Thursday, January 21, 2016

Rússum refsað. Hæfur dómari? Réttmæt refsing?

Þátttaka Íslands í refsiaðgerðum Vesturveldanna gegn Rússum hefur verið heitt umræðuefn undanfarið, skiljanlega þar sem viðskiptabannið kemur hart niður á Íslandi, bæði útflytjendum og ýmsum byggðarlögum. Fjölmiðlarnir lýsa málinu sem svo að þar takist á viðskiptahagsmunir (LÍÚ) og hins vegar prinsipp eða siðferðissjónarmið (Gunnar Bragi). Þorsteinn Pálsson segir reyndar að hagsmunamat og siðferðismat fari saman, við græðum til lengdar á að standa með „okkar bandamönnum“. Mjög fáar raddir draga í efa að refsiaðgerðir Vestursins séu réttmætar.
Skýring Vesturlanda er að innlimun Krímskagans sé Rússnesk útþensla, tilraun Rússa til að endurheimta stöðu risaveldis. Þessu er nú mætt með annars vegar viðskiptabanni gegn Rússum, leitt af Bandaríkjunum og ESB og hins vegar hernaðarlegu umsátari um Rússland sem leitt er af Bandaríkjunum og NATO.
Á bak við refsiaðgerðirnar standa fyrst og fremst Bandaríkin og ESB (Kanada strax, svo Japan, Ástralía og fáeinir aðrir hafa bæst við). Nánar tiltekið voru það BANDARÍKIN sem höfðu þar algjört frumkvæði. Bandaríkin og ESB hafa ólíka hagsmuni í málinu. ESB og Rússland eru einna mikilvægustu viðskiptaaðilar hvors annars. Rússland er hins vegar lítilvægur viðskiptaaðili Bandaríkjanna sem sér sér hag af því að ESB dragi úr viðskiptum við Rússa. Á veiku augnabliki sjálfsupphafningar hældist Joe Biden varaforseti yfir því að Bandaríkin hefðu neyðst til að kúska Evrópulönd til refsiaðgerða: „Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarras Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði.“
Það er rétt að Rússar brutu þjóðréttarreglur með innlimun Krímskagans. Reglur sem afar mikilvægt er að virtar séu. Þetta var einhliða breyting landamæra og við hljótum að FORDÆMA slíka aðgerð á almennum þjóðréttarlegum forsendum. En af því leiðir ekki sjálfkrafa að rétt sé að fordæma aðgerðina í sínu ÁKVEÐNA SAMHENGI. Nokkrar ástæður skulu nú tilgreindar.

• Það er rangt að skoða innlimun Krím sem lið í útþenslustefnu. Í fyrsta lagi af því Krím hefur í raun verið undir Rússneskum yfirráðum í á þriðju öld (frá 1783). Ennfremur: Innlimunin 2014 var gerð við ákveðnar aðstæður, aðstæður sem einkennast vissulega af útþenslu og hernaðarstefnu, en ekki Rússa heldur ANNARS HEIMSVELDIS, Vesturblokkarinnar undir forustu Bandaríkjanna, þ.e. SÖMU AÐILA og leggja refsiaðgerðirnar á Rússa, ásamt því að leitast við að umkringja og innikróa Rússland hernaðarlega. Í því samhengi verður innlimun Krímskagans í Rússland að VARNARVIÐBRÖGÐUM, að einhvers konar þvinguðu afbroti. Og um leið vaknar spurningin um hæfni dómarans.
• Nei, hið ákveðna samhengi bendir ekki til útþenslustefnu Rússa. EFTIR KALDA STRÍÐIÐ hafa Rússar ekki ástundað hernað utan lands nema þann lofthernað sem þeir nú reka til stuðnings stjórnvöldum Sýrlands auk átta daga hernaðar gegn Georgíu árið 2008, um sjálfstæði Suður-Ossetíu sem hafði lýst yfir sjálfstæði 1990 en Georgía ekki virt. Helstu andstæðingar Rússa, Bandaríkin – og fleiri og færri bandamenn þeirra í NATO – hafa hins vegar á sama tíma háð stríð gegn Bosníuserbum, gegn Júgóslavíu, gegn Afganistan, gegn Írak og Líbíu, stutt uppreisn og í raun árásarstríð í Sýrlandi, komið að stríðum í Sómalíu, Jemen og miklu víðar. Samkvæmt tölum sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar SIPRI frá 2013 stóðu Bandaríkin fyrir 39% af hernaðarútgjöldum á heimsvísu, aðildarríki NATO fyrir rúmum 60% en Rússar aðeins 5,2%.
 • Árið 1990 höfðu Bandaríkjamenn og Vestur-Þjóðverjar samið við Sovétleiðtogana Gorbachev og Shevardnadze um aðild sameinaðs Þýskalands að NATO, á móti voru ráðamönnum í Moskvu gefin munnleg loforð um að NATO yrði ekki stækkað „svo mikið sem þumlung í austur“ með orðum Gobachevs. Skv þýsku skýrslunni af samræðunum í Moskvu sagði Hans-Dietrich Genscher þýski utanríkisráðherrann: „Af okkar hálfu er alla vega eitt öruggt: NATO mun ekki stækka í austur.“ Margt góðtrúa fólk hélt að lok kalda stríðsins boðuðu þúsund ára ríki friðar og lýðræðis.
• En þannig virkar það ekki. Heimsvaldaríki skipta og endurskipta upp heiminum (áhrifasvæðum, markaði, auðlindum…) milli sín eftir styrkleikahlutföllum. Fall Sovétríkjanna 1991 rauf heimsvaldajafnvægi og bjó til skilyrði fyrir stórfelld átök og nýjar styrjaldir.
• Varsjárbandalagið, mótpóll NATO, var leyst upp 1991. En NATO lagði sig ekki niður þegar „hættan“ var horfin heldur hóf mikla útþenslu inn á fyrrum yfirráðasvæði og áhrifasvæði Sovétríkjanna. Að frumkvæði Bandaríkjanna stofnsetti NATO eitthvað sem nefnist „Samstarf um frið“ (Partnership for peace) árið 1993 með það yfirlýsta markmið að skapa traust í samskiptum NATO við fyrrum Sovétríkin, og bauð líka Rússum aðild að slíku ”samstarfi”. Í reynd hefur þessi ”samstarfs”-þátttaka í NATO aldrei verið annað en aukaaðild eða biðsalur fyrir fulla NATO-aðild. Löndum úr austurblokk Kalda stríðsins bauðst aldrei neinn annar valkostur en einfaldlega að ganga inn í hernaðarkerfi fyrrum andstæðinga sinna. Drottnunarstaða Bandaríkjanna innan NATO var skýrari en nokkru sinni og þau réðu í raun lögum og lofum á heimsvísu. Hvert af öðru fengu fyrrverandi Varsjárbandalagsríki þessa „samstarfsaðild“ að NATO til og síðan fulla aðild. Árið 1999 gerði NATO sig svo að HNATTRÆNU bandalagi með hersveitir til notkunar hvar sem er í heiminum.
• Tíundi áratugurinn var niðurlægingartími Rússlands sem gekk gegnum sjokkþerapíu einkavæðingar undir leiðsögn AGS og Jeltsín forseti var Vesturveldum eftirlátur. Rússland var komið niður á hnén. Kringum aldamót gerðist svo það sem hlaut að gerast – stærsta ríki á hnettinum komst aftur upp á fæturna og fór að verja hagsmuni sína sem sjálfstætt ríki og stórveldi. Þá var JÁRNTJALDIÐ SETT UPP AFTUR: Bandaríkin og NATO voru þá komin vel á veg með að girða Rússland vestrænum herstöðvum: í nýju Kákasusríkjunum, í Mið-Asíulýðveldum gömlu Sovétríkjanna og náttúrlega Afganistan, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (auk Finnlands í norðri með „samstarfsaðild“ og náið hernaðarsamstarf við NATO). Bandaríkin og NATO hafa m.a. byggt upp langdrægt skotflaugakerfi á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs (sögðu reyndar að flaugunum væri beint að Íran!). Járntjaldið var sem sagt fært rækilega í austur og er rétt utan við stofuglugga Rússa.
• Í sambandi við stríð Rússa við Georgíu út af Suður-Ossetíu er skylt að geta þess að leiðtogafundur NATO í apríl 2008 ályktaði sérstaklega um Georgíu og Úkraínu, svohljóðandi: ”Við samþykktum í dag að þessi lönd munu verða aðildarlönd NATO”. Þegar stjórnvöld Georgíu nokkrum mánuðum síðar ákváðu að binda enda á sjálfstæði Suður-Ossetíu og Afkasíu með hernaðaraðgerð sendu Rússar her á svæðið (stríðsátök voru aðeins Ossetíumegin). Með því voru þeir um leið að svara yfirlýsingunni um væntanlega NATO-aðild Georgíu og Úkraínu. Rússar sögðu með þessu: Nær kemur járntjaldið ekki!
• Stækkun NATO og stækkun ESB hefur verið mjög samstíga. Oftar en ekki er ESB skrefi á undan, og innganga í ESB er þá næsti undanfari NATO-aðildar. Þetta eru vissulega tvö formlega óháð bandalög, en á 21. öld kalla þau hvort annað „strategískan bandamann“ og frá Lissabonsáttmálanum 2009 hefur það verið KRAFA til nýrra aðildarlanda í ESB að þau samstilli öryggismál sín við NATO. Því var það það skiljanleg taktík hjá NATO til að ná Úkraínu inn í bandalagið – sem vitað var að væri afskaplega óvinsælt í Rússlandi – að beita ESB fyrir sig. Sem kunnugt er bauð ESB Úkraínu fyrst „samstarfssamning“ (Association Agreement) sem Janukóvitsj forseti afþakkaði, sem svo leiddi út í valdaránið í Kænugarði. En í samstarfssamningnum var einmitt fjallað um varnarmál: „Samstarfssamningurinn mun stuðla að samlögun aðila á sviði utanríkis- og öryggismála og stefnir að dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. NATO er ekki nefnt berum orðum en „Evrópska öryggiskerfið“ þýðir á mannamáli NATO, og má hafa í huga áðurnefnda yfirlýsingu leiðtogafundar NATO: Úkraína „mun verða aðildarland NATO“. Þegar svo löglega kjörin stjórn Úkraínu var hrakin frá völdum af mjög andrússneskum, og CIA-studdum, öflum á Maidan-torginu í Kíef – þá ákváðu Rússar að innlima Krím.
• Nefna ber annað dæmi sem er mjög hliðstætt Krím-málinu, nema hvað Vestrið er þar gerandinn en ekki Rússar. Kosovo lýsti yfir sjálfstæði og aðskilnaði frá Serbíu 2008, sem var viðurkennt strax af fjölmörgum ríkjum undir forustu Bandaríkjanna og ESB. Hliðstæðan felst í broti gegn kröfunni um að virða landamæri fullvalda ríkja, annars vegar fullveldi Serbíu og hins vegar fullveldi Úkraínu. Þetta prinsipp telja sem sagt Vesturlönd sig mega brjóta en ekki Rússa. Önnur hliðstæða með Kosovo og Krím er að í lok Kosovo-stríðsins komu Bandaríkin þar upp Bondsteel-herstöðinni með 7000 hermönnum, stærstu herstöð sem Bandaríkin hafa byggt í Evrópu eftir lok Víetnamstríðsins 1975. Helsti munur á dæmunum um Krím og Kosovo er að í fyrrnefnda dæminu er um að ræða VIÐHALD hernaðaraðstöðu Rússa sem verið hefur á þeim stað í á þriðju öld en í tilfelli Kosovo er um að ræða SÓKNARAÐGERÐ, herstöð á nýju áhrifasvæði Bandaríkjanna og NATO. Raunar mörkuðu stríðin í Júgóslavíu straumhvörf í þróun NATO til landvinninga. Auk þess að festa Balkanskaga betur í hernaðarkerfi Bandaríkjanna og NATO er Bondsteel hernaðarlegur stökkpallur austur á Svartahafssvæðið og niður til Miðausturlanda.
• Utanríkisstefna Rússlands stýrist ekki eingöngu af þessu ákveðna samhengi hlutanna eftir 1990. Drottnandi ríki innan NATO hefur alla tíð verið Bandaríkin, land sem er ekki þekkt fyrir að virða fullveldi annarra ríkja. William Blum hefur tekið saman lista yfir ríkisstjórnir sem Bandaríkin hafa (oft með stuðningi annarra NATO-ríkja) steypt eða gert tilraun til að steypa eftir lok fyrri heimsstyrjaldar. Þær eru alls 56 og tilraunin tókst í 37 tilfellum, sú síðasta í Úkraínu 2014. En tvöfalda siðgæðið í Washington sprengir alla mælikvarða. Þegar Krímskaginn var innlimaður þóttist John Kerry þess umkominn að siða Rússa og fjölmiðlarnir endurvörpuðu orðum hans gagnrýnislaust: „Á 21. öld haga menn sér ekki bara í 19. aldar stíl og ráðast á annað land á fullkomlega fölskum forsendum.“ Og þegar fyrirrennara hans, Hillary Clinton, var sagt að útsendarar hennar hefðu steypt stjórn Gaddafís og murkað úr honum lífið klappaði hún saman höndum hlæjandi eins og barn sem fær jólagajöf og hrópaði „We came, we saw, he died!“  En viðbrögð hennar við innlimun Krím var að líkja Pútín hiklaust við Hitler.
• Áherslur Rússa í utanríkismálum byggja á allri sögu landsins. Fogangsatriði Rússa á 20 öld hefur verið að tryggja sér „stuðpúðabelti“ til vesturs. Rússland er alveg flatt og opið til vesturs og eftir miðaldir hafa allar helstu innrásir í landið komið að vestan. Pólsk-litháíska samveldið réðist þar inn í byrjun 17. aldar (hertók Moskvu 1610), Karl 12. Svíakóngur réðist þar inn á 18. öld, Napóleon hundrað árum síðar og Þjóðverjar bæði 1914 og 1941. Sovétríkin misstu a.m.k. 25 milljónir þegna sinna í seinni heimsstyrjöld og ekkert land varð verr úti í því stríði. Áherslu Sovétmanna/Rússa eftir það á að tryggja sér vinsamleg ríki og bandamenn til vesturs er nærtækara að skýra sem viðleitni til að búa til öryggisbelti milli Rússlands og helstu stórvelda Evrópu og/eða NATO heldur en að skýra það sem útþenslustefnu. Að stóru nágrannarnir við vesturlandamærin, Úkraína eða Hvíta-Rússland, gengju í NATO getur í augum rússneskra ráðamanna ekki verið neitt annað en óþolandi martröð.

No comments:

Post a Comment