Sunday, April 17, 2016

Panamasprengjan. Til hvers?


Þegar vestræn pressa fer í alþjóðlega herferð veit það yfirleitt ekki á gott. Einna ólíklegast af öllu er að þar sé sannleiksleitin í fyrirúmi, hvað þá siðbótin. Þegar ég horfði á fulltrúa Heimssamtaka rannsóknarblaðamanna taka Sigmund Davíð af lífi í sjónvarpsútsendingu, í alþjóðlegri fjölmiðlaherferð þar sem Vladimir Pútín var helsti skotspónn, þá spurði ég mig alveg forviða: hvað er á bak við þetta?

Það er ekki ástæða í sjálfu sér til að vefengja umræddar upplýsingar um ríkt fólk í skattaskjólum, t.d. upplýsingar um spillingu í íslenskri stjórnmálastétt, hvað þá í íslenskri fjármálastétt. En ég spyr samt: HVAÐ ER Á BAK VIÐ þessar afhjúpanir af hálfu vestrænnar meginstraumspressu?

I. Hvað er á bak við?
Þeir sem standa á bak við afhjúpanirnar eru hin bandarísku Heimssamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ,  sem eru hluti hluti af OCCRP (Organized Crime and Corruption Reporting Project) sem er stofnað af USAID (United States Agency for International Development) og kostuð auk þess af stofnuninni Open Society (George Soros). ICIJ er líka nátengt bandarísku stofnuninni Center for Public Integrity sem að sínu leyti er kostuð af Ford Foundation, Carnegie Foundation, Rockefeller Family Foundation, Open Society (Soros) og fleiri stjórnstöðvum bandarískra billjónera og heimsvaldastefnu. Ekki nóg með það, ICIJ er staðsett í Washington DC og stjórn samtakanna er í valdakreðsunum kringum ríkisstjórnina.

Það er nú svo, að Panama er hjálenda Bandaríkjanna. Ekkert þar í landi gerist nema með blessun USA, svo sem hin mikla starfsemi aflandsfélaga þar í landi. Þessi „leki“ er sem sagt fenginn hjá lykilstofnunum í bandarískri áróðursmaskínu, OCCRP/ICIJ. Frakkinn Pepe Escobar skrifar: „Auðvitað  var þessi mikli leki fenginn hjá bandarískri leyniþjónustu. Þetta er þannig efni sem Þjóðaröryggisstofnunin, NSA, skarar fram úr í. NSA getur brotist inn í hvaða gagnagrunna og skjalasöfn sem er. Þeir stela „leyndarmálum“ og granda/múta/vernda hvern sem er eftir því sem þeir kjósa, út frá hagsmunum bandarískrar fjármálaelítu (USG).“ (heimild)

II. Valdir fjölmiðlar miðla upplýsingunum gegnum síu
Samtökin ICIJ hafa einkaleyfi á gögnunum og völdu svo örfáa lykilfjölmiðla á Vesturlöndum til að ritstýra boðskapnum. Í öllum tilfellum eru það leiðandi meginstraumsmiðlar af hægrimiðjunni, og um leið staffírugir flytjendur NATO-boðskaparins í alþjóðamálum: Süddeutsche Zeitung, Guardian, Le Monde. Aðrir miðlar fá svo að bergmála upplýsingarnar áfram án þess að hafa neinn beinan aðgang að gögnunum. Guardian nefnir að flett hafi  verið ofan af „22 persónum sem sitja undir refsiaðgerðum fyrir að styðja stjórnvöld í Norður Kóreu, Sýrlandi, Rússlandi og Zimbabwe.“ (heimild) Önnur lönd sem koma illa út eru Brasilía og Íran. Svo segir enn  fremur í Guardian: „Þó að mikið af efni skjalanna fái áfram að vera í friði [will remain private] er rík ástæða til að birta hluta gagnanna.“ Með öðrum orðum, þessir meginstraumsmiðlar handvelja skotmörkin út frá sínum pólitískum áherslum en áður hafði ICIJ handvalið efnið ofan í þessa miðla. Og þá er vissara að vera ekki að flagga efni sem heggur nærri kostunaraðilum þessara sjálfskipuðu varðhunda rannsóknarblaðamennskunnar.

III. Skotmörk og ekki skotmörk
Það er mikilvægt að kanna hverjir ERU hér innblandaðir, og sömuleiðis hverjir ERU EKKI innblandaðir. Eitt af því sem vekur athygli í gagnrýnum fjölmiðlum utan lands, er að þarna vantar nær alveg upplýsingar um bandarísk fyrirtæki, ekki einn einasti bandarískur auðkýfingur er nefndur á nafn. Er það vegna skorts á fjármálaspillingu í Bandaríkjunum, skorts á skattaskjólum, peningaþvætti? Varla. Það hefur t.d. áður verið afhjúpað að 500 stærstu fyrirtæki í Bandaríkjunum eigi meira en 2000 milljarða dollara í erlendum skattaskjólum. Sjá t.d. þessa grein frá í fyrra. Sem sagt, nóg af bandarísku fé í erlendum skattaskjólum, en í umræðunni núna kemur samt fram nýtt mikilvægt atriði, sem einn hagfræðingur orðar svo: „Bandaríkjamenn geta stofnað skuggafyrirtæki [shell companies] heima hjá sér, í Wyoming, Delaware eða Nevada. Þeir þurfa ekki að fara til Panama til að stofna fyrirtæki sem nýtast fyrir ólöglega starfsemi“ (Shima Baughman). Obama-stjórnin hefur nýlega tekið upp strangari skattalöggjöf, FATCA, sem neyðir erlendar bankastofnanir til að afnema bankaleynd á stórum bandarískum bankainnistæðum. En þær reglur GILDA EKKI um bandarískar fjármálastofnanir í þessum nýju skattaskjóls-ríkjum INNAN Bandaríkjanna. Þar er bankaleyndin og skattaskjólið. Bloomberg.com skrifar: „Eftir að hafa árum saman djöflast á öðrum löndum fyrir að hjálpa Bandaríkjamönnum að fela auð sinn utan lands koma Bandaríkin nú fram sem fremst í því að bjóða skattaskjól og bankaleynd ... Allir, allt frá lögmönnum í London til svissneskra fjármálastofnana keppast nú við að hjálpa auðmönnum heimsins að flytja bankareikninga  sína frá stöðum eins og Bahamaeyjum og Bresku Jómfrúareyjum til Nevada, Wyoming og Suður-Dakota.“ Það er þess vegna afar nærtækt að líta á hinn mikla „leka“ að hluta til sem lið í efnahagsstríði Bandaríkjanna, lið í því að slá niður erlenda keppinauta og sjúga þessa ljósfælnu tegund fjármálastarfsemi heim.

En Guardian og umræddir meginstraumsmiðlar hafa beint helsta kastljósinu AÐ ÖÐRUM SÖKUDÓLGUM, sérstaklega að „kunningjum Pútins“, að embættismönnum kínverska kommúnistaflokksins og „tengdafólki ráðamanna“ þar og svo auðvitað „frænda“ Assads Sýrlandsforseta. Föstum liðum í utanríkisstefnu USA. Þó eru hvorki Pútin né Assad sjálfir nefndir í skýrslunni, sem er ögn neyðarlegt. Höggið sem kemur á einn forsætisráðherra í NATO-landi í Vestur-Evrópu, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, og föður Davids Cameron má líklega skoða sem „hliðartjón“, og gæti þá þjónað þeim tilgangi að auka ofurlítið trúverðugleika skjalanna.Wikileaks hafa m.a. sagt um skjölin að áherslan á að koma höggi á Pútin rýri mjög gagnsemi þessa „leka“. Ekki bara það, sú uppljóstrunarstofnun segir að TILGANGUR lekans hafi beinlínis verið að ráðast á Pútín: „#PanamaPapers Putin attack was produced by OCCRP which targets Russia & former USSR and was funded by USAID & Soros.“

Sá þekkti  bandaríski refur í rannsóknarblaðamennsku, Robert Parry (þekktastur fyrir að afhjúpa Íran-Contras hneykslið), ályktar að fleira hangi á spýtunni en Pútin einn: „Við sjáum eitthvað sem lítur út sem nýr undirbúningsfasi fyrir næstu lotu í „valdaskiptum“ með ásökunum um spillingu sem beinast að fyrrum brasilíska forsetanum Lula da Silva og Pútin Rússlandsforseta.“ Parry nefnir að það sé eitt stóra kappsmálið í Bandaríkjunum að veikja hina skæðu keppinauta, nýmarkaðslöndin sem kennd eru við BRICS, einmitt með ásökunum um spillingu. (heimild) Sú herferð sem nú fer fram gegn spillingu bæði í Brasilíu og Suður Afríku á sér að stórum hluta bandarískar rætur og hefur það markmið að valda óstöðugleika.

IV. Íslenski þátturinn
Við Íslendingar höfum fengið svolítinn smjörþef af því hvernig „litabyltingar“ geta virkað, hvað einkennir herferðir vestrænna afla og fjölmiðlavelda til að valda óstöðugleika í ríkjum þar sem stefnt er að „valdaskiptum“, án þess þó að „litabyltingin“ leiddi til neinna valdaskipta hér á landi. Að „lekinn“ kom svo hart niður hér á landi helgast náttúrlega líka af því hvað svona fjármálastarfsemi frá Íslandi var útbreidd fyrir hrun. En eins og ég hef áður nefnt var höggið gegn Sigmundi Davíð og íslensku ríkisstjórninni þó líklega „hliðartjón“ í herferðinni frekar en að mikilvægt hafi þótt í Bandaríkjunum að ná framsóknarforingjanum.

En hvað um það að Sigmundur Davíð skuli vera kominn „í hóp með fyrirlitlegum einræðisherrum“ og Ísland þar með lent í svo hræðilegum félagsskap? Sko, þau nöfn sem koma fram í „lekanum mikla“ eru óneitanlega viðriðin aflandsfélög, oftast líklega í skattalegum tilgangi og feluleik. En þetta úrtak misspilltra stjórnmála- og valdamanna sem lent hefur í fókus speglar samt sem áður pólitískar áherslur og efnahagsstríð vestur í Bandaríkjunum frekar en raunverulega dreifingu fjármálaspillingar í heiminum. Og Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kastljós ríkissjónvarpsins & co. voru í þessu máli verkfæri voldugri afla en þau kannski gerðu sér grein fyrir sjálf.

Sunday, April 3, 2016

„Arabíska vorið“ í Sýrlandi

(Birt á fridur.is 1. apríl 2016)

„Átökin í Sýrlandi hófust í apríl 2011 þegar friðsöm mótmæli að fyrirmynd byltinganna í Egyptalandi og Túnis breyttust í mótmæli gegn einræðisstjórn landsins. Ríkisstjórnin brást við eins og sönn illmenni gera. Fyrst sáu öryggissveitir um að taka aðgerðarsinna af lífi… Því næst hófu hersveitir að skjóta á mótmælendur og það endaði með að mótmælendurnir skutu á móti….“ (eyjan.pressan.is 2. sept 2013)
Þessa tuggu (í fáeinum tilbrigðum) hafa íslenskir fjölmiðlar tuggið nær daglega eins og kýr jórtrandi makindalega á sínum bás í vestræna fjölmiðlafjósinu. Þetta er hin staðlaða opinbera saga sem okkur hefur verið sögð allt frá 2011. Og á henni byggir afstaða NATO-ríkja og Vesturlanda til þessa stríðs: meginorsök þess er harðstjórn Assads og þess vegna verður ekki friður nema til komi valdaskipti, Assadstjórnin fari frá.
Svona einföld var atburðarásin í Sýrlandi þó ekki og að stærstum hluta er sagan lygi. Mótmæli hófust vissulega í landinu í mars 2011, undir áhrifum “arabíska vorsins”. En undurfljótt breyttust þau í innanlandsstríð, með miklu mannfalli á bága bóga. Það er mikilvægt að átta sig á í hvaða röð hlutirnir gerðust í kviknun og þróun þessa stríðs, m.a. átta sig á þætti „arabíska vorsins“ í því.
Vestræn afskipti hófust fyrir 2011
Ísrael á landamæri að Sýrlandi (við hinar hernumdu Gólanhæðir) og fylgist því betur en flestir aðrir með málum í nágrannalandinu. Í ísraelskum leyniþjónustuskjölum frá ágúst 2011 kemur fram að NATO og Tyrkland voru þá að hefja vopnaflutninga til uppreisnarinnar og liðssöfnun trúarvígamanna í múslimalöndum til að berjast gegn Assad, en ætluðu þó að beita annarri taktík en í Líbíu:
“NATO headquarters in Brussels and the Turkish high command are meanwhile drawing up plans for their first military step in Syria, which is to arm the rebels with weapons for combating the tanks and helicopters spearheading the Assad regime’s crackdown on dissent. Instead of repeating the Libyan model of air strikes, NATO strategists are thinking more in terms of pouring large quantities of anti-tank and anti-air rockets, mortars and heavy machine guns into the protest centers for beating back the government armored forces … the arms would be trucked into Syria under Turkish military guard and transferred to rebel leaders at pre-arranged rendezvous… Also discussed in Brussels and Ankara, our sources report, is a campaign to enlist thousands of Muslim volunteers in Middle East countries and the Muslim world to fight alongside the Syrian rebels. The Turkish army would house these volunteers, train them and secure their passage into Syria.”

Friday, April 1, 2016

Palmyra frelsuð

(Birtist á Fesbókarsíðu SHA 31. mars 2016)

 Frá Palmyra

Palmyra frelsuð 27. mars. Úr höndum ISIS. Fyrir baráttufólk er enn mikilvægara að benda á sigra hins góða en hörmungar af sigrum yfirgangsaflanna og hins illa. Í Írak og Sýrlandi voru tvær af "vöggum siðmenningarinnar". Borgin Palmyra var „ein mikilvægasta menningarmiðstöð fornaldarinnar“ segir UNESCO. „Palmyra lætur Róm fara hjá sér“ segja fornleifafræðingar. Í meðfylgjandi myndbandi skoðar Russia Today hinar fornu rústir. Mikilfengleikinn dylst engum. Hér er nokkuð dvalið við Bel-hofið sem ISIS sprengdi. Það var vígt guðinum Bel 32 AD, árið sem Jesú flutti fjallræðuna. Síðar var því breytt í býsantíska kirkju og loks í mosku. Sigur Sýrlandshers hefur mikla táknræna þýðingu því Palmyra er einn lykilhlekkur í sögu og sjálfskennd Sýrlendinga.