Saturday, June 25, 2016

Vesturblokkin og Sýrlandsstríðið

Birtist í Fréttablaðinu 23. júní 2016

Fáni Sýrlands í sprengdri borg

Alla 21. öld hefur Vesturblokkin stundað hernaðaríhlutanir í Miðausturlöndum og nærsveitum. Stríð í seríu: Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi, en valdaskiptaáformum í Íran hefur verið vikið til hliðar, rétt í bili.

STRÍÐSMARKMIÐ: Að tryggja full yfirráð á þessu efnahagslega og hernaðarlega kjarnasvæði. Framantalin lönd höfðu af ólíkum ástæðum ekki látið nógu vel að stjórn USA og Vestursins, sem settu þess vegna „valdaskipti“ þar á dagskrá. Þeirri dagskrá er fylgt fast þótt það kosti stríð, rústun ríkjanna og/eða sundurlimun.

„MANNÚÐARÍHLUTUN“: Yfirskriftir styrjaldanna eru mismunandi. Yfirskrift innrásar í Afganistan var að „ná hryðjuverkamönnum“ en í Írak að „finna gjöreyðingarvopn“. Hvort tveggja er löngu afhjúpað sem uppspuni. Stríð NATO-velda í Líbíu hafði vandaða og söluvæna yfirskrift: „íhlutun í mannúðarskyni“, vegna árása Gaddafís á þegna sína!

EN SÝRLANDSSTRÍÐIÐ? Afskipti Vestursins af Sýrlandi eru sett í flokk „mannúðaríhlutana“. Sagan sem sögð er á Vesturlöndum er að misþyrmingar Assad-stjórnarinnar á eigin þegnum hafi kveikt „borgarastríð“ – vestræna fréttaveitan malar þá frétt í sífellu, en talar líka stundum um átökin sem „trúardeilur“. „Alþjóðasamfélagið“ ku því hafa „verndarskyldu“, ástandið kalli á íhlutun í mannúðarskyni. Þó yfirskriftir fyrri íhlutana hafi augljóslega reynst fals gengur furðu vel að selja stríðið með þessari yfirskrift. Vesturlönd standa þarna sameinuð, nema helst í afstöðunni til sýrlenskra flóttamanna. Íslensk pressa tekur svo vel undir söng Vestursins að aldrei heyrist mishljómur. Aldrei.

FJÓRSKIPT STRATEGÍA Í SÝRLANDI: Aðferð Vestursins til að brjóta andstöðu Sýrlands er fjórskipt: Viðskiptabann, diplómatísk einangrun, stuðningur við „uppreisn“, hernaðarinnrás.


a) Viðskiptabann. Bandaríkin lögðu viðskiptabann á Sýrland frá 2004 (hafa hert það síðan) en ESB gerði hið sama 2013. Þetta á stóran þátt í þjáningum Sýrlendinga og landflótta. Ísland gengur í sama takt og hefur engin viðskipti við Sýrland (en hefur t.d. veruleg viðskipti við Tyrkland, Sáda og Ísrael).

b) Diplómatísk einangrun. Íslenska vinstri stjórnin, líkt og Vesturblokkin öll, viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa – National Coalition – sem lögmætt stjórnvald Sýrlands. Þessi viðurkenning þýðir að Vestrið – Ísland með – stillir sér á bak við annan aðilann í sk. borgarastríði, gefur grænt ljós á uppreisn gegn stjórnvöldum sem viðurkennd eru af SÞ sem lögmæt. Þessi afstaða Íslands þýðir einnig að hjálparstarf héðan fer til uppreisnarafla og er því undir formerkjum „valdaskipta“.

c) Stuðningur við uppreisn. Á pappírnum heitir það stuðningur við „hófsama uppreisnarmenn“ en Joe Biden, varaforseti USA, sagði það skýrt: „Hófsöm miðja var aldrei til“ í sýrlensku uppreisninni. Uppreisnin er frá byrjun borin uppi af trúarvígamönnum. „Borgarastríð“ og „uppreisn“ eru auk þess rangnefni, í fyrsta lagi af því að stór hluti andstöðunnar eru erlendir vígamenn (Wikipedia áætlar að þeir „may now number more than 11.000“). Í öðru lagi eru hryðjuverkaherirnir (og sk. uppreisn) fjármagnaðir utanlands frá, eru „staðgenglar“ erlendra velda. Frá upphafi hefur NATO-landið Tyrkland lagt „uppreisninni“ til aðflutningsleiðir og aðdrættina, ekki síst vopnasendingar, en Sádar og Persaflóaríkin sjá mest um fjármögnunina. Að baki stendur Vestrið, enda Sádar og Tyrkir (auk Ísraels) mikilvægustu bandamenn Vesturblokkarinnar í Miðausturlöndum.

d) „Alþjóðlega bandalagið gegn ISIS“ hóf lofthernað yfir Sýrlandi (og Írak) í desember 2014, gegn vilja sýrlenskra stjórnvalda og þ.a.l. gegn alþjóðalögum. Aðilar bandalagsins eru Bandaríkin og Evrópustórveldin, ásamt helstu stuðningsríkjum ISIS, Tyrklandi og Persaflóaríkjum. Skal því ekki undra að þetta „stríð“ hafði þveröfug áhrif í því að veikja ISIS. Ekki fyrr en Rússar mættu á svæðið til aðstoðar við sýrlenska herinn tók ISIS að láta undan síga. Viðbrögð Vestursins núna við sókn Sýrlandshers eru endurskipulagning: Styðja við sveitir Al Kaída/Al Nusra (sem reynt er að skíra „hófsama“) og einnig sveitir Kúrda á ákveðnum svæðum jafnframt því að senda inn eigin sérsveitir, bandarískar, franskar, breskar og þýskar. Öll áhersla er lögð á að hindra að Sýrlandsher skeri á aðflutningsleiðir „uppreisnarinnar“ frá Tyrklandi, einkum að hann nái aftur borginni Aleppo, sem gæti ráðið úrslitum í stríðinu. Stríðsmarkmið Vestursins eru þau sömu, hafa þó hliðrast frá „valdaskiptum“ í Damaskus yfir í sundurlimun Sýrlands í a.m.k. þrennt eftir þjóðernis- og trúarlínum, líkt og Írak.

Sunday, June 19, 2016

Stærsta heræfing í Austur-Evrópu eftir kalda stríðið

Birt á Fésbókarsíðu SHA 9. júní 2016

NATO-æfing í Póllandi

Margt í gangi hjá NATO í Austur-Evrópu í maí og júní. CNN skrifar: „The United States launched a ground-based missile defense system earlier this month in Romania. The system is meant to defend Europe against rogue states like Iran and not intended to target Moscow’s missiles, Washington has said.“
Trúi hver sem vill að þessu sé miðað á Íran! Eldflaugakerfið kallast „Aegis Ashore“, tilheyrir herstyrk NATO í Evrópu og NATO-Stoltenbereg klippti á borðann við vígsluna. Á næstu 2-3 árum verður svo hliðstætt eldflaugakerfi sett sett upp í Póllandi.
Og miklar NATO-heræfingar í Eystrasaltssvæðinu í júní. Fréttaveitur skrifa: „Over the next three weeks BALTOPS 16 will draw together some 6,000 personnel, 45 warships, and 60 aircraft from 17 nations, including the United States, Germany, the U.K., the Netherlands, along with the littoral states of the Baltic States who are NATO members (Estonia, Latvia, Lithuania, Poland, Denmark) or NATO partners (Sweden and Finland).“
Undir sömu NATO-æfingu heyrðu m.a. tvö þúsund fallhlífarhermenn sem steyptu sér yfir Pólland 7. júní: „About 2,000 NATO troops from the U.S., Britain, Portugal and Poland conducted an airborne training operation on Tuesday as part of the biggest exercise performed in Poland since the 1989 end of communism and amid concerns over Russia.“ En The Guardian hefur þessar tölur hærri: 31 þúsund manns frá 24 löndum, stærsta heræfing í A-Evrópu eftir kalda stríðið.
Tveimur dögum áður var önnur áhugaverð frétt um þróun mála í Póllandi undir harðlínu hægriflokknum Lög og réttlæti. RÚV sagði fá: „Yfirvöld í Póllandi hafa heitið því að koma á fót vopnuðu heimavarnarlið. Vonir stjórnvalda standa til að innan þriggja ára verði alls 35.000 sjálfboðaliðar í sveitunum, um allt Pólland... Þá tilkynnti Macierewicz [varnarmálaráðherra] að til stæði að fjölga hermönnum í pólska hernum um helming - úr 100 þúsund í 150 þúsund... Stjórn flokksins Lög og réttlæti, undir forystu Jaroslaws Kaczynski, hefur lagt mikið upp úr föðurlandsást og verið tíðrætt um þá ógn sem stafi af útþenslustefnu Rússa.“ 
Eitt einkenni á herskárri Bandaríkjanna og NATO síðustu misseri er ákafinn að virkja hið andrússneska. Andrússneskir straumar hafa lengi mátt sín allmikils í Austur-Evrópu, m.a. í vestanverðri Úkraínu og Lithauen en þó hvergi meira en í Póllandi.