Saturday, July 26, 2014

MH17 grandað yfir Úkraínu


20. júlí. Útvarpið kemur nú með frétt, að mestu gamla, um upptökur sem Pentagon og Kerry segja sanna að "aðskilnaðarsinnar" hafi skotið niður MH17. Þá er sannleikurinn líklega þveröfugur, en nú er vissulega vont að greina ljósið í áróðursmoldviðri Vestursins. Moldviðri sem minnir allmikið á annað slíkt út af eiturgasárás við Damaskus í fyrra sem notað var til að reyna að undirbyggja NATO-íhlutun. Seymour Hersh, sem áður afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai, skar sundur það lyganet og sýndi hvernig Tyrkir og Sádar veittu Al Nusra terroristum hjálp og útbúnað til að framleiða sarín. Aðstæður eru að því leyti líkar að leppum Pentagon í Kiev gengur illa í stríðinu eins og uppreisnarmönnum í Sýrlandi.. Auk þess hefur USA gengið heldur illa að fá samstöðu um viðskiptabannið. Gasárásin var örþrifaráð til að byggja upp stemningu og sprenging MH17 gæti verið það líka. Pentagon og NATO vita að þeir hafa vestræna pressu einróma á bak við sig. Paul Craig Roberts, áður aðstoðarráðherra og aðstoðarritsjóri Wall Street Journal skoðar málið skarplega.

Craig Roberts segir þetta um youtube-myndbandið sem ég nefndi í byrjun og átti að "sanna" málið ": „According to reports, expert examination of the code in the video reveal that it was made the day before the airliner was hit." Sem væri þá allgóð vísbending um plottið. Mér sýnist þetta youtube-myndband vera mikilvægt. Úkraínsk leyniþjónusta birti það nánast strax á netinu. Rússneskir sérfræðingar dæmdu það fljótt sem fals þar sem sýna mætti fram á að það væri samsett úr nokkrum upptökum og aldursgreindu það degi eldra en árásin á MH-17. Þetta geta vonandi fleiri rannsakað. Annað atriði: sprengjusagan í vestrænni pressu í kjölfar New York Times, Wall Street Journal og Washington Post gengur út á að Rússar hafi aðstoðað uppreisnarmenn með Buk-loftvarnarkerfi og síðan jafnvel dröslað því til baka yfir landamærin. En sú hugmynd að rússneski herinn hafi af vangá skotið niður (eða hjálpað til) farþegaþotu er ekki mjög sannfærandi!

25. júlí. Þann 20. júlí sagðist Kerry hafa „gríðarlegt magn sönnunargagna“ um ábyrgð Rússa á því að granda MH17. Þegar svo skyldi leggja fram það efni var ekkert haldbært lagt fram sem benti á Rússa. Engin sönnunargögn voru heldur lögð fram gegn „aðskilnaðarsinnum“. Pentagon og CIA létu nægja að vísa til Twitter, Youtube og samfélagsmiðla. Rússar höfðu hins vegar lagt fram mikið efni af gerfihnattamyndum af svæðinu kringum flugslysið og beindu 10 ákveðnum spurningum til bandarískra og úkraínskra yfirvalda. Tvær spurningar snertu Buk-loftvarnarflaugar sem sáust á myndum af úkraínskum stjórnarherdeildum staðsettum í Donetskhéraði í nágrenni slyssins slysdaginn og 3 dögum fyrr. Ein spurning Rússa er: Til hvers þurfti Úkraínuher Buk-flaugar í stríði við „aðskilnaðarsinna“ án flugvéla? Engum spurningum Rússa hefur verið svarað. En bandaríski blaðamaðurinn Robert Parry hefur það eftir nokkrum CIA-sérfræðingum að bandarískar gerfihnattamyndir sýni að batteríið sem skaut vélina niður hafi tilheyrt Úkraínuher og altént að hermennirnir sem mönnuðu það hafi verið í búningum Úkraínuhers. Parry er enginn nobody, hann varð frægur fyrir að afhjúpa Íran-Contras hneykslið á sínum tíma. Sjá nánar:

Skortur Kerrys á sönnunargögnum og úkraínsku einkennisbúningarinr, og margt fleira, bendir í átt að hannaðri atburðaarás sem á að koma sök, og þungu höggi, á Pútín. Góðir rannsóknarblaðamenn geta vissulega rakið upp eitt og annað lyganet. En líklega breyta allar afhjúpanir litlu. Vestræn pressa fór á fyrsta degi yfir í sefasýkisfalsettu út af "rússneskri árásarhneigð" án þess að hirða um sönnunargögn. Eftir MH17 hafa Bandaríkin komist nokkur skref áfram í einangrun Rússlands, hafa dregið hin tregari ESB-ríki með í refsiaðgerðirnar - og NATO nær að flytja fleiri eldfaugaskotpalla og nýjan árásarútbúnað að landamærum Rússlands.

Wednesday, July 9, 2014

Sérstakar aðerðir gegn sósíalistum. Skrif Þórs Whitehead og Guðna Th. Jóhannessonar um efnið

(birtist í Tímariti Máls og menningar 4. hefti nóv. 2007)

Þór Whitehead um „öryggisþjónustuna“

Íslensk leyniþjónusta og hleranir á róttæklingum voru stóra bomban í sagnfræði ársins 2006. Fyrst kom fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar á Söguþingi um efnið, þá grein Þórs Whitehead í tímaritinu Þjóðmál um haustið og litlu síðar bók Guðna Th., Óvinir ríkisins.
            Í fyrirlestri Guðna Th. á Söguþingi hafði óþægilegt ljós beinst að innstu og myrkustu herbergjum valdsins og fyrirsjánlegt var að margt misjafnt yrði nú grafið upp. Þá reis upp Þór Whitehead, kommúnismasagnfræðingur Íslands, og gekk fram fyrir skjaldborg sinna manna. Í Þjóðmála-grein hans, „Smáríki og heimsbyltingin. Öryggi Íslands á válegum  tímum“, birtist nýtt efni um íslenska „öryggisþjónustu“ sem starfaði frá 1948 að skráningu og njósnum um íslenskra sósíalista og hafði náin tengsl við bandaríska sendiráðið og FBI (Þjóðmál, bls. 68-73).   
Þór Whitehead birti grein sína skömmu eftir fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar í maí. Það er athyglisvert að hann styðst í greininni lítið við upplýsingar Guðna. Hann styðst einkum við viðtöl við gamla kunningja úr Sjálfstæðisflokknum, ýmist menn sem hafa staðið nærri þessum sögulegu atburðum sem trúnaðarmenn flokksins (Ásgeir Pétursson), menn sem hafa hafa starfað hjá NATO (Róbert Trausti Árnason), hjá útlendingaeftirlitinu (Jóhann G. Jóhannson) eða lögreglustjóraembættinu í Reykjavík (Bjarki Elíasson, Sævar Þ. Jóhannesson). Það nægir honum alveg til að bregða dágóðu ljósi á „öryggisþjónustuna“. Af þessu mætti ráða að greinarhöfundur hafi í stórum dráttum vitað þetta áður þótt hann teldi ekki ástæðu til að fara með það á prent fyrr en nú.  
Þór Whitehead útskýrir tilkomu „öryggisþjónustu“ í samhengi íslenskrar stjórnmálasögu. Hann rennir sér yfir hita- og átakapunkta hennar ca. 1920–70. Aðferð hans er vel kunn. Hann forðast eins og heitan eldinn að kalla stéttaátök séttaátök. Hann setur sig ekki úr færi að stilla kommúnistum og fasistum upp saman sem „alræðissinnum“ og bræðrum. Þegar hann beinir kastljósi sögunnar að íslenskum vinstri sósíalistum hefur hann alltaf samtímis annan ljósgeisla á Stalín bónda í Kreml. Þegar róttækir sósíslistar sögðust vera að berjast um laun, verkfallsrétt, þjóðaratkvæðagreislu og annað slíkt voru þeir fyrst og fremst að reka erindi Stalíns og vera „fimmta herdeild“ í áformum hans gagnvart Vesturlöndum – og Íslandi sérstaklega.

Tuesday, July 8, 2014

Stutt færsla um nýja Íraksstríðið

(færslur á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga. Nokkur innlegg mín í umræðuna eftir að ISIS-islamistar hertóku stór svæði í Írak 10. og 11. júní)
Færsla Þ. Hj. 16. Júní: Fall Mósúl og Tíkrit fyrir litlum sveitum ISIS er óeðlilegt og gruggugt. Hersveitir ISIS eru aldar undir handarjaðri vestrænnar leyniþjónustu og er einkum stefnt gegn Sýrlandi, Hizbolla og Íran. Vissulega eru lönd þau sem sem vestrænir heimsvaldasinnar ráðast á (beint eða með staðgenglum) - Írak, Afganistan, Líbía, Sýrland, bráðum Úkraína - skilin eftir í rúst og upplausn. Sannleikurinn er þó enn ljótari - það stóð alltaf til. Ef vestrænt-hlýðin stjórn kemst ekki á þarna öðru vísi vilja heimsvaldasinnar heldur losa sig alveg við sjálfstæð ríki. Þeim hentar betur niðurbotin samfélög - svæði alveg opin fyrir hnattvæðingu auðhringanna - en fullvalda ríki (sjá hér).Þriðja Íraksstríðið er því ekki hlægilegt "klúður" heldur nýtt útspil þessum djöflapóker. Eins og stjörnublaðamaðurinn Seymour Hersh benti á 2007 (í "The Redirection") hafði Pentagon þá nýbreytt um aðferð í Miðausturlöndum. Herskáir súnnímúslimar (Al Kaída og tengdir) sem áður voru notaðir sem yfirvarp til íhlutana og átyllur til "stríðs gegn hryðjuverkum" voru í auknum mæli vopnaðir beint til að grafa undan óæskilegum stjórnvöldum. Þeim var stefnt gegn helstu andstæðingunum Vestursins, Íran/Sýrlandi/Hizbolla... með stefnu á „valdaskipti"...   

Nýjar Toyotur í ISIS-bílalest í Írak.  

Stefán Pálsson skrifaði 17. júní: „Ókey, nú er ég orðinn ringlaður: Bandaríkin og Íran eru í deilu á barmi styrjaldar. Þau eru þó saman í liði með Íraksstjórn á móti uppreisnarhernum í Írak - sem er reyndar sami uppreisnarherinn og Bandaríkin styðja í Sýrlandi gegn stjórnvöldum sem Íranir styðja. Þetta óvinalið er hins vegar fjármagnað af Sádi Aröbum sem Íranir hata en Bandaríkjamenn telja sinn besta bandamann...“

Svar Þ.Hj. 18. Júní. Já þetta hljómar kaótískt, af því veruleiki og yfirskin heimsvaldasinna er mjög sitt hvað - en veruleikinn hangir þó saman: a) fréttir um samvinnu USA-Íran eru uppspuni b) sjía-sinnuð stjórnvöld Íraks hafa styrkt sig (sigruðu í kosningum í apríl sl.) og eiga nú orðið vingott við Íran c) USA (gegnum Sáda o.fl.) stendur á bak við ISIS. Eins og ég skrifaði í fyrradag (vitnandi í Hersh) breyttu Bandaríkin um aðferð (Rederiction) um 2007. Af taktískum ástæðum höfðu þau stutt sjía gegn Saddam. Síðan hafa þau snúist af krafti gegn Íran og breytt um taktík. Rökrétt afleiðing er að þau yfirgefa Al Maliki. Loforð þeirra núna um stuðning við hann eru júdasarkoss á meðan þau stunda óformlegan en massífan stuðning við ISIS og skylda hópa.

Færsla Þ.Hj. 4. júlí. Án afláts leita heimsvaldasinnar átyllu til íhlutana. Árið 2001 hófu þeir á loft víorðið um alþjóðlegt „stríð gegn hryðjuverkum“ sem varð átylla þeirra til innrása í Afganistan og Írak og hernaðarbrölts og ihlutana vítt og breitt um hnöttinn. Síðan kemur æ betur á daginn að alræmdustu flokkar hryðjuverkamanna –  oftar en ekki tengdir Al Kaída – eru fótgönguliðar heimsvaldasinna í staðgenglastríðum þeirra þar og hér, með Líbíu og Sýrland sem skýr dæmi. Þegar hryðjuverkamenn eru meginátyllur íhlutana er afar hentugt fyrir heimsvaldasinna að hafa þá á sínum snærum. Hér er grein  sem bendir á það hvernig núverandi þróun í Írak, með stofnun sérstaks kalífats súnnía í miðhluta landsins og uppskipting þess, er nokkurn veginn í samræmi við það sem bandarískir strategistar, National Intelligence Council (NIC), sögðu fyrir í áætlunum sínum árið 2004. Sjálfuppfylltur spádómur, má segja.

Wednesday, July 2, 2014

Hreinsanirnar miklu í Sovétríkjunum

Nú mun ég bregða út af þeirri reglu að birta hér eingöngu efni sem áður hefur birst (prentað eða stafrænt) og birti hér alllanga fræðigrein um svonefndar „hreinsanir Stalíns“. Þetta er úttekt á vestrænum rannsóknum og skrifum um efnið í tímans rás. Ég ritaði greinina í tveimur lotum, 2002 og  2005. Ég hugsaði hana þá fyrir tímaritið Sögu og hún þvældist hjá ritstjórum ritsins drjúgan tíma en þeir kusu svo að birta hana ekki. Áður hafði ég rannsakað sovéska sögu talsvert og skrifað kandídatsritgerð mína við Óslóarháskóla árið 1991 á því sviði. Ritgerðin var verðlaunuð með „Arkivprisen“ og í framhaldi af því kom grein mín „Hvordan oppsto stalinsimen“ í Årbok for Arbeiderbevegelsens arkiv og bibliotek 1993. Það er ennþá viðkvæmt mál að fjalla um sovéska sögu Stalíntímans án skýrrar fordæmingar helstu gerendanna. Engu að síður er efnið afar mikilvægt í pólitískri jafnt sem sagnfræðilegri umfjöllun. Í allri umræðu um þetta mikla söguferli eru hinir örlagaríku „hreinsanir“ 1937-38 það sem oftast er vísað til og þær gjarnan látnar gera út um þá sögulegu tilraun sem Sovétríkin voru. Þess vegna er upplýst umræða um einmitt þá atburði svo mikilvæg.


Ný viðhorf í ensk-amerískum rannsóknum[1]

Hér verður gerð nokkur úttekt vestrænum rannsóknum sem gerðar hafa verið á hreinsununum Stalíns á síðustu tveimur áratugum – eftir að „perestrojka“ Gorbatsjovs hófst. Rannsónir frá enska málsvæðinu eru hér í fyrirrúmi. Að því leyti er greinin að nokkru „historíógrafísk“ en ég reyni þó alls ekki að vera hlutlaus og gefa heildarmynd af umræðunni um efnið heldur vel mér höfunda og reyni með hjálp þeirra að gefa heildstæða mynd af því sögulega ferli sem um ræðir. Sú mynd er því á mína ábyrgð.

“Hreinsanir Stalíns” voru atburðir sem höfðu meiri áhrif á alla síðari umræðu um sovéska sögu en önnur tíðindi frá Sovétríkjunum. Sú bylgja pólitísks ofbeldis sem reið yfir sovéskt samfélag á fjórða tug aldarinnar varð mjög til að sverta ímynd Sovétríkjanna en jafnframt hefur hún alla tíð verið sagnfræðingum sem öðrum bæði deiluefni og ráðgáta. Spurningarnar hafa verið þessar venjulegu: Hvað gerðist í raun og veru? Af hverju gerðist það? Svörin voru afar mismunandi. Um fjölda drepinna birtust áætlaðar tölur sem allar voru háar en mikið bar á milli höfunda, allt frá um hálfri milljón manna til tugmilljóna og áætlanir um mannfjöldann í GULAG-fangabúðunum voru álíka breytilegar. Skýringar sem gefnar voru á þessu ofbeldi voru ennþá margvíslegri og áttu oft lítið sameiginlegt sín á milli.