Sunday, June 9, 2013

Bandaríkin eru fyrirmynd ESB



Bandaríkin eru vont samfélag. Gjáin milli fáækra og ríkra er óbrúandi og breikkar stöðugt. Í þessu ríkasta landi heims lifir sjötti hver þegn nú á matargjöfum. Sex milljónir Bandaríkjamanna eru í fanglesi, og FBI og Þjóðaröryggisstofnunin stunda æ víðtækari persónunjósnir á þegnunum. Í utanríkismálum reka Bandaríkin kolgrimma hernaðarstefnu til að tryggja hagsmuni auðhringa sinna.

Bandaríkin eru draumaland frjálshyggjunnar, f.o.m. Reagan enn frekar en áður. Þar er afar „hreyfanlegt“ vinnuafl, má flytja það langar leiðir þangað sem auðmagnið þarf á því að halda. Launamunur er óskaplegur, ekkert „gólf“ á vinnumarkaðnum og ekkert „þak“ heldur, stór hluti launþega er ólöglegur og réttlaus. Sétt launamanna er sundruð og verkalýðshreyfingin tjóðruð, vængstífð og áhrifalítil. Auðmagnið og pólitísk elíta því tengd ráða lögum og lofum.

Bandaríkin eru ekki bara nánasti bandamaður ESB í utanríkismálum, þau eru hin mikla fyrirmynd ESB sem samfélag. Sú breyting sem orðið hefur á ESB-ríkjunum síðustu 2-3 áratugi er öll í sömu átt, í átt að fyrirmyndinni.  Hið frjálsa flæði frjálshyggjunnar („fjórfrelsið“) er ígildi boðorðanna tíu og kom m.a. inn í Lissabonsáttmálann (2007) sem nánast stjórnarskrárbundin lög. Árið 2000 tók ESB upp sk. Lissabon-stjórnlist (Lisbon strategy) þar sem sett var á dagskrá að gera ESB að „samkeppnishæfasta efnahagskerfi heims“ fyrir árið 2020. Sérstakt vígorð var „sveigjanleiki“, sem byggðist á þeirri trú að afnám reglna (deregulering) og sveigjanleiki á vinnumarkaði væri lykilatriði í því að gera efnahagskerfið samkeppnishæfara og auka hagvöxt. Svo kemur hagkvæmni stærðarinnar: að gera ESB að risaríki með risarekstur og risamarkað –líkt og fyrirmyndin, Bandaríkin.

Sama þróun heldur áfram. Eftir stækkun ESB í austur er ódýrt vinnuafl flutt inn á vinnumarkað ESB í stórum stíl. Síðastliðið haust lagði Framkvæmdastjórn ESB fram tillögur um „skipulagsumbætur“ á vinnumarkaðnum. Þær ganga út á lækkun lágmarkslauna, minna vægi heildarkjarasamninga og sveigjanlegri vinnumarkað. http://eldmessa.blogspot.com/2012_12_01_archive.html  Hefðbundin réttindi launafólks og velferðarkerfið eru rifin niður.

Þetta er frjálshyggjuþróun að bandarískri fyrirmynd. Frjálshyggjan er stríðspólitík auðvaldsins gegn verkafólki. Ein ástæða þess að evrópska stórauðvaldið getur keyrt í gegn frjálshyggju sína er að verkalýðshreyfingin er þar orðin mjög veik.

Okkur verkalýðssinnum finnst verkalýðshreyfingin veik á Íslandi. En á evrópskan mælikvarða er hún mjög sterk. Á Íslandi er í reynd við lýði skylduaðild launafólks að stéttarfélögum. Í ESB-löndunum hefur hins vegar hlutfall þess launafólks sem er skipulagt og félagsbundið farið dramatískt lækkandi undanfarin 30 ár. Á vinnumarkaði ESB í heild er hlutfallið 23%. Í Þýskalandi er hlutfallið 19%, Spáni og Póllandi um 15% og í Frakklandi er það komið niður í 8%. Þetta líkist orðið mjög Bandaríkjunum. Auk þess sem verkalýðshreyfingin er víðast undir forustu krata sem sjálfir hafa gengið hafa frjálshyggjunni á hönd eins og við þekkjum á Íslandi. Sjá þetta hér um hlutfall félagsbundinna:
http://www.worker-participation.eu/National-Industrial-Relations/Across-Europe/Trade-Unions2 

Svo bætist það við að sjálfskipað herforingjaráð elítunnar – Þríeykið: Framkvæmdastjórnin, Evrópubankinn og AGS – keyrir nú í gegn vægðarlausa niðurskurðarstefnu og víkur öllu lýðræði til hliðar í aðþrengdum löndum Suður-Evrópu. Og meira en það, herforingjaráðið stefnir stöðugt að miklu meiri valdasamþjöppun inna ESB, þótt meirihluti almennings í nánast öllum aðildarríkjum sé því andvígur.

Evrópa kallar sig vöggu bæði lýðræðis og verkalýðshreyfingar en er orðin að sjúkrabeði beggja – líkt og Bandaríkin – þökk sé ESB.

Hin sívaxandi ólga í suðurríkjum ESB gefur von um að alþýðan muni senn rísa upp og snúa þessari voluðu þróun við.
ÞH
                                                                                                                                  

No comments:

Post a Comment