Saturday, November 10, 2012

Vinstri beygja sem styrkir auðvaldið


(Birtist í Morgunblaðinu 19. jan 2010)

Janúar 2009 var sögulegur mánuður. Uppþot og búsáhaldabylting á Íslandi velti stjórnvöldum  úr sessi. Stjórn Geirs fór frá 26. janúar og 1. febrúar tók við stjórn Jóhönnu, fyrsta „hreina vinstristjórn“ í sögu lýðveldisins. Í sama janúarmánuði settist Obama að völdum í USA. Sigurmánuður fyrir vinstrið. Eða svo virtist.
            Í kosningabaráttunni höfðaði Obama mjög til vinstri kjósenda og lágstétta. Það kom þó víða fram að stór hluti bandaríska auðmannaveldisins studdi hann til valda svo kosningasjóður hans varð miklu stærri en McCains. Hvers vegna?  Bandaríska valdakerfið var í sárri þörf fyrir nýtt andlit. Bushstjórnin var óvinsæl heima fyrir, og styrjaldir heimsveldisins gengu illa. Svo var komin kreppa. Það hentaði best að skipta um stjórn. 
            Útkoman? Langstærstu ríkisútgjöld vegna kreppunnar urðu stuðningur við banka og fjármálakerfi. Þjóðnýting tapsins, kallast það. Obama tryggði stærri fjárframlög til bankanna en Bush hefði tekist. Hins vegar var lítið um ríkisframlög til atvinnusköpunar (stefna kennd við Keynes). Utanríkismálin? Fyrirheit Obama um friðsamlegri tíma áttu stóran þátt í sigri hans, en reyndin varð veruleg aukning til hermála. En Obama er snjall í markaðssetningu utanríkisstefnunnar. Hann markaðssetur stríð svo vel (með hjálp fréttastöðvanna) að það lítur út sem friður, og hann fær friðarverðlaun Nóbels. Hann hefur tvöfaldað innrásarherina í Afganistan og við blasir ný 50% fjölgun á þessu ári. Hann hefur fært stríðið út til Pakistans. Fækkun bandarískra hermanna í Írak er ennþá engin. Bush var kominn í ógöngur en Obama hefur náð að blása til nýrrar sóknar bandarískrar heimsvaldastefnu. Stjórnkerfið rekur sömu auðvaldshagsmuni og áður en með tungutaki  alþjóðlegrar samvinnu og félagslegra gilda. Það ber árangur og stuðningur annarra Vesturlanda við stríðsreksturinn eykst. Andstöuöfl gegn stríðinu heima fyrir eru miklu lágværari af því „þeirra maður“ er í forustu.
            Aðferð íslenska auðvaldsins er svipuð. Einnig hér snúast kreppuráðstafanir um að þjóðnýta tapið. Fjármagnseigendur þurftu að velta Icesave-skuldum og örðum skuldum sínum yfir á almenning og ríkisvaldið tók það að sér. Dagskipun AGS í ársbyrjun 2009 var: mikill niðurskurður, kjaraskerðingar, lítil ríkisframlög til vinnuskapandi framkvæmda.
Janúarbyltingin gerði stjórnmálamenn útrásartímans ófæra um að framfylgja þessari stefnu. Það þurfti ný andlit á kerfið. VG hafði ekki þótt stjórntækur, einkum vegna stóriðjuandstöðu, og 2006 fékk hann miklu minni fjárframlög frá auðmönnum en hinir flokkarnir þrír. En janúarbyltingunni fylgdi vinstri sveifla og ný staða kom upp. Úr því auðmenn höfðu ekki tryggt sér flokkinn fyrirfram þurftu þeir að gera það eftirá, og það gekk greiðlega. Úr ráðherrastóli breytti Steingrímur J. málflutiningi sínum undurhratt, gagnvart AGS, í niðurskurðarmálum, Icesave, ESB-umsókn m.m. Með mælsku sinni náði hann að leggja stefnu íslenska auðvaldsins og AGS fram sem stefnu félagslegra gilda. Vegna skorts á róttækri forustu var hægt að sveigja janúarbyltinguna inn á forsendur hins þingræðislega valdakerfis. Vinstri flokkunum var beitt fyrir vagn auðvaldsins, kjósendur þeirra þar með fastari í net valdakerfisins og auðvaldið snöggtum tryggara í sessi en áður.
            Meinið er að VG hefur aldrei átt sér neina framtíðarsýn aðra en auðvaldskerfi með grænum gildum. Þess vegna er breyting flokksins í kerfisflokk auðveld. Þegar hann fer í stjórn og tekur ábyrgð á íslenska auðvaldskerfinu þarf hann að ábyrgjast ásættanlegt gróðahlutfall auðstéttarinnar og taka þar með afstöðu með henni í stéttabaráttunni. VG-þingmenn minnast ekki á stéttir eftir að flokkurinn settist í stjórn, en gerðu svo sem ekki oft áður heldur. Inntak núverandi stjórnarstefnu er þjónkun við íslenskt stórauðvald með tungutaki félagshyggju og vinstrimennsku.
Voldug ESB-ríki þröngva ólögmætum skuldbindingum upp á Ísland, beita fyrir sig AGS, en stjórnvöld mæta árásunum ýmist á hnjánum eða liggjandi. Við bjuggumst ekki við miklum landvörnum af hálfu ESB-óðrar Samfylkingar, en aumingjaskapur VG í málinu olli mörgum vonbrigðum. En ég bendi á að VG sveigir sig einnig hér að ríkjandi efnahagsstefnu íslensks auðvalds. Með ríkisstjórnum til hægri og vinstri hefur hefur sú stefna allt frá 8. áratugnum verið mjög eindregin aðlögun að hnattrænu markaðs- og fjármálakerfi. Þess vegna eru íslenskt hagkerfi og stjórnmál mjög berskjölduð gagnvart þrýstingi frá „alþjóðakerfinu“, og ESB-hluta þess sérstaklega.   
Ár lærdósríkrar reynslu er liðið frá mikilvægum umskiptum á Íslandi og í Bandaríkjunum. Í báðum löndum ríkir auðræði, stjórnkerfið er hannað til að þjóna ákveðnum stéttarlegum hagsmunum og það breytist ekkert hvort heldur fólkið í brúnni talar til hægri eða vinstri. Það er ekki nýtt að ýmsar tegundir vinstri flokka gagnast oft auðvaldinu betur en hægri flokkar. Ekki skal meta flokka af merkimiðunum sem þeir hengja á sig. Í báðum umræddum löndum sárvantar stjórnmálaöfl sem standa alþýðumegin í stéttabaráttunni. 

No comments:

Post a Comment