Tuesday, May 31, 2016

Stríð um heimsyfirráð - hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki

Birtist á fridur.is 24. maí og vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 31. maí 2016
„Það er alheims stríð, það er allsherjar stríð og það er eyðilegging. Það á sín rök, það er hluti hnattræns kapítalisma. Á núverandi stigi er þetta þó ekki barátta gegn sósíalisma, en það er barátta gegn þjóðlegum kapítalisma. Með öðrum orðum, það eru hinar hnattrænu auðvaldselítur – aðallega ensk-amerískar þar sem hinar miklu fjármálamiðstöðvar Wall Street og London ráða för – gegn kapítalískum keppinautum, sem vel má nefna: Rússland og Kína – Kína er ekki kommúnískt land, Kína er kapítalískt land, í raun mjög þróað kapítalískt land, og eins er um Íran.“ (heimild)

              

Það er kanadíski samfélagsrýnirinn Michael Chossudovsky sem segir þetta. Í eftirfarandi grein tek ég undir þessa greiningu, helstu hernaðarátök nútímans taka á sig þessa mynd, heimselítan berst gegn þjóðlegum kapítalisma og sjálfstæði þjóða. Í framhaldinu spyr ég: Hvers vegna er það svo?

Eitt einkenni kapítalismans er hneigð auðmagnsins til að hlaðast upp, samruni, yfirtökur, stór gleypir lítinn, samruni útyfir landamæri þjóðríkja og sístækkandi efnahagseiningar. Risaauðhingar skipta með sér heimsmarkaðnum. Á pólitíska sviðinu ríkir samþjöppun í vaxandi valdablokkir. Heimskapítalisminn hefur frá 1945 einkennst af drottnunarstöðu eins ríkis, Bandaríkjanna. Um skeið var þó einnig fyrir hendi sterk blokk kennd við kommúnisma. En eftir lok kalda stríðsins og brotthvarf Austurblokkarinnar um 1990 varð heimurinn „einpóla“ með mikilli drottnunarstöðu Vesturblokkar, Bandaríkjanna ásamt bandamönnum.

Í upphafi var hugveitan
Hnattræn stjórnlist (strategía) bandarískrar/vestrænnar elítu er ekki mótuð á neinu þjóðþingi né í stofnunum SÞ. Hún er einkum mótuð í nokkrum hugveitum eða klúbbum þar sem saman koma fulltrúar bandarískrar og vestrænnar toppelítu – alls ekki þjóðkjörnir. Lýðræðið þvælist ekki mikið fyrir hinum raunverulegu valdhöfum heimsins. Af áhrifaríkustu hugveitum innan Bandaríkjanna ber að nefna Brookings Institution (stofnuð 1916), Hoover Institution (1921) og Council of Foreign Relations (1921) og Center for Strategic and International Studies (1962). Tvær þær síðastnefndu hafa öðrum fremur mótað utanríkisstefnu USA, en allir hafa þó klúbbarnir haft mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi starfa Bilderberg Group (stofnuð 1954 til að treysta samband N-Ameríku og V-Evrópu og „atlanticism“), Aspen Institute (stofnað 1950), Trilateral Commission (stofnað af David Rockefeller 1973 til að rækta og móta samband Norður Ameríku, Vestur Evrópu og Japans). Síðarnefndu klúbbarnir þrír eru hugveitur fyrir Vesturlönd en að uppruna og öllum grundvelli eru þeir bandarískir eins og hinir sem fyrr voru nefndir. Loks ber að nefna stofnunina The World Economic Forum, eins konar heimsþing vestræns einokurarauðvalds, hagsmunasamtök ca. 1000 voldugustu auðhringa á hnettinum, sem hittist árlega í Davos í Sviss og hefur mjög bein völd og setur pólitík á dagskrá vítt um hinn vestræna heim.