Saturday, November 10, 2012

Hlutverk Ögmundararmsins


(Birtist á eggin.is 28.okt 2010)

Ísland er auðvaldsríki. Í slíku efnahagskerfi fylgir valdið auðnum, liggur hjá auðstéttinni. Síðustu tvo áratugi hefur það einkum safnast hjá fjármálavaldinu – innlendu sem erlendu. Ríkisvaldið þjónar þessu efnahagskerfi og ríkjandi auðsamsteypum – innlendum og erlendum. Þá breytir það litlu til eða frá hvaða flokkar skipar ríkisstjórn.

Aðgerðir núverandi vinstristjórnar eru skólabókardæmi: Einkavæðing orkufyrirtækja, ný einkavæðing banka, stóriðjustefna, afskriftir á skuldum fyrirtækja en ekki á skuldum almennings, sukki og skuldum stórauðvaldsins er velt yfir á almenning, Íslendingum sem eiga yfir 100 milljónir fjölgaði á fyrsta ári „norrænu verferðarstjórnarinnar“ og eignir þeirra jukust talsvert. Stjórnvöld telja mikilvægasta verkefnið að endurreisa fjármála- og efnahagskerfið eftir áreksturinn. Sjálfstæði Íslands gagnvart ESB og NATO minnkar.  Það er erfitt að benda á nokkurt svið þar sem venjuleg miðhægri stjórn myndi breyta stórum öðru vísi í meginmálum en þessi gerir. Hvort sem stjórnarmunstrið heitir hægri eða vinstri er ríkisvaldið fulltrúi sömu afla. Talsmáti ólíkur, framkvæmd eins.

Megintaktík auðvaldsins í núverandi kreppu er þessi: Að láta vinstrimenn framkvæma kreppuráðstafanirnar. Það á að skerða kjör almennings um ca. 20% og skera niður velferðina álíka mikið. Það gengur betur ef vinstrimenn halda á skurðarhnífnum. Best ef þeir eru verkalýðsforkólfar um leið.

Sögulegt hlutverk krata er að sveigja baráttu alþýðu í þingpallafarveginn og undir leikreglur valdakerfisins. Vinstri kratar hafa þetta sama hlutverk og þáttur þeirra verður sérstaklega mikilvægur á óróatímum. Það er alveg ljóst að það var alveg afgerandi mikilvægt fyrir íslenska auðvaldið að fá VG inn í ríkisstjórn í endurreisnarstarfið upp úr ólgu Búsáhaldabyltingar. Kosningarnar í kjölfar hennar sýndu mikla vinstrisveiflu og vinstri menn fullir bjartsýni töldu tíma breytinganna kominn. Með vinstri flokkana í stjórn er ávinningur auðvaldsins þessi: samábyrgð almennings á kreppuhrjáðu auðvaldskerfinu. Borgum skuldir einkabanka og tökum niðurskurðarskellinn í sameiningu! Við erum stödd í járnbrautarlest og það er víst ekki hægt að beygja eða breyta neinu.

Frá sama sjónarhól var það líka stóráfangi að smala köttum  Ögmundararmsins inn í réttina aftur. Þar eru þeir einhvers konar pólitískt heilbrigðisvottorð gagnvart almenningi, og um leið gíslar í herbúðum valdsins. Fyrir auðvaldið er vænlegt að fá vinstri öfl upp í stjórnkerfið til að lama grasrótarbaráttuna (þ.e.a.s. stéttabaráttu alþýðu).  Það breytir litlu sem engu um framkvæmd stjórnarstefnunnar, en eykur á lömun vinstri manna. Ríkisvaldið styrkist, mótaflið í samfélaginu veikist.

Ögmundararmurinn er fulltrúi verkalýðs- og baráttusinnaðari hluta VG. Það er óþarft að draga það í efa. Þessi „órólega deild“ var mögulega á leið að verða sjálfstætt afl  og hluti af andspyrnubaráttunni miklu, en ný innkoma Ögmundar torveldar mjög viðleitni í þá átt. Þátttaka í þessari ríkisstjórn er örugg ávísun á svik.

Samt sýnir sig að andaspyrna gegn árásum auðvaldsins er ennþá mikil meðal alþýðu, sbr nýleg mótmæli á Austurvelli. Þær aðgerðir eru vottur um aukna vitund og þátttöku almennings í stjórnmálum. Að nokkru leyti má þakka það upplýsingarbyltingunni. Slíkar aðgerðir boða sitjandi elítum ógn og óöryggi.

Enn og aftur sýnir sig að aðeins fjöldabarátta getur haft áhrif á stefnu stjórnvalda. Málflutningur Jóhönnu og Steingríms breyttist umtalsvert strax daginn eftir umrædd fjöldamótmæli. En aðgerðirnar virtust mikið til vera sjálfsprottnar, og áttu ekki upptök í hinu pólitíska vinstri. Þaðan er lítillar foustu að vænta sem stendur. Grasrótarhreyfingin enn forustulausari en hún var í Búsáhaldabyltingunni. Fyrir vikið eru stefna hennar og kjörorð óskýr.

Taktík alþýðu- og baráttusinna í kreppunni hlýtur að vera:

Skammtímastefna: Taka ekki ábyrgð á afleiðingum kreppunnar. Málið snýst ekki um að fá „betra fólk“ í endurreisnarstörf fyrir auðvaldið. Það er forgangsmál fyrir byltingarsinna að sýna að VG er enn einn fulltrúi íslenskrar borgarastéttar. Grundvallaratriði er að taka engan þátt í hinni pólitísku grautargerð í þeim flokki. Látum heldur auðvaldið ráðast fram án okkar aðstoðar, en pökkum í vörn gegn kreppuhníf og öðrum árásum. Eflum stéttabaráttuna.

Langtímastefna: Í stað þess að ganga inn á samábyrgð á kerfinu viljum við annað þjóðskipulag, sósíalisma. Lyfta verður merki sósíalismans. Við viljum afnema eignarétt auðstéttarinnar á atvinnutækjunum og berjumst fyrir samfélagslegri eign á þeim. Án slíkrar stefnumörkunar höldum við áfram að ganga um dimman dal auðvaldsins (biblíumál) og mest í hringi.

No comments:

Post a Comment