Saturday, November 10, 2012

Stéttabaráttuflokkar og blóðsuguflokkar


(Birtist á Eggin.is 1. október 2012)

Nýlega voru nokkri róttæklingar norðan lands á fundi. Þar kom fram vilji til að hraða sér að stofna flokk, flokk sem gæti boðið fram í vor. Lögð voru fram nokkur stefnumál fyrir vinstri flokk, yfirleitt góð og gild umbótamál og græn mál, málin sem VG sveik og fleira í þeim dúr. Stefnumál sem fara þó ekki út fyrir ramma kapítalismans. Vésteinn Valgarðsson  segir sig úr VG og segir í úrsögninni að Ísland þurfi sósíalískan flokk. Hann útskýrir þó ekki hvað í því felst, enda greinagerðin stutt..

Ég hélt því fram á fundinum að við þyrftum ekki enn einn „vinstri“ flokkinn heldur byltingarsinnaðan flokk sem a) berst fyrir byltingu, afnámi auðvaldskerfisins (þ.e.a.s. afnámi efnahagskerfis einkaeignar á atvinnutækjunum) og b) berst jafnframt fyrir umbótum innan ríkjandi þjóðskipulags en ekki eftir leið þingpallabaráttu og stjórnarþáttöku heldur setur sér það meginverkefni að leiða og skipuleggja fólk í stéttabaráttunni.

Friedrich Engels skrifaði árið 1884 (í „Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins“) að almennur kosningaréttur gæti aðeins verið mælikvarði á pólitískan þroska verkalýðsstéttarinnar. Það er rétt hjá honum. Borgaralegt þingræði er bærilegra fyrir almenning en nakin kúgun, en þingræðið er dulargerfi, það er hula lýðræðis utan um arðrán og stéttardrottnun. Í því liggur slævandi styrkur þess.

Hugmyndin um þinræðislega leið til alþýðuvalda er blekking. Vald auðstéttarinnar byggist á tvennu: í fyrsta lagi á yfirráðunum yfir auðmagninu og í öðru lagi á yfirráðum yfir ríkisvaldinu – her, lögreglu, emættismannakerfi auk þjóðþings – sem er tæki stéttardrottnunar og samofið eignakerfi atvinnulífsins, en ríkið þykist standa fyrir ofan og utan stéttirnar. Þetta ríkisvald verður aldrei vald í höndum fólksins. Hins vegar býr alþýðan yfir valdi. Það er fólgið í samtakamætti, hinu samstillta átaki, hinni stéttarlegu samþjöppun sem auðvaldsþróunin hefur framkallað. Marx ritaði: „Einu frumskilyrði sigursins ráða verkamennirnir yfir: mannfjöldanum, en fjöldi er því aðeins afl að hann sé sameinaður í samtökum og láti stjórnast af reynslu og þekkingu. (Marx/Engels, Úrvalsrit II, 215) Alþýðuna vantar stjórnmálaafl sem setur sér þetta hlutverk: „að finna, í samfélaginu sem er umhverfis okkur, öflin sem geta – og, vegna félagslegrar stöðu sinnar, verða – að mynda það afl sem getur svipt burt því gamla og skapað það nýja, og að upplýsa og skipuleggja þessi öfl fyrir baráttuna.“ (Lenín: „Þrjár rætur og þrír þættir marxismans“, Eggin, vefrit um samfélagsmál 25. sept)

Þingpallaleiðin er blekking. Í fyrsta lagi er hún hættuleg. Ef róttækir sósíalistar gerast áhrifamiklir og ógna þjóðfélagslegu valdi og eignum borgarastéttarinnar lætur hún af lýðræðistilburðum og beitir valdi miskunnarlaust. Dæmin eru mörg og blóðug: Indónesía 1965, Grikkland 1945-46 og aftur 1967 og Chile 1973 eru nokkur.

Þar að auki er þingpallaleiðin ekki neinum umbótum til framdráttar. Raunar er besta aðferðin til að drepa hreyfingu kringum ákveðið málefni að gera málefnið að framboðsmáli til Alþingis og flokksmáli, eða beinlínis stofna kringum það flokk.

Nokkur dæmi:
1.     Vakning um kvenfrelsun og jafnréttismál. Þar var mikil hreyfing um og upp úr 1980, með miklu grasrótarstarfi. Eftir að Kvennalistinn eignaðist þingmenn yfirtók hann málefnið, gerðist hefðbundinn þingpallaflokkur, og almennar baráttukonur máttu fara heim og leggja sig. Upp á síðkastið hefur þróun til launajafnréttis mjög hægt á sér eða stöðvast, klámvæðing sótt í sig veðrið o.s.frv.

2.     Samtök um þjóðareign var öflug hreyfing byggð á andstöðu við kvótakerfið, framseljanlegan kvóta o.s.frv. Hún hafði með sér sjómenn og minni útgerðarmenn vítt um land. Árið 1998 var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður um málið. Baráttunni var veitt í þingpallafarveg. Þar með varð þessi andspyrna að flokksmáli sem varð smám saman til að drepa eða gera óvirka þá hreyfingu sem var fyrir hendi í þessu risastóra hagsmunamáli alþýðu vítt um land.

3.     Íslandshreyfingin var hreyfing gegn stóriðjustefnunni sem grasseraði á þenslutímanum upp úr 2000, og andastaðan gegn henni óx líka mjög. Hreyfingin átti sinn hápunkt þegar hún safnaði 15 000 manns í mótmælagöngu niður Laugaveg árið 2006. Þessi hreyfing og málefnið var svo gert að flokksmáli. Ómar Ragnarsson stofnaði Íslandshreyfinguna sem flokk og fékk 3% í kosningum 2007. Flokkurinn komst ekki inn á þing og dó þar með. En í raun var það VG sem náði að gera andstöðu við stóriðjustefnuna að flokksmáli sínu. VG var nánast eins máls flokkur þessi ár þegar Kárahnjúkaframkvæmdir voru undirbúnar og framkvæmdar. Flokkurinn tók að sér að stöðva stóriðjustefnu og einkavæðingu í orkugeira m.m. ef hann fengi þingstyrk og kæmist í stjórn – og hann sópaði að  sér fylginu. En var að vanda gagnslaus við að skipuleggja grasrótarbaráttu. Fjöldahreyfingin lognaðist smám saman út af. Síðan fór flokkurinn í ríkisstjórn og stóriðjustefna stjórnvalda hélst lítið breytt.

4.     Í Búsáhaldabyltingunni flæddu íslensk stjórnmál og stéttaátök um stundarsakir út úr hinum löggilta, þingræðislega og snyrtilega farvegi sem valdakerfið hefur veitt þeim í. Almenningur steig fram á sviðið, fólk hegðaði sér allt öðru vísi en venjulega, fór út á götur og torg, fór í samstilltar aðgerðir. Gerði m.a.s. tilkall til valda í landinu. Grasrótarbarátta fór af stað í skuldamálum heimila, Icesave-málum m.m. Enn sem áður vantaði þó stjórnmálaafl sem gat tekið forustu og skipulagt slíka stéttabaráttu fram á við. Það voru hins vegar vinstri kratar og hentistefnumenn sem riðu á bylgjunni í bland við ýmsa aðgerðarsinna sem ekki höfðu neina sameiginlega stefnu. Stjórnmálaflokkurinn Borgarahreyfingin varð til og bauð fram til þings. VG tók Lilju Mósesdóttur í öruggt sæti og fleira búsáhaldafólk neðar. Í komandi kosningabaráttu og áfram færðist öll þungamiðja baráttunnar inn í þingið og almennt búsáhaldalið mátti fara heim og leggja sig.

Þeir þingpallaflokkar sem hér voru nefndir hafa sjálfsagt talið sig vera í andstöðu við ríkjandi kerfi. En þeir haga sér allir eins. Þeir leiða ekki andstöðuna (hvort sem það er skipuleg hreyfing eða óskipuleg ólga) heldur leggjast á hana og sjúga úr henni blóðið. Af því fitna þeir rétt á meðan viðkomandi andstaða/hreyfing er að  tærast upp. Síðan veslast þeir upp sjálfir nema þeir finni aðra andstöðu til að blóðsjúga. Svona virkar þingræðiskerfið – eins og því er ætlað að virka.

Rétt er að taka fram að VG getur ekki lengur kennt sig við kerfisandstöðu. Enginn flokkur fær að fara í ríkisstjórn nema hann ábyrgist að tryggja auðvaldinu ásættanlega arðsemi. Það hlutverk hefur VG gengist inn á. Bless VG.

Við verðum að viðurkenna að hugmyndin um grasrótarbaráttuna, það að „finna, upplýsa og skipuleggja“ mótaflið í samfélaginu stendur enn veikt á Íslandi. Jafnvel vinstri menn sitja mest og mæna á bramboltið og tilburðina á Alþingi – eins og málin ráðist þar. Þar við bætist að lítið hefur enn gerst í því að endurreisa verkalýðshreyfinguna til baráttu. Á meðan brennur Róm. Kapítalisminn sem á sínum tíma var framfaraskref frá stöðnuðu stigveldi lénskerfis hvílir nú sem ægilegt farg á herðum mannkyns og boðar fyrst og fremst eyðingu. Tíminn æpir á byltingarsinnaðan valkost, á Íslandi sem annars staðar.

Ég mæli ekki gegn þáttöku í þingkosningum. En það getur aldrei verið nema ein hlið starfsins af mörgum og alls ekki sú mikilvægasta. Mér finnst ekki liggja á að stofna flokk, því síður framboðskláran flokk. Eðlilegt milliskref er að stofna hreyfingu eða samtök sem temja sér nýjar aðferðir í pólitísku starfi, í anda þess sem hér hefur verið skrifað. Og eitt verkefni blasir við: Koma verður upp umræðuvettvangi fyrir róttæklinga varðandi það stjórnmálaafl sem beðið er eftir. Þessi grein er lítið innlegg þar í.

No comments:

Post a Comment