst framleiðslukefis. Miðað við reynslu fyrri ára hefði mátt búast við að viðskiptalífið og stjórnmálastéttin svaraði haglægðinni með virkum vinnumarkaðsaðgerðum og Keynesisma – en svo varð ekki. Sjálfu gróðahlutfallinu var ógnað og svar auðvaldsins var einfaldlega hrárri og grimmari kapítalismi. Þegar „ný“ frjálshyggja, fyrst kennd við Tatcherisma ellegar „Reaganomics“, kom inn á sviðið (Tatcher og Reagan komu til valda 1979 og 1980) var hún beint svar við hinum nýju krepputeiknum. Í stað þess að fleygja fleiri molum í verkalýðshreyfinguna var snúist gegn virkum stéttarfélögum af hörku, farið að éta af velferðarkerfinu, auka misskiptingu í samfélaginu skref fyrir skref og opna lönd fyrir alþjóðlegu fjármagni (gegnum Heimsbankann, AGS, GATT, ESB...). Markaðurinn bauð lausnirnar. Ein mikilvæg aðferð auðmagnisns til að útvíkka markaðinn og þenslumöguleika sína varð nú að einkavæða ný svið svo sem hefðbundna velferðarþjónustu eins og skóla og heilsugæslu, og breyta þannig slíkri starfsemi í vöruframleiðslu.
Þróunin síðustu áratugi hefur öll verið öndverð hugmyndum Keynes. Sósíaldemókratar hafa þó haft völd, jafnvel í stórum Evrópuríkjum – Mitterand, Schröder, Blair – en þeir hafa ekki einu sinni borið það við að nota keynesískar aðferðir, sá tími er liðinn. Þeir hafa lofað að tryggja fjármagnseigendum arðsemi peninganna og afnumið hömlur á frelsi markaðarins. Hver á sínum stað hafa þessir krataforingjar rutt frjálshyggjunni leið. Uppsveifla eftirstríðsáranna var afbrigðilegt ástand. Það hefur sýnt sig að áhrif keynesismans var fremur afleiðing af velgengni kapítalismans en orsök hennar. Fyrir auðmagnið var hann lúxusfyrirbæri. Nú er heimurinn annar. Veruleikinn rífur sundur hina fánýtu kratadrauma og mismunur á hagstjórn krata og hægri manna verður æ minni. Viðsnúningur til „velferðarkapítalisma“ er ekki í boði. Og enn er á leiðinni heimskreppa af stóru gerðinni.

Fjármálavæðing kapítalismans

„...við höfum séð hlutfallslegan samdrátt framleiðslu í þróuðu auðvaldslöndunum þar sem hagkerfið hefur gengið gegnum „fjármálavæðingu“ (financialization). Þó að þetta sé fremur afleiðing en orsök stöðnunarinnar hefur það valdið raunverulegri breytingu á kerfinu í þá veru að fjármálaauðvaldið  verður ríkjandi og kapítalisminn óstöðugri og stjórnlausari. Eins og Sweezy skrifaði í Sigur fjármálaauðvaldsins: „Áður fyrr hefði enginn“ – ekki Keynes heldur – „látið sig dreyma um að spákaupmennskuauðmagn – jafn gamalt fyrirbæri og auðmagnið sjálft – skyldi vaxa svo að það réði ríkjum í efnahagslífi heilla ríkja, hvað þá efnahagslífi heimsins.“ (monthlyreview.org/0305jbf.htm)

Svo ritar bandaríski marxistinn John Bellamy Foster í grein sinni „Endalok skynsamlegs kapítalisma“ frá 2005. Ef rannsökuð er þróun auðvaldskerfisins á þremur áratugum síðan uppgangur frjálshyggjunnar hófst felst breytingin einkum í þessu: fjármálavæðingu (eða verðbréfavæðingu). Samdrátturinn á 8. áratugnum sýndi að vaxtamöguleikar hagkerfisins höfðu sín takmörk. Vandi auðhringanna lá ekki í  því að þá vantaði peninga. Gróðinn var yfrinn – en hvar skyldi fjárfesta? Nýjum arðvænlegum fjárfestingarmöguleikum fækkaði stöðugt. Úrræði auðmagnsins varð einkum tvíþætt – og eins og oft áður var það Bandaríska hagkerfið sem lagði brautina: Í fyrsta lagi að þróa markaðinn fyrir fjármálaafurðir sem skóp nýja útþenslumöguleika. Um framboðshlið markaðarins sáu ný fjármálaverkfæri eins og vogunarsjóðir, afleiðusamningar, framvirkir viðskiptasamningar á verðbréfamarkði o.s.frv. sem stórlega örvuðu alls konar veðlánaþjónustu. Í öðru lagi var lausnin að nota meira á sjálfan sig, meiri ofurlaun og einkaneysla fyrir fjármagnseigendur sjálfa og þeirra fólk. Samkvæmt þessu liggur í hinni almennu kreppu kapítalismans efnahagslegur hvati til bæði fjármálavæðingar og „græðgisvæðingar“.
             Eftir að fjármálavæðingin komst á skrið tók fjármálakerfið að lifa sjálfstæðu lífi og gat sýnt hagvöxt óháð vextinum í vöruframleiðslu og þjónustu, þ.e.a.s. þeim geirum sem menn hafa farið að kalla „raunhagkerfið“. Auðmagnið gat þanist út án neins tilsvarandi vaxtar í framleiðslu: ég sel þér hlutabréfin mín og þú selur mér þau aftur á hærra verði. Hægt er að blása út auðmagn með því að byggja það á lánsfé og draga inn í dæmið væntingar um gróða. Þarna er komið það sem á útlensku kallast „kasínó-kapítalismi“. Verslun með hlutabréf nam árið 1970 13% af vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna en árið 2000 145%. Svonefndir „afleiðusamningar“ jukust um meira en 100% árlega á heimsvísu á árabilinu 2001-06, og með orðum Lawrence Summers, fjármálaráðgjafa Obama: „..sú staðreynd að 40% af ágóða bandarískra fyrirtækja árið 2006 fór til fjármálageirans... hefði átt að vekja spurningar.“ (Financial Times 27. okt. 2008)
            Sú fjármálavæðing sem hér um ræðir er miklu víðtækara fyrirbæri en þær spákaupmennskubólur sem í heila öld hafa þanist út undir lok hverrar uppsveiflu kapítalísks markaðar. Ef slegið er upp orðinu „fjármálavæðing“ (financialization) í Wikipedíu segir að hún hafi eftirfarandi einkenni:

..vaxandi yfirdrottnun fjármálageirans í efnahagslífinu í heild, drottnun fjármálastjórnenda yfir stjórnun fyrirtækja, drottnun fjármagnseigna yfir heildareignum, drottnunarstöðu verðbréfa á markaði og hlutabréfa meðal heildarfjármagnseigna, yfirráðum hlutabréfamarkaðarins yfir fyrirtækjum og rekstrarstefnu þeirra, og því að sveiflur á hlutabréfamarkaði ráða úrslitum um hagsveiflur... (en.wikipedia.org/wiki/Financialization, vitnað í R. Dore)

Frá því á 8. áratugnum hefur breytingin á kjarnsvæðum heimsauðvaldsins orðið þessi: einokunarauðvaldið er orðið að fjármála-einokunarauðvaldi. Þessi þróun sjálfs efnahagsgrundvallarins hefur hins vegar notið miklu minni athygli en hin hugmyndalega yfirbygging hans, nýfrjálshyggjan.
            Nokkurt missætti er um hina miklu framrás fjármálaauðvaldsins, bæði meðal borgaralegra hagfræðinga og innan auðvaldsins, og birtist sem tíð átök  milli framleiðsluauðvalds og fjármalaauðvalds, ekki síst á krepputímum. Þar eru línurnar þó aldrei hreinar og jafnan mikil eignatengsl milli þessara geira efnahagslífsins. En margir gegnir atvinnurekendur telja hinn ofvaxna fjármálageira – spákaupmennsku og kasínó-fjárfestingarfélög – vera afætu á samfélaginu, sem hún auðvitað er. Þeir sjá þar margan braskara og óreiðumann. En þegar þeir kenna fjármálageiranum um samdrátt og kreppu auðmagnsins snúa þeir hlutunum á haus. Vöxtur fjármálageirans er afleiðing af almennri kreppu auðvaldsins og viðbrögð auðvaldsins við henni, ekki orsök hennar. Auðmagnið þenur sig út í fjármálageiranum af því gróðavænlegir fjárfestingarmöguleikar eru þrotnir í raunhagkerfinu.
Það er ástæða til að minna á þekkta greiningu Leníns á myndun og drottnunarstöðu fjármálaauðvalds í iðnríkjunum nálægt aldamótunum 1900 (sjá Heimsvaldastefnan, hæsta stig auðvaldsins frá 1916, útg. Rvk. 1961). Að sínu leyti byggði Lenín m.a. á verkum austurríska marxistans Hilferdings sem skrifaði um stóru fjárfestingabankana: „..[bankinn] festir æ meira af fjármagninu í iðnaðinum... gerist iðnrekandi í sífellt stærri stíl. Þetta bankafjármagn, þ.e.a.s. fjármagn í peningaformi sem þannig hefur breyst í iðnðarfjármagn, kalla ég fjármálaauðmagn ..fjármagn sem bankarnir ráða yfir en iðnrekendur nota.“ (Hilferding, Das Finanzkapital, Berlin 1947, 305). Sú fjármálavæðing sem hér er lýst er f.o. fr. geysimikil samþjöppn auðmagns á grundvelli iðnaðarframleiðslu. Stórbankarnir verða yfirstjórnendur auðmagnsins en helstu fjárfestingarnar eru þó í iðnaðinum.  Skv. Bellamy Foster veiktust bankarnir í kreppunni á 4. áratugnum og gegndu ekki lykilhlutverki í endurreisninni á 5. áratugnum.
Drottnun fjármálaauðvalsins um og upp úr 1900 var merki um sóknarherstjórn einokunarauðvaldsins.  Fjármálavæðingin (verðbréfavæðingin) eftir 1980 hefur hins vegar á sér sterkan hnignunar- og afætusvip. Hún felur í sér viðleitni auðmagnsins til að ávaxta peningafjármagn sitt óháð framleiðslunni. Þessi útþensluleið leysir ekki vanda kerfisins frekar en aðrar lausnir. Þó að fjármálakerfið hafi að vissu marki dafnað óháð raunhagkerfinu hvílir hið fyrrnefnda enn sem áður á hinu síðarnefnda og lifir á gildisaukanum sem þar er skapaður. Vöxturinn í raunhagkerfinu er sorglega lítill og fjármálakerfið sjálft skapar engar vörur og engan  gildisauka. Grundvallarandstæður arðránskerfisins eru óleystar og þar með kreppuvandi auðmagnsins. „Í stað raunverulegrar framþróunar virðist auðmagnið vera innilokað í endalausri hringrás stöðnunar og verðbréfasprenginga“, skrifar áðurnefndur J. Bellamy Foster. 

II hluti: Íslenska kreppan

Hið dæmigerða

Eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008 er það mikill siður þeirra hagfræðinga og stjórnmálamanna sem stóðu heiðursvörð á tíma „íslenska efnahagsundursins“ að skýra kreppuna sem afkvæmi fjármálafúskara og efnahagslegra viðvaninga, en aðrir leggja áherslu á blöndu af fjárglæfrum og spillingu, jafnvel landráð. Sá sem hér skrifar er annarrar skoðunar. Íslenskir auðmenn voru nútímalegir og dæmigerðir. Íslenska efnahagsþróunin síðasta einn til tvo áratugi fyrir kreppu var í öllum meginatriðum dæmigerð fyrir þróunina í þróuðum vestrænum auðvaldsríkjum á sama tíma.
Fjármálavæðingin í Bandaríkjunum fór á skrið samhliða uppgangi kenninga Friedmans og Chicago-hagfræðiskólans um markaðsfrelsi á 8. áratugnum. Þær kenningar lögðu hugmyndagrunn að því að leysa fjármála- og bankakerfið undan opinberri stýringu og eftirliti. Þróun hér kom nokkru seinna en var á flestan hátt samhljóða. Fjármagns- og gjaldeyrisflutningar til og frá landinu voru gefnir frjálsir með reglugerðarbreytingum um Seðlabankann kringum 1990 undir forustu „vinstriráðherranna“ Ólafs Ragnars Grímssonar og Jóns Sigurðssonar. Svo fylgdi hlutafjárvæðing og einkvæðing eins sviðs af öðru. Hlutabréfamarkaðurinn tók mikinn kipp með markaðsvæðingu sjávarútvegsins. Inngöngunni í EES fylgdi frjálst flæði fjármagns og haftalaust laga- og regluumhverfi á fjármálamarkaði. Þróun íslenska auðvaldsins undanfarinn áratug er rétt lýst með hugtakinu „fjármálavæðing“, þungamiðja efnahagslífsins færðist frá framleiðslu til fjármála og yfir í algjöra yfirdrottnun fjármálaauðvaldsins. Opinbert eftirlit og stjórnun minnkaði stöðugt og hlutabréfamarkaðurinn – stjórn hans og stjórnleysi –  varð stærsti gerandinn í þróuninni. Hér varð gífurleg samþjöppun auðs, miklar krosseignir og óhætt að tala um fjármála-einokunarauðvald. Einkavæðing bankanna kom í áföngum en stærstu skrefin voru ekki tekin fyrr en 2002. Og einkavæðing orkugeirans var að komast  á skrið rétt um það leyti sem hrunið varð.

Sértilfellið Ísland

Þótt þróunin hérlendis sveigi sig vel að ríkjandi meginstefnu vestrænna auðvaldsríkja er það óumdeilt að kreppan hér er djúp og hún skall fyrr á en víðast hvar. Nú skal tilgreina nokkra þætti sem stuðluðu að því að Ísland varð illa úti.
Einkavæðing stærstu bankanna varð við skilyrði alþjóðlegrar lánaþenslu á aljóðamörkuðum, þ.e. við bullandi framboð lánsfjár með vaxtastig í algjöru lágmarki. Það er líklegasta skýringin á því að fjármálavæðingin varð hraðari hér – og jafnframt skuldsettari – en í öðrum löndum.    
            Önnur ástæða snöggrar fjármálavæðingar hér er virkur stuðningur íslenskra stjórnvalda við hana. Dæmi um það var að um aldamótin 2000 var skattaumhverfið stórbætt fyrir fjármalaauðvald á Íslandi þegar söluhagnaður af hlutabréfum var lækkaður úr 45% í 10%. Á Viðskiptaþingi árið 2005 sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra:

Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda... Við eigum ekki að harma það þótt upp spretti stöndug fyrirtæki hér á landi og fleiri fái ríkulega greitt fyrir vinnu sína. Það er ekkert takmark að allir verði á endanum meðalmennskunni að bráð.“

Þriðja ástæðan er að viðnámið gegn frjálshyggjunni hérlendis var veikt. Allir eiga sína Hannesa Hólmsteina en hitt skipti meira máli að fátt var um varnir. Búast hefði mátt við andspyrnu frá verkalýðshreyfingunni, en hún hafði yfirleitt lítið við markaðshyggjuna að athuga, hallaði sér mjög í átt að markaðslaunakerfi og tók virkan þátt í íslenskri fjármagnsútrás í gegnum lífeyrissjóðina. Hægri kratar Samfylkingar hafa stutt markaðsvæðinguna skilmálalítið og andstaða vinstri kratanna í VG hefur verið óskipuleg og einstaklingsbundin. Raunar hafa allir íslenskir stjórnmálaflokkar stillt sér á bak við fjármálavæðingu og útrás íslensks efnahagslífs.
            Hvað um skýringar Ragnars Önundarsonar á kreppunni – um ofurvald „féfletta“ sem stundað hafa spákaupmennsku og eyðilagt fyrir „alvöru fjárfestum“ sem verja fé sínu öðrum til góðs? Það er út af fyrir sig fánýtt mál að reyna svo mjög að greina þarna á milli, einfaldlega vegna þess að markmið og hvati kapítalísks  reksturs er að tryggja arðsemi peninganna. Ekkert annað. Hins vegar eru mikil átök innan auðvaldsins á Íslandi, ekki síður en í öðrum löndum, m.a. átök milli framleiðsluauðvalds og  fjármálaauðvalds – þó að hér sem annars staðar séu mikil eignatengsl milli þessara tveggja geira. Átökin sem holdgerðust í slag Davíðs Oddssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar má skoða í því ljósi. Fjármála- og verðbréfarisarnir íslensku eru ekki bara frekir til fjárins. Þeir hafa komið sér upp hugmyndafræði um „upplýsingasamfélag“ og „nýja hagkerfið“, um hina framsæknu þróun frá framleiðslusamfélagi til „þjónustu- og þekkingarsamfélags“. Það þykir nútímalegt að framleiðslan flytjist til landa þar sem vinnuafl er ódýrt. Þetta er hluti af hugmyndafræði hins hnattvædda fjármálaauðvalds, hún hvorki frumleg né séríslensk.
           
Fjármálavæðing sem viðbrögð við stöðnun í raunhagkerfi

Liggur skýringin á stöðnun og kreppu íslenska hagkerfisins í ofvexti fjármálaauðvaldsins? Já og nei. Sá ofvöxtur getur skýrt það hvernig fallið bar að, en ekki kreppuna sjálfa. Ég tel að íslenska auðvaldskerfið, þ.e.a.s. raunhagkerfið, hafi náð ákveðnum ytri mörkum í hagvexti snemma á 9. áratugnum þegar fór að sneyðast um arðvænlega fjárfestingarmöguleika í framleiðslu. Um það leyti hófst alvarleg kreppa í sjávarútvegi sem hefur staðið síðan. Vandinn fólst í mikilli offjárfestingu í greininni þar sem fyrir hendi voru of mörg fiskiskip og fiskvinnsluhús til að skila ásættanlegum gróða. Síðan hefur gengið yfir greinina grimm hagræðing og samþjöppun auðmagns, sérstaklega eftir lög um frjálsa sölu aflaheimilda 1990.
Iðnvæðing á Íslandi hafði verið allör í landinu frá 4. áratugnum, en eftir að aðlögunartíma að EFTA lauk um 1980 harðnaði alþjóðlegt umhverfi iðnaðarins mjög og þá snarhægði á innlendri iðnvæðingu. Eftir það hefur iðnaðarauðvaldið hefur helst séð sér sóknarfæri í stóriðju í samvinnu við (og þjónustu við) erlent stórauðvald. Ef skoðaðar eru tölur Hagstofunnar um hlutfall iðnaðar af heildarútflutningi á tímabilinu 1980–2007 blasir við dálítill iðnvöxtur sem getur þó ekki kallast innlendur vöxtur.    

Hlutur iðnaðar af heildarútflutingi frá Íslandi
                                                                        1980                                                2007
 Iðnaðarvörur alls                                                21%                                                38.9%
Ál og unnin jarðefni                                            14%                                                30.5%
Aðrar iðnaðarvörur                                                7.7%                                                8.3%
(Hagskinna, 504–537 og www.hagstofa.is/hagtidindi)

Á töflunni má sjá að nánast allur vöxturinn í iðnaðarútflutningi er útflutningur frá erlendri stóriðju. Innlendur gildisauki af rekstri stóriðjuveranna á Íslandi er hlutfallslega lítill. Hlutfall annars iðnaðarútflutnings á þessu 27 ára tímabili stendur í stað. Það hefur raunar lækkað eftir aldamótin 2000, einkum eftir 2004 af því að tveir helstu vaxtarsprotar iðnaðarins á 10. áratugnum – annars vegar „Lyfjavörur og vörur til lækninga“ og hins vegar „Vörur til fiskveiða“ – drógust verulega saman á síðustu árum, m.a. vegna flutnings lyfjafyrirtækja úr landi. Þróun iðnaðarins í heild er miklu neikvæðari en tölurnar sýna af því iðnaðurinn árið 1980 var ennþá að stórum hluta fyrir heimamarkað en 2007 er hann nær fyrst og fremst útflutningsmiðaður. Iðnframleiðsla fyrir himamarkað – klæðaiðnaður, húsgagnaiðnaður, skipasmíðaiðnaður, skógerð, málning, hreinlætisvörur og fleiri greinar sem döfnuðu vel fyrir EFTA-aðild – hefur ýmist alveg hrunið eða skroppið alvarlega saman. Ofangreind þróunarstefna sýnir fyrst og fremst aðlögun að kapítalískum heimsmarkaði sem hefur að markmiði hámörkun fríverslunar og fjármagnsflæðis fyrir alþjóðlegt auðmagn en ekki þarfir hvers samfélags fyrir alhliða atvinnuuppbyggingu.
Upp úr 1990 lenti  íslenska hagkerfið í alvarlegum samdrætti vegna ofangreindrar þróunar í sjávarútvegi og iðnaði. Það leiddi svo til þess að í næstu uppsveiflu leitaði auðmagnið á aðrar slóðir. Langa hagvaxtarskeiðið eftir 1995 byggði fyrst og fremst á vexti fjármálaauðmagns. Gróði sægreifanna í sjávarútveginum átti sér ekki arðvænlega fjárfestingarmöguleika þar og ekki í iðnaðinum heldur. Þeir áttu þá ekki aðra arðvænlegri undankomuleið með gróðann en að hella sér út í fjármálageirann. Það er ástæða til að undirstrika að það voru markaðslögmál og hlýðni við þau sem beindi auðmagninu í þann farveg sem það flæddi, ekki hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins eða  pólitískt val stjórnmálamanna yfirleitt. Eftirfarandi tölur um atvinnuþróun tala sínu máli um fjármálavæðinguna eftir 1995:

Vinnuaflsþróun í frumframleiðslugreinum og fjármála- og viðskiptaþjónustu
                                                                        1995                                                2007
Störf í sjávarútvegi og landbúnaði                 22.500                                                13.400
Störf í fjármála- og viðskiptaþjónustu            13.400                                                25.900
(www.hagstofa.is/hagtidindi)

Tölurnar sýna nærri helmingsfækkun í landbúnaði og sjávarútvegi  á 12 árum en tvöföldun mannafla í bankageiranum og bera því fjármálavæðingu íslenska auðvaldskerfisins glöggt vitni. Líkt og úti í stóru auðvaldslöndunum sést að þróunin til fjármálavæðingar kemur sem viðbrögð auðvaldsins við almennu kreppunni,. Kreppan er sem sagt ekki afleiðing fjármálavæðingar heldur öfugt, fjármálavæðingin er svar við innbyggðri tilhneigingu til stöðnunar og kreppu.    
Fjármálavæðingin leysir hins vegar ekki vandamál auðvaldsins. Íslenska fjármála-einokunarauðvaldið hefur sýnt sig sem hnattvæðingar- og evrópusinnaðasta hluta auðstéttarinnar og það hugði fljótt á útrás, ekki síst med tilkomu EES-samnings. „Framleiðslusamfélagið hefur breyst yfir í þjónustu- og þekkingarsamfélag og ESS samningurinn lagði grunninn af því“, segir formaður Evrópusamtakanna, Andrés Pétursson (visir.is 8. 6. 2008). Eignir bankanna höfðu aukist gríðarlega og þeir þöndu sig út á EES-svæðinu. Hagvöxtur í landinu mældist mikill á meðan, en hann byggði ekki á aukinni framleiðslu heldur fjármálavæðingu, og jafnframt mikilli erlendri skuldasöfnun. Fjármálakerfið þandist út í ofurstærð, og haustið 2008 voru skuldir bankanna og þjóðarbúsins í heild orðnar yfir 800% af vergri landsframleiðslu. Þegar lausafjárkreppa steðjaði að svo að lokaðist fyrir alþjóðlegar (einkum bandarískar) lánalínur höfðu ríkið og Seðlabankinn ekki afl og gjaldeyrisforða til að tryggja fjármálakerfið sem lánveitendur til þrautavara og bankakreppan skall á.
Fjármálavæðing hagkerfisins gat m.ö.o. skapað tímabundinn hagvöxt, en sem lækning á tilhneigingu til stöðnunar reyndist hún skammvinn; fjármálavætt hagkerfið reynist ennþá óstöðugara og viðkvæmara fyrir samdrætti og kreppu en kerfið sem fyrir var. Í fjármálakreppunni er skuldum kasínókapítalistanna – þessum fyrirfram nýtta ránsfeng auðmanna – velt yfir á almenning eftir því sem mögulegt er. Í því felst eignatilfærsla frá alþýðu í viðbót við hefðbundið arðrán.
            Sú tilhneiging sem nokkuð hefur borðið á, að skoða íslensku kreppuna fyrst og fremst sem séríslenskan hálfvitagang, er ekki skilningsaukandi. Niðurstaða okkar verður sú að það skópust vissulega öfgafullar aðstæður á Íslandi – sem íslensk stjórnvöld bera sérstaka ábyrgð á – en þróunin fylgdi samt í öllum aðalatriðum  þróun auðvaldskerfisins umhverfis okkur og verður bara skilin í því samhengi.

Útgönguleið alþýðu

Engin vinstri stefna er möguleg á forsendum auðmagnsins. Íslenskir vinstrimenn sem ætla að bjarga íslenska auðvaldskerfinu eru á villigötum. Vandamálið er kapítalisminn sjálfur, ekki einstakir vankantar hans eða agnúar, ekki flokksveldi eða spilltir stjórnmálamenn. Svarið er því ekki „siðvæddur kapítalismi“ heldur byltingarsinnaður sósíalismi. Valkostir stjórnmálamanna í hagstjórn eru ekkert í ætt við val veislugests á hlaðborði heldur ákvarðast af skilmálum kapítalískra efnahagsafla og hins vegar af samtakamætti alþýðu. Valdið býr í efnahagslífinu, ekki á þjóðþinginu. Alþýðan á ekki aðra leið en leið stéttabaráttunnar og gönguna löngu til sósíalismans. Við þurfum samtakamátt, skipulega alþýðu, og við þurfum sósíalískt stjórnmálaafl sem getur skipulagt grasrótarbaráttu hennar. Fyrst er að berjast við kreppuna, síðan forynjuna móður hennar, auðvaldskerfið sjálft. Forynjan sú lasnast af kreppu en hún dettur ekki niður dauð af sjálfsdáðum. Íslensk alþýða sýndi það á götunum nú í janúar 2009 að hún býr bæði yfir sprengikrafti og úthaldi til baráttu. Það vekur bjartsýni. Það er tímafrekt og erfitt að  velta auðvaldinu. En hitt, að ætla að temja kapítalismann og bjarga honum þannig, er ekki bara erfitt, það er algjörlega ómögulegt – og ástæðulaust líka.

3 comments:

  1. Halló allir!
    Ég er Eva, sem nú býr í Selfossi. Ég er ekkja í augnablikinu með tveimur börnum og ég var fastur í fjárhagsstöðu í maí og ég þurfti að endurfjármagna og borga reikningana mína. Ég reyndi að leita lána frá ýmsum lánastofnunum bæði einkaaðila og fyrirtækja en aldrei með góðum árangri og flestir bankar lækkuðu lánshæfiseinkunnina mína. En eins og Guð hefði það, var ég kynntur samvinnufélagi af guðsmanni einkaaðila lánveitanda sem gaf mér lán 70.000 evrur og í dag er eigandi fyrirtækis og krakkarnir mínir eru að gera vel í augnablikinu, ef Þú verður að hafa samband við fyrirtæki með tilvísun til að tryggja lán án trygginga, engin lánshæfiseinkunn, ekki samningsaðili með aðeins 2% vexti og betri endurgreiðsluáætlanir og áætlun, vinsamlegast hafið samband við Mr Dante Paola í tölvupósti: dantecooperativehelp@hotmail.com Hann veit ekki að ég er að gera þetta en er svo hamingjusamur núna og ég ákvað að láta fólk vita meira um hann og líka að ég vil að Guð blessi hann meira. Þú getur haft samband við hann í gegnum tölvupóstinn hans: dantecooperativehelp@hotmail.com fyrir fljótlegt spjall eða whatsapp / +35677926593

    Takk
    Eva

    ReplyDelete
  2. Þarftu autt neyðarnúmer hraðbankakort til að mæta fjárhagslegum þörfum þínum og ég vil bara segja heiminum mína reynslu af öllum. Ég fann gabba sem hét Mike. hann er virkilega góður í því sem hann gerir, ég spurði um BLANK hraðbankakortið. ef það virkar eða jafnvel er til þá prófaði ég það og bað um kortið og ég er sammála skilmálum þeirra. þremur dögum seinna fékk ég kortið mitt og prófaði það með næsta hraðbanka sem var nálægt mér, mér til mikillar furðu virkaði það eins og töfrabragð. Mér tókst að taka upp allt að $ 4000. Þetta var magnaður og hamingjusamasti dagur lífs míns. það eru engar hraðbankar vélar, þetta BLANKA hraðbankakort getur ekki komist inn í það vegna þess að það er forritað með ýmsum tækjum og hugbúnaði. Mér fannst bara að þetta gæti hjálpað okkur sem þurfum á fjárhagslegum stöðugleika að halda. Kortið breytti virkilega lífi mínu. ef þú vilt hafa samband við þá, HÉR er tölvupóstur: blankatm156@gmail.com

    ReplyDelete
  3. Halló ég heiti Scott Mcall. Mig langar að nota þennan miðil til að deila fyrir ykkur hvernig líf mitt breyttist til hins betra eftir að hafa kynnst góðum tölvusnápur, ég fékk $ 15.000 USD á meðan ég vann með þeim. Þeir eru virkilega skilvirkir og áreiðanlegir, þeir framkvæma ýmis hakk eins og.
    AUTT hraðbankakort
    PAYPAL HACK flutningur
    Vesturbandalagið hakk
    PENINGARÁSKRÁ
    BITCOIN FJÁRfesting

    Vinsamlegast hafðu samband við þá í gegnum Jaxononlinehackers@gmail.com ef þú hefur áhuga á einhverju af þessu
    WhatsApp: +1 (219) 2714465

    Hafðu samband við þá í dag og vertu ánægður

    ReplyDelete