Sunday, February 3, 2013

Icesave: innsýn í miðstýrt auðs- og valdakerfi


Neyðarlögin voru sett 6. október 2008. Tveimur dögum síðar settu Bretar hryðjuverkalög á íslensku bankana. Skömmu síðar lýsti Geir Haarde yfir að ríkissjóður myndi standa við „alþjóðlegar skuldbindingar" og styðja Tryggingasjóð innstæðueigenda. Í nóvember 2008 gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við ESB fyrir hönd Bretlands og Hollands um að þau ábyrgðust lágmarkstryggingu innistæðna með einhverju móti, og í desember samþykkti Alþingi þingsályktun um að leitað skyldi samninga við ríkin tvö.
Ný ríkisstjórn settist að völdum í febrúar 2009 og viðræður hófust þá strax um Icesave. Því fygldu svo þrír samningar í röð við Breta og Hollendinga, samningar sem voru lítt þolandi fyrir sjálfstætt ríki (þó þeir færu skánandi). Íslensk stjórnvöld reyndu að þvinga þá gegnum stjórnkerfið og hótuðu öllu illu að öðrum kosti. En vegna mikillar andstöðu með þjóðinni, framgöngu forsetans og þjóðaratkvæðagreiðslna náðust engir samningar um Icesave - og þess vegna endaði málið fyrir dómi.
Þetta horfðum við á, en fleira gerðist bak við tjöldin: Frá upphafi deilunnar 2008 deildu lögfræðingar um ábyrgð íslenska ríkisins í málinu, en það var ESB sem setti hnefann í borðið og neitaði að láta reyna á ábyrgðina fyrir dómi. Af hverju? Af því það varð að líta út sem tryggingakerfi innistæðna á Evrópska efnahagssvæðinu væri í lagi. Efasemdir um það gætu annars kallað fram áhlaup á banka um alla Evrópu. Fjármálakerfi Evrópu var í húfi.
Þegar íslensk stjórnvöld leituðu lánafyrirgreiðslna hjá AGS komu fulltúar ESB einnig þar að máli og lýstu yfir að það væri sameiginleg afstaða allra ESB-ríkja að leggjast gegn því að AGS aðstoðaði Ísland ef kröfur Breta og Hollendinga væru ekki virtar. Alveg sama krafa kom fram í afgreiðslu lána frá Norðurlandaríkjum. Þessir hlutir eru margstaðfestir, m.a. af Geir Haarde og Steingrími J Sigfússyni.
Það hefur hins vegar komið skýrt í ljós - nú síðast í Icesavedómnum - að í tilskipun ESB um innstæðutryggingar stóð ekkert um ríkisábyrgð og ekkert heldur um viðbrögð við fjármálakerfishruni. Regluverkið um fjármálamarkaði var af besta frjálshyggju- og hnattvæðingarmerki, byggt á frelsi í fjármálaþjónustu og fjármagnsflutningum milli landa með lágmarksafskiptum ríkisins.
Auðvaldið aðhyllist hins vegar ekki „ríkisafskiptaleysi" nema þegar það borgar sig. Eftir að kreppan skall á, í árslok 2008, var sú stefna tekin í Evrópu að ríkið bæri ábyrð á bönkunum (eins og stefnan var áður var tekin í Bandaríkjunum). Stjarnfræðileg ríkisútgjöld  fóru í að bjarga stórbönkum frá falli. Á snöggu augabragði varð auðvald Evrópu mikið til „ríkisrekið".  Í annan stað hefur hin pólitíska miðstýring í ESB öll færst í annað veldi og „Þríeykið" (Framkvæmdastjórnin, Evrópski seðlabankinn að viðbættu AGS) tekur að sér að skipuleggja skuldainnheimtu fyrir evrópska fjármálakerfið. Það er gert með blóðugum niðurskurði ríkisútgjalda í skuldugum ríkjum og ríkisfjármálasáttmála sem bannar ríkishalla.
Stefnan gagnvart Íslandi var í þessum anda. Evrópskt fjármálakerfi sem sagt í húfi. Fyrri prinsipp um fjármálafrelsi voru nú gleymd og aflsmunar neytt. Fjármálastríð, þvingunaraðgerðir, stórveldapólitík. Með því að draga lánin og skilorðsbinda þau voru AGS og Norðurlönd að rukka fyrir Breta og Hollendinga og um leið láta líta út sem evrópskt fjármálakerfi væri í lagi.
Það má alls ekki gera lítið úr því að íslensk stjórnvöld voru beitt vægðarlausum þrýstingi. „Ísland komst hvorki lönd né strönd" segir Steingrímur. Davið Oddsson finnur skýringu í „kjarkleysi" ríkisstjórnarinnar. Það er takmörkuð skýring af því þessir aðilar höfðu meðul til að banna Íslendingum bjargir, þó þeir gætu ekki einfaldlega skipað okkur að borga eins og ef við hefðum verið í ESB.
Hitt segir sig sjálft að ríkisstjórn sem sækir um ESB-aðild er veik fyrir þrýstingi frá ESB. Verkin sýna merkin. Á Íslandi hefur auk þess í áratugi verið rekin eindregin aðlögun að hnattrænu markaðs- og fjármálakerfi (inngangan í EES stórt skref á þeirri braut). Fyrir vikið er íslensk ríkisstjórn, til hægri eða vinstri, ólíkleg til að veita ytri þrýstingi mikla mótspyrnu. Icesave-málið gefur innsýn í gífurlega miðstýrt auðs- og valdakerfi og minnkandi sjálfstæði þjóða. Allir gangi í takt! ESB og  AGS draga í sömu átt og þjóna fjármála- og afætukerfi vestrænnar auðstéttar.

No comments:

Post a Comment