Wednesday, February 8, 2017

Hvað messar hann í Eldmessu?


Ykkur, lesendum síðunnar Eldmessa, fjölgar með öruggum stíganda. Bloggsíðan var stofnuð síðla árs 2012. Í janúar 2016 fór heildarfjöldi heimsókna yfir 5000. En nú, þegar vika er liðin af febrúar 2017, eru heimsóknir í heild orðnar 10 284. Þær hafa því tvöfaldast og vel það á rúmu ári. 5000 heimsóknir á ári þýðir ca. 13,7 á dag eða 415 á mánuði. Það er vel viðunanleg athygli. Greinarnar eru alls orðnar um 130, stuttar og langar. Reglan er sú að birta hér greinar eftir mig sem áður hafa birst, í blöðum eða á netinu.

Hvað messar Þórarinn Hjartarson í Eldmessu sinni? Svar: það sem honum liggur á hjarta. Þórarinn er stálsmiður sem vinnur fullan vinnudag í Slippnum á Akureyri. Skrif hans á bloggsíðuna eru þess vegna óskipuleg, slitrótt og koma dálítið í gusum. Síðan er hvorki með ritstjórn né ritstjórnarstefnu. En hægt er að efnistaka greinarnar og sjá af því hvað þar er helst á döfinni (með því að klikka á einstök orð í dálkinum „Stikkorð“ fáið þið í runu greinar mínar um viðkomandi efni).

Ef þetta er gert sést að fókusinn er mestur á heimsvaldayfirgang og hina glæpsamlegu hernaðarstefnu, einkum vestrænna NATO-ríkja, sem og baráttuna gegn sömu fyrirbærum. Ekkert atriðisorð kemur eins oft fyrir og „Sýrland“, í 43 greinum alls. Önnur mikilvæg atriðisorð eru NATO, ESB, Bandaríkin, Rússland, Miðausturlönd, ISIS...

Reynt er að andæfa hinni ríkjandi skoðanamötun um alþjóðamál, sem er skoðanamötun sömu heimsvaldaafla. Þess vegna eru fréttaskýringar hér á síðunni oftar en ekki með öfugum formerkjum miðað við fréttir á RÚV eða í Fréttablaðinu. Lesendur hafa einnig tekið eftir að boðskapur Eldmessu er t.d. ólíkur því sem Samtök hernaðarandstæðinga (SHA) láta frá sér fara. Það breytir því ekki að meirihluti greina minna hafa fyrst birst á heimasíðu SHA (http://fridur.is/) eða Fésbókarsíðu samtakanna. En meginstraumur í íslenskri friðarhreyfingu, sem og evrópskri, aðhyllist einhvers konar kristilega, ópólitíska friðarhyggju sem gengur helst út á það að það sé „synd að drepa mann“ og gerir henni ómögulegt að taka afstöðu „í stormum sinna tíða“.  

Annað efni á síðunni: Um fjölþjóðlegan og hnattvæddan kapítalisma. Dálítið um kreppu kapítalismans, en þó verð ég að játa á mig of stopula hagfræðiþekkingu. Um aðkallandi verkefni verkalýðshreyfingarinnar og íslenskrar stéttabaráttu. Nokkrar greinar hafa birst um sögu sósíalismans og stundum er ýjað að sósíalískum og kommúnískum svörum við vandamálum samtímans. Í þeim efnum á ég oftar en ekki samleið með Alþýðufylkingunni.


Að mati þess sem hér ritar er það nokkur veikleiki þessarar síðu að hún virkar lítt á gagnvirkan hátt sem væri þó mjög æskilegt, t.d. í því knýjandi verkefni að vekja og örva andkapítalíska umræðu. Að einhverju leyti hafa komment eða umræða þegar orðið (á Fésbókinni eða t.d. á Pressunni hafi ég birt grein í Fréttablaðinu) áður en greinin kemur hér á Eldmessu. En á Eldmessu er umræðan nánast engin, sem tæknin býður þó upp á. Fyrir vikið veit ég ekki einu sinni hver þið eruð, kæru lesendur. Sú staðreynd að lesendum fjölgar jafnt og þétt tek ég sem vitnisburð um að slæðingur er af fólki sem telur þessa rödd þess virði að heyrast, og ég  beini til ykkar ósk um að þið hjálpið mér að þróa þá rödd. 

24/2 Viðbót 16 dögum síðar. Nú eru heimsóknir á Eldmessu orðnar 11 197, eða 913 síðan þessi grein birtist. Frá jólum hafa þær verið 1700 og 1800 á mánuði. Stígandinn er því enn góður.

No comments:

Post a Comment