Tuesday, December 26, 2017

Byltingarhugsun og byltingarframkvæmd. Nokkrir punktar um Októberbyltinguna

(birtist á vefsíðunni http://sosialistaflokkurinn.is 23. des 2017)

Hvers konar bylting var Októberbyltingin?
„Byltingarnar eru eimreiðar mannkynssögunnar.“ (Karl Marx, „Stéttabaráttan í Frakklandi 1848-50“, Úrvalsrit, 93) Októberbyltingin spratt upp úr heimsstyrjöldinni fyrri, hún var afsprengi þess hvernig rússnesk stéttabarátta brást við heimsstyrjöldinni og þeirri pólitísku kreppu sem hún olli. Byltingarnar voru nánar tiltekið tvær. Sú fyrri, Febrúarbyltingin sk., var mikið til sjálfsprottin, ekki skipulögð af neinum stjórnmálaöflum. Það var borgaraleg lýðræðisbylting gegn ríkjandi valdstétt, rússneska aðlinum, en sérstæð að því leyti að hún var fyrst og fremst drifin áfram af verkalýð bæjanna og verkfallsbaráttu hans, einkum í Petrógrad, og síðan af uppreisnum í hernum – en að litlu leyti af borgarastéttinni. Þegar keisarinn afsalaði sér völdum fór síðan af stað uppskipting aðalsjarða, þ.e. bylting jarðlausra bænda gegn landeigendaaðlinum.
Seinni byltingin, Októberbyltingin, var verkalýðsbylting, framkvæmd einkum af verkamannaráðunum (sovétunum) í PetrógradMoskvu og miklu víðar sem spruttu fram í framhaldi af Febrúarbyltingunni. Öfugt við Febrúarbyltinguna var Októberbyltingin í hæsta máta skipulögð – afurð markviss pólitísks starfs. Það sem mestu réði um stefnu og rás atburðanna frá febrúar til október (raunar mars – nóvember) var þróun meðal verkalýðsins og innan hinnar ungu sósíalísku hreyfingar landsins, og alveg sérstaklega var afgerandi þáttur róttækasta hluta hennar – bolsjevíkaflokksins sem leiddi verkamannaráðin til valdatöku og byltingar þann 7. nóvember (25. október á rússnesku dagatali þess tíma).
Valdatakan var fyrirfram boðuð undir þremur meginslagaorðum: Friður! Jarðnæði! Brauð! Á næstu mánuðum voru þessi slagorð sett í framkvæmd – þannig: 1. Hinar stóru landeiginr aðalsins voru teknar eignarnámi og skipt milli þeirra sem erjuðu landið. 2. Saminn var friður við Miðveldin í Brest-Litovsk í mars 1918. Það aflétti ógnarlegum þjáningum af landsmönnum, þó að friðarskilmálarnir væru Rússum erfiðir. Friðurinn var forsenda fyrir framkvæmd síðasta slagorðsins – 3. Rússneski herinn, sem að stærstum hluta var bændaher, gat farið heim og framleitt brauð.
Byltingarstjórnin gat ekki komið í veg fyrir að fyrri valdstéttir, aðall og auðstétt, hæfu borgarastríð árið 1918 sem stóð fram á árið 1922. Þær fengu til liðs við sig 14 kapítalísk ríki sem lögðu þeim til herafla. Rauði herinn hafði þó sigur. Borgarastríðið hafði afgerandi áhrif á stjórnarfar verkalýðsríkisins og átti sinn þátt í að það þróaðist yfir í flokksræði Bolsévíkaflokksins. Það flokksræði var samt stéttbundið eins og pólitísk völd jafnan eru, og sótti vald sitt og stuðning fyrst og fremst til verkalýðsstéttarinnar, lengi vel.


Monday, October 23, 2017

Hverflyndi og þagnarbindindi VG í Evrópumálum

(birtist á Neistar.is 21. okt 2017)

Umræða um ESB er algjörlega fjarverandi í kosningaefni Vinstri grænna. Hins vegar: „Alls segj­ast 51 pró­sent stuðn­ings­manna Vinstri grænna vera fylgj­andi því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir sam­tökin Já Ísland.“ (Kjarninn 16 október) Skv. sömu könnun er um 40% þjóðarinnar ESB-sinnuð en 60% andvíg. VG-kjósendur eru sem sagt orðnir mun aðildarsinnaðari en þjóðin. Þó að VG hafi enn á stefnuskrá að Ísland sé betur komið utan ESB hefur flokkurinn VG nokkrum sinnum á síðustu 4 árum ályktað um að hann vilji að Ísland taki aðildarsamningana upp að nýju og „ljúki aðildarviðræðunum“. Í ljósi þessarar stöðu og þróunar hjá VG og í ljósi þess að Samfylking og Viðreisn hafa umsókn á stefnuskrá sinni og í ljósi þessarar stöðu er hættan á að ný miðju-vinstri stjórn reyni að halda áfram aðildarumsókninni. Það sem verður okkur til happs í þessum efnum er núverandi tregða hjá ESB að opna á aðildarviðræður og frekari stækkun að sinni.

Það sem ég vil einkum benda á í þessu samhengi er: ESB-þróun VG sýnir hvað gerist með flokk sem svíkur sjálfan sig. VG fór í ríkisstjórn með Samfylkingunni 2009 og fórnaði þá ESB-stefnu sinni snarlega fyrir það samstarf (fórnaði reyndar ýmsum öðrum stefnumálum líka) og lagði inn aðildarumsók án þess að spyrja þjóðina fyrst – vísandi til „lýðræðisástar“ flokksins þar sem þjóðin skyldi fá að tjá sig um lokaniðurstöðuna! Ekki nóg með það, frá þessari stjórnarmyndun tók VG-forustan ESB-andstöðuna algjörlega af dagskrá sinnar orðræðu meðan aðildarsinnar fluttu sitt mál sem óðir væru. Hjörleifur Guttormsson þingmaður og félagi í flokknum til 2013 skrifaði seinna: „Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009 minnist ég þess ekki að Steingrímur J. sem formaður eða arftakinn Katrín Jakobsdóttir hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.“ ("Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018", Mbl. 26. október 2016)

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn.

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn. 

Tuesday, October 17, 2017

Flóttamenn, heimsvaldastefna og hjartagæska

(Birtist í vefritinu neistar.is 16. okt 2017)

Ræðum nú aðeins flóttamannavandann. Sko, í kosningaumræðunni núna og íslenskri stjórnmálaumræðu er afar lítið talað um utanríkismál. Og sama sem ekkert um stríð og stríðshættu. Ein ástæðan er sú að það er engin raunveruleg stjórnarandstaða á þessu sviði á Alþingi. Það lengsta sem kosningaumræðan kemst inn á umrætt svið er að ræða „flóttamannavandann“. Af viðmælendum á götunni er ég dálítið spurður um afstöðu Alþýðufylkingarinnar til flóttamanna. Stundum í gagnrýnum tón, og er þá Alþýðufylkingunni líklegast ruglað saman við Íslensku þjóðfylkinguna, en það vandamál verður nú minna eftir skipbrot þess framboðs.

Umhyggja almennings gagnvart flóttamönnum sýnir heilbrigt hugarfar, síst skal gera lítið úr því. En fjöldi móttekinna flóttamanna er samt ekki aðalatriði málsins. Í fjölmiðlaumræðunni um flóttamenn, og í umræðu flokkanna flokkanna á Alþingi, er skipulega horft framhjá aðalatriði þess máls, orsökum flóttamannastraumsins. Höfuðorsakir hans eru í fyrsta lagi ránsstyrjaldir heimsvaldasinna og í öðru lagi misskipting og arðránskerfi heimsvaldastefnunnar. Hér mun ég eingöngu tala um fyrrnefnda atariðið.

Skv. tölum Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) eru um 22 milljónir manna á heimsvísu skilgreindir flóttamenn utan eigin lands, fólk sem flýr stríð, átök og ofsóknir. Á 21. öldinni eru nokkrar stærstu uppsprettur flóttamanna Afganistan, Írak, Sómalía, Suður-Súdan, Jemen og Sýrland. Sýrland hefur verið stærsta einstaka uppspretta flóttamanna frá 2011 og hefur valdið stöðugum og örum vexti í heildarfjölda flóttamanna. Stærsti orsakaþáttur flóttamannasprengjunnar er stríðsrekstur bandamanna okkar, NATO-velda og bandamanna þeirra, í framantöldum löndum (Suður-Súdan býr að vísu ekki við hernaðarinnrás heldur borgarastyrjöld frá 2013 eftir að Bandaríkin og Vesturlönd þvinguðu í gegn skiptingu Súdans 2011). Að baki hinni vestrænu hernaðarútrás, sem kallast oftast „stríð gegn hryðjuvverkum“ býr gróðadrifin, kapítalísk heimsvaldastefna.

Það er mikil hræsni að aulýsa sig sem sérstakan vin flóttamanna en standa í reyndinni á bak við þær styrjaldir sem flóttamannastraumnum valda. Íslenskar ríkisstjórnir hafa stutt hernað Vesturlanda og bandamanna þeirra í Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi. Íslensk stjórnvöld hafa auk heldur með þögninni stutt glæpsamlegan stríðsrekstur Sádi-Araba gegn Jemen sem enda er studdur af forusturíkjum NATO.

Þarna breytir litlu eða engu um afstöðu Íslands hvort hér situr íhald við völd eða sk. vinstristjórnir, stuðningurinn við stríðsrekstur bandamanna okkar er óbreyttur. Stuðningur Davíðs og Halldórs við innrásina hroðalegu í Írak 2003 er frægur að endemum. Stuðningur íslensku vinstristjórnarinnar við stríð NATO gegn Líbíu 2011 var fumlaus og skilyrðislaus, stríð sem rak 2 milljónir á flótta, þriðjung þjóðarinnar. Svokölluð „uppreisn“ í Sýrlandi hófst einnig árið 2011. „Bandalag uppreisnarhópanna“ var skjótt viðurkennt og stutt af USA og NATO-ríkjum og bandamönnum þeirra við Persaflóa og af Ísrael – og af íslensku vinstristjórninni. „Uppreisnin“ leiddi af sér ómældar þjáningar fyrir landið. Fyrir hana voru sýrlenskir flóttamenn nánast óþekkt fyrirbæri en innan skamms var hálf þjóðin á flótta, innan landsins eða utan.

Flóttamannastraumur og framlög ríkja til „öryggis- og varnarmála“ hangir náið saman. Eins og áður sagði er stærsti orsakaþáttur flóttamannasprengjunnar hernaðarbrölt NATO-velda og bandamanna þeirra. Hvað um Ísland? Á vef Utanríkisráðuneytisins kemur fram að „hornsteinar varna landsins eru eftir sem áður varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).“ Meginverkefni NATO í Evrópu nú um stundir er hernaðaruppbyggingin gagnvart Rússlandi. Loftrýmiseftirlitið við Ísland er hluti af því. Þar við bætast hinar efnahagslegu refsiaðgerðir USA og ESB gegn Rússum út af Úkraínudeilunni. Vestrænt stutt valdarán í Kiev og hernaður nýrra stjórnvalda þar gegn austurhéruðunum hefur leitt af sér flótta um 1 milljónar manna þaðan úr landi. Refsiaðgerðirnar gegn Rússum eru studdar af öllum flokkum á Alþingi og hin tvöfalda árásarstefna Vesturblokkarinnar gegn þeim mætir engri andstöðu á Alþingi Íslendinga.

Stríðsframlög Íslands eru einkum pólitískur stuðningur við stríð. En þó að við berum eingöngu saman „varnarmálaframlög“ Íslands og framlög til flóttamanna er útkoman mjög slæm. Á yfirstandandi ári eru framlög Íslands til „flóttamanna og hælisleitenda“ (150 milljónir) aðeins einn tíundi hluti af framlagi landsins til „öryggis- og varnarmála“ (1,5 milljarður).

Alþýðufylkingin krefst þess að Ísland auki framlög sín til flóttamanna mjög verulega. Samt er það aðeins einn þáttur málsins, og ekki sá mikilvægasti. Flóttamannastraumur er fyrst og fremst ein afleiðing af yfirgangi heimsvaldasinna. Aðalspurningin á að vera: Hver er afstaða ykkar/okkar til styrjaldanna í áðurnefndum löndum? Þá spurningu vilja stjórnamálaflokkar Alþingis ekki ræða. Hana vill RÚV ekki heldur ræða, bara afstöðuna til flóttamanna. Þetta þrönga sjónarhorn mætti yfirfæra á annað svið til glöggvunar, frá utanríkisstefnu t.d. yfir á lýðheilsustefnu. Segjum að stjórnvöld rækju þá lýðheilsustefnu að troða í þegnana sem allra mestu af sykri og ómeti – sem væri jú nokkurs konar sýklahernaður gegn þeim – og tækju svo afleiðingum hernaðarins með mikilli áherslu á bætta tannhirðu. Það væri einmitt hliðstætt þeirri stefnu Vesturlanda (þ.á.m. Íslands) að standa að hernaði víða um heim og gera svo móttöku flóttamanna að aðalatriði í lausn vandans.

Sem áður segir er Sýrland nú stærsta uppspretta flóttamanna á heimsvísu, en nú eru fréttir þaðan reyndar batnandi. Góðu fréttirnar eru ekki brjóstgæði einstaka Evrópulands í móttöku flóttamanna – enda gildir um þau flest það sama og um Ísland að framlag þeirra til stríðsþáttarins er margfalt meira en framlagið til flóttamanna – heldur eru það hernaðarlegir sigrar Sýrlandshers sem valda því að flóttamannastraumur þaðan er byrjaður að snúast við.

Wednesday, September 13, 2017

Brjálsemin í Kóreudeilunni

Norður Kórea er "eðlilegt" ríki og stjórnvöld þar hugsa fyrst og fremst um sjálfstæði landsins og velferð þegnanna, en landið á í höggi við brjálaðasta og yfirgangssinnaðasta herveldi heims. Þetta brjálaða ríki drap á sínum tíma 1/3 hluta íbúa N-Kóreu í stríði. Frá vopnahléinu 1953 hefur brjálaða ríkið neitað N-Kóreumönnum um vopnahléssamning sem þeir hafa þó þráfaldlega óskað eftir. Brjálaða ríkið hefur nú 15 herstöðvar í Suður Kóreu allt að norðurlandamærunum. Árið 2001 setti brjálaða ríkið N-Kóreu á listann yfir "öxulveldi hins illa" ásamt Írak, Íran, Líbíu, Sýrlandi, og Kúbu og hefur síðan unnið sig skipulega niður þann lista með innrásum, valdaskiptaaðgerðum, eyðileggingu og dauða. Brjálaða ríkið stjórnar reglulega flug- og flotaæfingum undan strönd Kóreu, síðast einni í vor með yfir 300 þúsund þátttakendum. Norður Kórea kom sér loks upp kjarnorkuvopnum til landvarna, sprengdi fyrstu sprengjuna 2006 og hefur síðan sýnt heiminum að varasamt sé að ráðast á landið. Það voru viðbrögð "eðlilegs" ríkis. Steven Bannon, fyrrum aðalráðgjafi Trumps, sér þetta og sagði um daginn: "Það er engin hernaðarlausn fyrir hendi. Gleymdu því. Þar til einhver leysir þann hluta jöfnunnar sem sýnir mér að 10 milljónirnar í Seúl deyi ekki á fyrstu 30 mínútunum... Þarna er engin hernaðarleg lausn. Þeir náðu okkur."


Hér hef ég einkum tiltekið atriði sem skýra viðbrögð N-Kóreu sem "eðlileg" og réttmæt varnarviðbrögð. Áhrif Kóreudeilunnar á samband Kína og Bandaríkjanna er önnur hlið málsins. Steven Bannon sagði í sama viðtali að Kóreudeilan væri "aukasýning" en efnahagsstríðið við Kína væri aðalmálið. Brjálaða ríkið notar Kóreu-deiluna í baráttunni við að umkringja Kína hernaðarlega. Trumpstjórnin herðir róðurinn á þeim vígstöðvum. Þetta er hliðarverkun sem stjórnvöld N-Kóreu ráða illa við. En"glæpur" N-Kóreu er einfaldlega andstaða gegn bandarískri yfirráðastefnu og andstaða gegn því að láta gleypa sig.

Sunday, August 27, 2017

Viðbúnaðurinn gegn Norður-Kóreu beinist að Kína


Daginn áður enn aðalráðgjafi Trumps, Steve Bannon, yfirgaf Hvíta húsið sagði hann í viðtali að hamagangurinn á Kóreuskaga væri bara „aukasýning“ „sideshow“. Hins vegar: „The economic war with China is everything. And we have have to be maniacally focused on that... We’re at economic war with China. It’s in all their literature. They’re not shy about saying what they’re doing. One of us is going to be a hegemon in 25 or 30 years and its gonna be them if we go down this path.“ Sjá heimild. 

Svona umbúðalaust tal æðstu manna er glannalegt og Bannon var látinn fara. En auðvitað hafa glöggir menn séð þetta áður. Paul Craig Roberts skrifaði fyrir skömmu: „The Chinese government also is not stupid. The Chinese leadership understands that the reason for the N. Korean “crisis” is to provide cover for Washington to put anti-ballistic missile sites near China’s border.“ Sjá heimild. 

Í fyrradag sagði svo Trump að hann ætlaði að setja aftur aukinn kraft í Afganistanstríðið. Í Moskvu hugsuðu menn sitt um þessa vendingu í Washington. Adzhar Kurtov ritstjóri hjá Rannsóknarstofnun hermála skrifaði: „Behind all these bright-eyed statements about a certain new strategy in Afghanistan is a trivial position – to remove a rival or weaken him. Nowadays, the People’s Republic of China is the main rival of the US on the global arena,” Adzhar Kurtov said. He pointed to Beijing’s “serious plans for cooperation with Afghanistan, including in the economic sector“. Kurtov vísar sérstaklega til þess að Afganistan og Pakistan gegna mikilvægu hlutverki í áformum Kína um nýja „Efnahagsbelti silkivegarins“. Pakistan gerðist nýlega fullur meðlimur í „Samvinnustofnun Sjanghæ“ með miðstöð í Peking og í framhaldinu hótar nú Trump að stöðva efnahagsaðstoð USA við Pakistan. Sjá heimild.

Monday, August 21, 2017

Sýrlenskir flóttamenn snúa heim


SÞ-stofnunin International Organization for Migration (IOM) greinir frá að nú fjölgi mjög sýrlenskum flóttamönnum sem snúi heim, 600 þúsund það sem af er ári. Meirihluti þeirra er flóttafólk innan Sýrlands. Þetta eru straumhvörf í þróun stríðsins, þökk sé sigrum Sýrlandshers gegn innrásarherjum sem styðjast við NATO-ríkin og bandamenn við Persaflóa.


Skýrslan segir m.a. að meirihluti þeira sem snúa heim fari til Aleppó-stjórnsýsludæmis: "Half of all returns in 2016 were to Aleppo Governorate. The report shows that similar trends have been observed in 2017. Consequently, an estimated 67 per cent of the returnees returned to Aleppo Governorate" Áhugavert er að rifja upp áralangar hjartnæmar lýsingar RÚV á frelsisbaráttu uppreisnarmanna í Aleppo og sjá svo í ljósi þessa hverjir það voru sem í raun háðu frelsisbaráttu þar í borg. Sjá heimild. 

Monday, August 7, 2017

Hertar refsiaðgerðr gegn Rússum: djöflareið til styrjaldar

(birt á fésbókarsíðu SHA 6. ágúst 2017)

Í vikunni samþykkti bandaríska Þingið lagafrumvarp um „hertar refsiaðgerðir“ gegn Rússlandi, í reynd fullt viðskipta- og efnahagsstríð gegn landinu og endurkomu kalda stríðsins. Atkvæðatölurnar í Þinginu voru ótrúlegar, 98 gegn 2. Gegn voru aðeins Rand Paul og Bernie Sanders, sá síðari þó aðeins af því lögin beindust líka gegn Íran. Trump lýsti megnri óánægju með lögin, taldi þau „clearly unconstitutional“ en sagðist mundu samt undirrita. Enn ein niðurlægingin fyrir forsetann sem hér tapar stjórn utanríkismála í hendur þingsins þar sem haukar í báðum flokkum ráða för.


Lögin hafa valdið ólgu í Evrópu. Þau kveða nefnilega á um stofnun “Center for Information Analysis and Response” sem m.a. á að annast skráningu og skýrslugerð um rússnesk áhrif á kosningar, flokka og fólk – og líka í Evrópulöndum. Sem undirstrikar stöðu ESB-ríkja sem bandarískar hjálendur. Refsiaðgerðirnar skaða mjög beint evrópska hagsmuni, t.d. orkumálastefnu Þýskalands og þau fyrirtæki (þýsk og evrópsk) sem fjárfest hafa í jarðgasflutningnum mikla frá Rússlandi. Zypries orkumálaráðherra Þýskalands segir að bandarísku lögin stríði gegn þjóðarrétti.
Bandaríska djúpríkisvaldið hefur nú náð fullri stjórn mála eftir að hafa hnotið lítillega þegar það kom ekki óskafulltrúa sínum í Hvíta húsið. Algjört grunnstef þess í utanríkismálum nú er stríðsstefnan, fyrst gegn Rússlandi síðan Kína - og öllum bandamöannum þeirra, að tryggja að bandaríski bryndrekinn haldi sér á stríðsbrautinni til að viðhalda forræði USA og Vestursins. Um það snýst fárið um rússnesku „kosningaafskiptin“. Og, merkilegt nokk, líka hin sérstaka herferð bandarískrar pressu gegn Trump. Um þessa djöflareið til stryrjaldar skrifaði John Pilger í fyrradag: „On 3 August, in contrast to the acreage the Guardian has given to drivel that the Russians conspired with Trump ...the paper buried, on page 16, news that the President of the United States was forced to sign a Congressional bill declaring economic war on Russia. Unlike every other Trump signing, this was conducted in virtual secrecy and attached with a caveat from Trump himself that it was “clearly unconstitutional”.
A coup against the man in the White House is under way. This is not because he is an odious human being, but because he has consistently made clear he does not want war with Russia. This glimpse of sanity, or simple pragmatism, is anathema to the “national security” managers who guard a system based on war, surveillance, armaments, threats and extreme capitalism." Sjá heimild.

Thursday, July 27, 2017

Merki um bandaríska stefnubreytingu í Sýrlandi?

(birtist á fésbók SHA 24. og 26. júlí 2017)
Í vikunni sáust a.m.k. tvenn merki um mögulega stefnubreytingu Bandaríkjanna í Sýrlandsstríði.

I. Fyrir viku greindi RÚV frá að CIA ætlaði að hætta stuðningi við hópa uppreisnarmanna í Sýrlandi og snúa þannig við stefnu sem Obamastjórnin tók 2012. Í framhaldinu greindi Finacial Times frá skiljanlegum áhyggjum sýrleskra uppreisnarhópa (og John McCain) af þessum sökum. En í barlómi þeirra kemur skýrt fram merkilegt atriði sem ekki er daglega fjallað um í vestrænum fjölmiðlum, að jíhadistarnir eru ekki bara vopnaðir af CIA, þeir eru á LAUNASKRÁ CIA: "Einn uppreisnaryfirmaður sem vildi ekki láta nafns síns getið sagði að stuðningur Bandaríkjanna hefði verið minnkandi mánuðum saman, en gat þess að uppreisnarmenn hefðu þó fengið laun sín eins og venjulega síðasta mánuð." Jíhad-málaliðar sumsé. Flökt og umsnúningar Trumps í Sýrlandi, milli "raunsæis" og aukinnar hörku endar mögulega á viðurkenningu þess að þetta stríð geta þeir ekki unnið. Sjá heimild.

II. Generáll Raymond Thomas yfirmaður bandarískra sérsveita í Sýrlandi (Special Operations) á fundi um öryggismál hjá Aspen Institute segir skýrt að Bandaríkin hafi ekki neina þjóðréttarlega heimild fyrir herliði í Sýrlandi. Ef Rússar spyrja okkur: Hvað hafið þið þar að gera? er okkur ekki stætt þar: "Hér er ráðgáta: Við störfum í fullvalda ríkinu Sýrlandi. Rússarnir, stuðningsmenn og bakmenn þeirra, hafa þegar gert Tyrki óboðna í Sýrlandi. Við erum einn slæman dag frá því að Rússar spyrji: Af hverju eruð þið, Bandaríkin, enn i Sýrlandi." Heimild. 

Saturday, July 8, 2017

Fleiri göt á lygahjúpinn um eiturgasið í Sýrlandi

(birtist á fésbók SHA 7. júlí 2017)
                                                   Fréttamynd um fórnarlamb saríns í Khan Sheikhoun

Meðhöndlun vestrænnar pressu á nýlegum eiturgas-skrifum Seymour Hersh segir sitt um fjölmiðlafrelsið í hinum vestræna heimi. Heimildarmenn hans í bandarískri leyniþjónustu sögðu honum að opinbera útgáfan af eiturárás í sýrlenska bæinn Khan Sheikhoun – sem gaf Trump yfirvarp til að hefja opið stríð gegn Sýrlandsstjórn – væri fals. Hersh gat ekki komið greinum sínum í neitt útbreitt blað í Bandaríkjunum eða Bretlandi. Um síðir kom hann þeim í þýska vikublaðið Welt am Sonntag. Þá kom næsti leikur meginstraumspressunnar: Hún hefur síðan fylgt SKIPULEGRI ÞÖGGUN gagnvart þessum afhjúpunum. Þegjum manninn í hel! Þögnin nær þó ekki til mótstraumsmiðla, og um þá ratar Hersh vel. Um þetta fjallar Jonathan Cook á Counterpunch: sjá heimild.

Aðra glufu í sama lygahjúp gerir Bandaríkjamaður að nafni Scott Ritter. Hann var æðsti vopnaeftirlitsmaður SÞ í Írak frá 1991 til 1998, þ.e.a.s. á undan Hans Blix, og staðhæfði þá staðfastlega að ásakanirnar um gjöreyðingarvopn Íraka væru fals. Þungaviktarmaður m.ö.o. Hann skrifaði núna grein í The American Conservative 29/6. Þarna kannar hann skipulega þau gögn sem lögð hafa verið fram um Khan Sheikhoun, að Sýrlandsher hafi „kastað sarínsprengju“. Gögnin eru myndir frá „Hvítu hjálmunum, myndir sem einkum hafa verið greindar af Human Rights Watch sem hafa dreift þeim áfram gagnrýnislaust. Ritter sýnir fram á að þessi gögn eru víðsfjarri öllu sem kenna má við vísindalega könnun. Engin óháð rannsókn hefur enn farið fram í Khan Sheikhoun. Ritter er ennfremur alveg ómyrkur í máli í afgreiðslu sinni á aðferðum „Hvítu hjálmanna“ sem hann kennir við „leikhúsbrellur“, enda fengu þeir Óskarinn í flokki „heimildarmynda“. Sjá heimild 

Tuesday, July 4, 2017

Stríðið og framtíðarhorfur Sýrlands

(birt á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 4 júlí 2017)

Inngangur eftir Þórarin Hjartarson og grein eftir Patrik Paulov


Í Speglinum 27. júní fjallaði Kári Gylfason um Sýrlandsstríðið. Hann hafði þar eftirfarandi eftir bandarískum blaðamanni, Jonathan Spyer: „Sýrland er ekki lengur til. Því hefur þegar verið skipt upp í sjö aðskilda hluta.“ (heimild) Greining Kára studdist einkum við grein frá 19. maí í ritinu Foreign Policy – sem er mjög miðlægt í bandarískri utanríkisumræðu og mætti kalla málgagn „The Deep State“ vestan hafs. Í greininni skýrir Spyer nánar skiptinguna í sjö svæði: „...svæðið undir yfirráðum stjórnarinnar, þrjú aðskilin svæði undir stjórn uppreisnarmanna, tvær kúrdneskar kantónur og ISIS-svæðið.“ Aftar í greininni slær hann föstu: „Sýrlandi verður skipt á milli stjórnarhlutans í vestri, uppreisnarmanna súnníaraba í norðvestri og suðvestri, svæði tyrknesk-studdra uppreisnarmanna í norðri, SDF-stýrða svæðið í norðaustri og loks eitthvert fyrirkomulag á austursvæðinu sem felur í sér yfirráð bæði SDF og vestrænt studdra araba.“ Stöðu síðastnefnda svæðisins, austursvæðisins, orðaði hann svo á öðrum stað: „...og æ opinskárri stuðningur Bandaríkjanna við þessar sveitir opnar möguleikann á að USA-studdur landshluti verði til austan Efrats“. (heimild)
Þessi greining er auðvitað ekki persónulegt álit Kára Gylfasonar. Hún er ekki heldur greining blaðamannsins Jonathan Spyers. Þetta er línan sem nú er við lýði í Washington (RÚV leitar aldrei annað eftir réttri túlkun átakanna í Miðausturlöndum). Hugveitan RAND Corporation, sem er hluti af bandaríska stjórnkerfinu, nánar tiltekið sérhugveita fyrir herinn,  hefur á undanförum árum árlega birt nokkuð sem hún kallar „Peace Plan for Syria“. Nýjasta áætlunin „Peace Plan for Syria III“ sem lögð var fram í febrúar sl. (ég deildi henni á fésbók SHA 26. febr.) er nánast orðrétt samhljóða framtíðarsýn Spyers um Sýrland. (heimild)

Seymour Hersh afhjúpar enn og aftur lygar um eiturgas

(birtist á fésbók SHA 27. júní 2017)

Það er skammt stórra högga á milli hjá Seymour Hersh. Stefán Pálsson deildi hér á síðunni greininni "Trumps' Red Line" 25/6 þegar hún birtist í Welt am Sonntag. Sjá hér. Og sama dag birti Hersh aðra grein í sama blaði: „We got a fuckin‘ problem“. Þar birti hann "chat protocol" á milli öryggisráðgjafa úr leyniþjónustunni og manns úr bandarískri herstöð í Miðausturlöndum rétt eftir gasárásina í Khan Sheikhoun. Í samtalinu kemur fram pirringur úr leyniþjónustunni með samráðsleysi forsetans. Þarna kemur skýrt fram að leyniþjónustan vissi alltaf að eiturgasið kom ekki frá Sýrlandsher. Einhverjir úr leyniþjónustunni sýndu þennan pirring í verki með því að leka upplýsingunum til Seymour Hersh.

Í samtalinu segir öryggisráðgjafinn um frammistöðu CIA: "You may not have seen Trumps press conference yesterday. He's bought into the media story without asking to see the Intel. We are likely to get our asses kicked by the Russians. Fucking dangerous. Where are the godamn adults? The failure of the chain of command to tell the President the truth, whether he wants to hear it or not, will go down in history as one of our worst moments."


Skriffinnar sem verja hin hörðu viðbrögð USA gegn Sýrlandsstjórn gagnrýna Seymour Hersh einkum fyrir að nota nafnlausa heimildarmenn. Við því er þetta að segja: Slík viðtöl og slíkir lekar út úr bandarísku leyniþjónustunni, lekar sem stríða gegn opinberri línu, fást aldrei birtir nema með skilyrðum nafnleyndar. Á sínum tíma snéri Hersh öllum öðrum blaðamönnum fremur bandarísku almenningsáliti á Vietnamstríðinu með afhjúpun sinni á fjöldamorðunum í My Lai 1969 og fékk Putitzer Prize árið eftir. Lesið aftur samtalið hér að ofan, samtalið sem Hersh birti í Welt am Sonntag. Það nægir. Samtalið fór fram og því var lekið til Hersh. Hann myndi aldrei hætta sínum fjalltrausta blaðamennskuferli á að birta leka sem væri fleipur eða samtal sem ekki hefði farið fram.

Monday, June 26, 2017

Seymour Hersh og sarínið í Sýrlandsstríðinu

Stefán Pálsson deildi á fésbókarsíðu SHS grein eftir Seymour Hersh sem birtist á Welt am Sonntag 25. júní (2017). Hér að neðan er athugasemd mín eftir lestur greinarinnar.

Gott. Hraðlas greinina. Hersh hefur mikil tengsl inn í CIA. Heimildarmenn hans þar hallast að fyrstu tilgátu Rússa, að sýrlensk hefðbundin sprengja hefði hitt eiturefni í Khan Sheikhoum. Næsti liður í skýringunni sem Hersh gefur er gríðarleg hvatvísi Donalds Trump. Þriðji liður er svo bandaríska pressan sem skellti auðvitað skuldinni á Assad einum rómi. Þar með er dómurinn fallinn a.m.k. um allan hinn vestræna heim, „Sýrlandsher kastaði sarínsprengju“, og mönnum þykir forsetinn loksins sanna sig með hröðum og snöggum viðbrögðum!

Hefðbundin sprengja sem sagt, sjálfstýrandi reyndar. Og CIA vissi það allan tímann. Henni var beint á hús í Khan Sheikhoum þar sem fór fram fundur toppmanna úr al-Nusra og Ahrar al-Sham en verslunarlager var á neðri hæð. Bendir ákveðið til að þar hafi eiturefnin verið. Ennfremur: Rússar höfðu látið bandaríska herstjórn í Doha vita af skotmarkinu og tegund árásar fyrirfram.


Neðanmáls: Seymour Hersh er með virtari rannsóknarblaðamönnum Bandaríkjanna og Pulitzer-verlaunahafi. Hersh varð heimsfrægur er hann afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai í Víetnam 1969. Árið 2007 skrifaði hann grein í The New Yorker um stefnubreytingu bandarískra strategista í hernaðinum í Miðausturlöndum, um það hvernig Bush-stjórnin veðjaði á „trúardeilutrompið“, að styðja hernað súnní múslima gegn sjía múslimum. Þetta var ekki breyting á markmiðum strategistanna, meinti Hersh, heldur ný taktík þeirra Hann reyndist algjörlega sannspár. Sjá greinina í The New Yorker. Í desember 2013 gerði Hersh í London Review of Books úttekt á gasárásinni í Ghouta nærri Damaskus í ágúst sama ár sem nærri nærri hafði sett af stað stórstríð Vestursins og bandamanna gegn Sýrlandsstjórn. Hann færði öflug rök að því að sarínið hefði komið frá "uppreisnarmönnum" og hefði borist þeim frá Tyrklandi. 

Saturday, June 24, 2017

Kafbátaheræfing og Rússahættan.

(bistist á fésbókarsíðu SHA 23. júní 2017)

                                Kafbáta-flotaæfingin Dynamic Mongoose 2016 við Noreg


Nú á mánudaginn 28. júní hefst tveggja vikna NATO flotaæfing, við Ísland með áherslu á kafbátahernað, nefnd Dynamic Mongoose. Talað er um 2000-3000 manns sem tekur þátt í æfingunni, frá 9 NATO ríkjum. Ótilgreindur fjöldi herskipa og kafbáta tekur þátt. RÚV talaði í kvöld við NATO-herforingja sem sagði að ástæðan sé vaxandi umsvif Rússneskra kafbáta sem geti farið að laumast gegnum GIUK-hliðið (línan Skotland, Ísland, Hvarf á Grænlandi) – og benti á að nú fari aftur hraðvaxandi hernaðarlegt mikilvægi Íslands, og loftrýmiseftirlitsins. Hættumatið í íslenskum fréttum er allt á eina bók.
Rússar standa fyrir 4-5% af herútgjöldum heimsins. Það er alveg gífurlegur voði. USA stendur fyrir 37%, það er í lagi. NATO og nánustu bandamenn (Ísrael, Japan, Sádar..) standa fyrir svona 85%. Það er í lagi. Vel á minnst Sádar einir eru komnir upp fyrir Rússa, gott.
Rússar hernema herstöð sína til 234 ára á Krímskaga og heimsbyggðin formyrkvast. En USA og NATO ástunda samfellda og æ hraðari hernaðaruppbyggingu við vesturglugga Rússlands með eldflaugakerfum, þungavopnum og tvöföldum mannaflans á hverju einasta ári, guði sé lof!
Rússland hefur eina herstöð utan eigin lands, nefnilega í Sýrlandi. Voðalegt! Bandaríkin hafa 700 herstöðvar utan lands dreifðar um heim, ekki síst í hring um Rússland. Það er í góðu lagi.
Sagt er fyrir vestan haf að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar sl haust. Þetta er alveg hræðilegt, þó sannanir hafi enn ekki fundist. En árið 1996 fóru menn Clintons forseta massíft inn í kosningabaráttuna í Rússlandi til að tryggja Boris Jetsin sigur. 

                                                            Forsíða TIME í júlí 1996

Ritið TIME fjallaði um málið og aðalgreinin fjallaði um: „The secret story of how four U.S. advisers used polls, focus groups, negative ads and all the other techniques of American campaigning to help Boris Yeltsin win.“ Svo veifaði Jeltsin risaláni frá vini sínum Clinton sem fengist, ef sigur ynnist. Ja, göfugur tilgangur helgaði alla vega meðalið.
Ætlar SHA ekki að álykta um málið?

Thursday, June 22, 2017

Katardeilan og klofningur innan sýrlensku "uppreisnarinnar"

(birtist á fésbókarsíðu SHA 22. júní 2017)


Hér er grein frá REUTERS sem greinir erlenda stuðninginn við sýrlensku "uppreisnina" og hvernig Katardeilan virkar kljúfandi á hann. Stuðningur Katar hefur farið á hópa sem standa nálægt Múslimska bræðralaginu og al-Kaida/Nusra, sem kalla sig nú Tahir al-Sham. Þessir aðilar tengjast jafnframt Tyrkjum og starfa mest í Norður-Sýrlandi. Sádar styðja aðallega sömu aðila og CIA (Jaish al-Islam o.fl) sem eru sterkari á suðursvæðinu. Það er ljóst að slæmt stríðsgengi veldur vaxandi klofningi meðal leiguherjanna - nokkuð sem hjálpar Sýrlandsher. Hins vegar stuðlar þetta líklega að auknum beinum hernaði USA-bandalagsins og um leið skýrist æ betur hver er hans raunverulegi andstæðingur.


Í pistli í febrúar sl.vísaði ég í uppfærð plön (eftir „fall“ Aleppo) strategistanna í bandaríska stjórnkerfinu um sundurlimun Sýrlands (í alavíta- tyrkneskan- kúrdískan og súnní- hluta) sem kljúfi allan austurhluta landsins undan yfirráðum Damaskus. Ofannefnd skipting er mjög í samræmi við það. Nýleg fleygsókn Sýrlandshers austur að landamærum Íraks ógnar hins plönum strategistanna. 

Monday, June 19, 2017

Gróteskt þjófélagslegt raunsæi?

Hér leyfi ég mér að byrta ljósmynd af tveimur málverkum til upplífgunar síðunni. Án leyfis og í takmörkuðum ljósmyndagæðum. Ekki eru myndirnar eftir mig (!) heldur son minn, Þránd. Leyfi mér jafnframt að vísa í vefsíðu Þrándar . Myndirnar að neðan eru hluti af sýningunni Gustukaverk sem er í Galleríi Porti Laugavegi 23 b. Reykjavík nú seinni hluta júnímánaðar. Hér kveður við pólitískan tón hjá Þrándi. Kannski má kenna myndirnar við gróteskt þjóðfélagslegt raunsæi. 

                                     Titill: Aryan banki
                                  Titill: Gamma

Thursday, June 15, 2017

Efnavopnaárásin var beiðni um "mannúðaríhlutun“

(greinin birtist í Fréttablaðinu 15. júní 2017)

                    Helstu fréttamyndir frá Khan Sheikhoun komu frá "Hvítu hjálmunum"

Þann 4. apríl fórust um 100 manns af völdum efnavopna í bænum Khan Shaykhoun í Idlib, Sýrlandi. Daginn eftir fordæmdi Trump þessa „svívirðilegu aðgerð af hálfu Assadstjórnarinnar“ og sama gerðu allar vestrænar meginfréttastofur – án allrar rannsóknar á vettvangi.
Þann 11. apríl birti New York Times 4 bls. skýrslu frá CIA um málið. Þar komu fram vísbendingar um tvennt: a) að fórnarlömbin hefðu orðið fyrir sarín-eitrun og b) að flugvélar Sýrlandshers hefðu á sama tíma gert sprengjuárásir á bæinn. Því fylgdi svo fullyrðing um að Sýrlandsher stæði á bak við efnaárásina, byggð einna helst á umsögn Amnesty International sem vísaði til „sérfræðinga“ á staðnum án þess að tilgreina það neitt nánar. Hvorki CIA né Amnesty höfðu gert neina rannsókn á vettvangi, og hún hefur ekki enn farið fram. Þann 12. apríl gerði bandarískt herskip svo eldflaugaárás á sýrlenskan flugvöll „í hefndarskyni“ og sneri stríðinu í fyrsta sinn opinskátt gegn Sýrlandsstjórn.

Þetta er að miklu leyti endurtekin atburðarás frá 2013 þegar Vestrið var á barmi lofthernaðar gegn Sýrlandi, einnig þá eftir eiturgasárás, í Ghouta, nærri Damaskus. Ekki heldur þá komu neinar sannanir um geranda. Eftir aðra eiturárás skömmu áður sagði Carla del Ponte, formaður eftirlitsnefndar SÞ, um efnavopn í Sýrlandi að „sterkar grunsemdir“ um beitingu saríns beindust að uppreisnarmönnum fremur en Assadstjórninni. Seinna leiddu Seymour Hersh o.fl. líkur að því að sarínið kæmi frá Tyrklandi til uppreisnarmanna. Obama mat það svo að sönnunarfærsla um sekt Assads væri veik og andrúmsloft bæði í Bandaríkjum og Bretlandi var greinilega andsnúið stríði svo hætt var við á síðustu stundu. En hér hætti endurtekningin og Trump tók skrefið alla leið.

Monday, June 12, 2017

Stríð 21. aldar og íslenska sjónarhornið

(birtist á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 12. júní 2017

RÚV hafði í samvinnu við UNICEF á „Degi rauða nefsins“ (9. júní) þátt til að styrkja söfnun fyrir þjáð og snauð heimsins börn. Safnað var vegna hungursneyðar í Suður-Súdan, Jemen, Sómalíu og Nígeríu. Ekki var minnst á að vestræn stórveldi hafa staðið á bak við hernað í þremur þessara landa, sem ræður líklega mestu um hungrið. Svo kom „yfirlitsmynd yfir hörmungarnar í Sýrlandi“.

Þórarinn Hjartarson
stálsmiður á Akureyri
Fókusinn var á Aleppó – og spurningin um  sökina var auðveld: Einn aðili var fundinn sekur, Sýrlandsstjórn/her, sem stundað hefði fjöldamorð á borgarbúum. Lyginni er dælt í okkur með sprautum. Yfirlitsmyndin var dæmigerð fyrir túlkun íslenskra fjölmiðla á styrjöldum okkar daga. Helstu fjölmiðlar Íslands – RÚV og dagblöðin tvö – eru alveg samstíga í túlkun á helstu styrjöldum 21. aldar. Skýringarmunstrið er u.þ.b. svona:

a) Stríðið í  Sýrlandi er kallað „borgarastríð“ en sagt stafa af réttlátri „uppreisn“ gegn miskunnarlausum harðstjóra. Af ytri afskipum af stríðinu er einkum talað um þátt Rússa. Þagað er um peningana frá Sádi-Arabíu sem fjármagna „uppreisnina“ eða endalausa aðflutninga og þjónustu við hana frá Tyrklandi. Og fátt sagt um um þátt Bandaríkjanna allt frá viðskiptabanni á Sýrland til þjálfunar og vopnasendinga til „uppreisnarinnar“.

b) Stríðið í Jemen er kallað „borgarastríð“ og er þá alveg horft framhjá því að fyrir tveimur árum (júlí 2015) breyttist stríðið í innrásarstríð þegar Sádi-Arabía réðist á þetta fátæka land með 100 sprengjuflugvélum og her sem taldi 150 þúsund hermenn, aðallega málaliða. USA og NATO-veldin sjá Sádum fyrir vopnum, sbr. spánnýjan samning Trumps við Sáda, stærsta einstaka vopnasölusamning sem gerður hefur verið. Sl. haust hófu Bandaríkin svo beinan hernað gegn Jemen við hlið Sáda.

c) Stríðið í Írak er í íslenskum fjölmiðlum skilgreint sem „stríð gegn ISIS“ og „stríð gegn hryðjuverkum“. Góðu gæjarnir berjast við að „frelsa“ Mósúl. En „stríðið gegn ISIS“ í Mósúl og víðar í Írak er einfaldlega framhald Íraksstríðsins 2003-2011, innrásar og hernáms sem kostað hefur milljón Íraka lífið, og skóp m.a. fyrirbærið ISIS. Bandaríkin eru aldeilis ekki frelsandi afl heldur hernámsafl í Írak sem hefur enn sama markmið, að sundurlima landið og komast yfir auðlindir þess.

d) Stríðið í Úkraínu er kallað borgarastríð. Aldrei þessu vant er gert mikið úr utanaðkomandi íhlutun, þ.e.a.s. íhlutun og yfirgangi Rússa. Hins vegar er kyrfilega þagað um þátt CIA sem stjórnaði valdaráninu í Kiev 2014 eða um hernaðarlega innikróun Rússlands, af hálfu NATO-velda, fyrir og enn frekar eftir það valdarán.

Sem sagt, þessum helstu styrjöldum sem nú geysa lýsa fjölmiðlarnir okkar sem borgarastyrjöldum og/eða „stríði gegn hryðjuverkum“. Skipulega er horft framhjá hinum vestrænu afskiptum. Fjölmiðlarnir íslensku bergmála þær túlkanir sem stóru fréttastofurnar vestan hafs gefa en þær aftur tjá einfaldlega hagsmuni bandarískrar heimsvaldastefnu og hergagnaiðnaðar. Svo muldra menn gjarnan í skeggið eitthvað um það böl sem hlýst af „óumburðarlyndi“ og „trúarofstæki“.

Ofantaldar styrjaldir hanga saman. Stríðin eru öll betur skilin sem árásarstríð en sem borgarastríð. Yfirstjórn þeirra er í Washington. Árið 2001 lýstu USA og NATO yfir „stríði gegn hryðjuverkum“ (áður en þeir réðust inn í Afganistan). Það var yfirskrift og réttlæting hnattræns hernaðar og síðan hafa þeir  stundað látlausar valdaskiptaaðgerðir, ýmist beint eða með hjálp svæðisbundinna bandamanna. Helsta þungamiðja stríðsrekstursins hefur verið í Miðausturlöndum og önnur þungamiðja á fyrrum yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Um er að ræða samhangandi íhlutunarstefnu Vestursins til að steypa „óþóknanlegum“ stjórnvöldum og koma að öðrum „þóknanlegum“. Svæðisbundnir bandamenn með eigin valdahagsmuni koma hér við sögu, og Sádi-Arabía er mikilvægasti bandamaður NATO í múslimaheiminum, í því verkefni Vestursins að ná yfirráðum í Miðausturlöndum. Og framan talin stríð öll eru liðir í heimsyfirráðastefnu þar sem aðalmeðulin eru hernaðarleg. Aðeins einn aðili rekur slíka stefnu í nútímanum: Vesturblokkin (NATO-blokkin) undir forustu Bandaríkjanna.

Þáttur íslenskrar utanríkisstefnu í þessu samhengi er hvorki saklaus né friðsamlegur. Ísland tekur þátt í valdaskipta- og yfirráðastefnu NATO-veldanna, eftir getu sinni. Alltaf. Óháð því hverjir skipa ríkisstjórn, enda heyrist engin andstaða við þá stefnu á Alþingi. Ísland var í bandalagi hinna viljugu þjóða gegn Írak (við það var reyndar andstaða á Alþingi). Ísland studdi árásarstríð NATO gegn Afganistan og gegn  Líbíu. Íslenska vinstri stjórnin viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa í Sýrlandi – National Coalition – sem lögmætt stjórnvald Sýrlands, og stillti sér þannig á bak við „uppreisn“ (kostaða, vopnaða og mannaða utanlands frá) gegn stjórnvöldum sem viðurkennd eru af SÞ sem lögmæt. Ísland tekur þátt í refsiaðgerðum gegn Rússlandi, mótatkvæðalaust í utanríkismálanefnd og á Alþingi.  Í málefnum stríðs og friðar fylgir Ísland þeirri línu sem lögð er í Washington, punktur. Og röklegt framhald þess: íslenskar fréttastofur eru í þeim málum endurvarpsstöðvar stóru fréttastofanna vestra sem eru hluti af stríðsvélinni.