Friday, March 31, 2017

Einkavæðing - hnattvæðing - Goldman Sachs

(birtist á vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 31. mars)

Salan á þriðjungi Arion banka féll fljótt í skugga frásagnarinnar um gruggug kaup Ólafs Ólafssonar á Búnaðarbanka árið 2003/04. Sú frásögn þjónar þeim markmiðum a) að glæpkenna og bófavæða kreppuna, skýra hana með siðferðisbresti og spillingu einstakra banka- og kaupsýslumanna og b) að lýsa bankasölu til erlendra fjármálastofnana sem ákjósanlegri og eftirsóknarverðri. Hvort tveggja rangt.

Þrír bandarískir vogunarsjóðir plús bandaríski bankinn Goldman Sachs kaupa nú 29,2% af Arion banka með kauprétt á 21,9% til viðbótar sem líklegt er að þeir nýti síðar á árinu og eiga þá meirihluta í bankanum. Þessir fjórir aðilar keyptu hlutinn af Kaupþingi ehf sem þeir eiga sjálfir 2/3 hlut í. Þeir eru því að kaupa af sjálfum sér. Kaupþing ehf átti 87% af Arion banka eftir að hann var einkavæddur af vinstri stjórninni á haustdögum 2010. Það var þá sem hún, í samráði við AGS, seldi lánadrottnum og kröfuhöfum gömlu bankanna tvo af nýju bönkunum, Arion banka og Íslandsbanka.

Stærsti hlutafjáreigandi Kaupþings (38.64%) er vogunarsjóðurinn Taconic capital. Einn hinna þriggja kaupendanna er hinn voldugi fjárfestingabanki Goldman Sachs. En auk þess tengjast Goldman Sachs og Taconic capital innbyrðis af því stofnendur og eigendur þess síðarnefnda voru tveir fyrrverandi starfsmenn Goldman Sachs. Goldman Sachs er kannski voldugasti fjárfestingabanki heims. Þefum aðeins af honum.

Goldman Sachs múrbrjótur hnattvæðingarafla
Bandaríska stjórnkerfið er klofið. Klofningurinn birtist í nýliðinni kosningabaráttu. Hillary Clinton var skýr fulltrúi hnattvæðingaraflanna, efnahagslegrar hnattvæðingar og pólitískrar/hernaðarlegrar íhlutunarstefnu um heim allan. Hillary var nánar tiltekið fulltrúi kerfisins, „The Establishment“, fulltrúi óbreyttrar stefnu (sem þó skyldi taka skrefi lengra). Andspænis henni stóð Donald Trump sem sagði „Ameríkanismi, ekki hnattvæðing, er okkar trúarjátning“ og sagðist mundu draga mjög úr efnahagslegri hnattvæðingu og sömuleiðis úr íhlutunarstefnunni. Þó miklu stærri hluti stjórnkerfisins, bankakerfisins og fjölmiðlanna styddi Clinton dugði það ekki til. Sigur Trumps fólst að stórum hluta í því að bregðast við stemningu meðal lýðsins, höfnun á útvistun iðnaðar og atvinnu – og almenningur reyndist einnig áhugalaus um vopnakapphlaup gegn Rússagrýlu. Bankinn Goldman Sachs, miðlægur í fjármálakerfinu, tók skýra afstöðu í kosningunum, bannaði fjárframlög til Trumps en var einn af fimm stærstu greiðendum í kosningasjóð Clintons. (heimild)

En eitt er að vinna kosningar, annað að breyta stefnu stjórnkerfisins. Eftir stjórnarskiptin er áðurnefndur klofningur enn við lýði – og birtist nú í klofnu ráðuneyti Donalds Trump og miklum brösum forsetans við hluta stjórnkerfisins (m.a. CIA) og voldugustu fjölmiðla.Þekktur stjórnmálarýnir lýsir klofinni ríkisstjórn svo: „Það virðast vera Goldman Sachs liðið gegn Bannon/Miller andstöðunni.“ Fjármálaráðherra Trumps er nefnilega sóttur til Goldman Sachs. Það er afar skýrt merki um það hvernig „djúp-ríkisvaldið“ (The Deep State) gerir sig gildandi þvert gegn hinni íhaldssömu, popúlísku retórík nýja forsetans. Líka skýrt merki um miðlæga stöðu bankans í bandarísku valdakerfi.

Ef einhver banki er fulltrúi hnattvæðingarafla, múrbrjótur hnattvæðingar, er það Goldman Sachs. Víkjum sögunni yfir Atlantshafið, að helstu átökum um hnattvæðinguna þar: Brexit. Rétt fyrir atkvæðagreiðsluna sl. sumar flaug Obama forseti yfir hafið og hótaði Bretum verri viðskiptasamningum við Bandaríkin ef þeir kysu ekki rétt. Ekki nóg með það, Goldman Sachs og þrír aðrir bandarískir risabankar lögðu fram milljónir punda til að styðja herferðina fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB. Sjá grein The Telegraph undir fyrirsögninni: „Official pro-European Union campaign is part-funded by Goldman Sachs, Citigroup, Morgan Stanley and JP Morgan“.

Ég hef áður skrifað grein um hvernig menn nátengdir Goldman Sachs sitja eða hafa setið í fjölmörgum  lykilstöðum í ESB-batteríinu (forsetar eða í yfirstjórn Evrópska seðlabankans, í Framkvæmdastjórn ESB og álíka) og einnig sem toppvaldamenn í sjö löndum á evrusvæðinu, forsætisráðherrar og seðlabankastjórar. Hið frjálsa flæði ESB er einmitt birtingarform hnattvæðingarinnar í Evrópu. Sem hnattvæðingarsinnaður banki er Goldman Sachs mjög áfram um Evrópusamrunann, og hjálpaði m.a. grísku ríkisstjórninni árið 2001 við að fela skuldir Grikklands svo að landið liti út sem hæfur kandídat til að taka upp evru.

Hjá Goldman Sachs er stutt á milli peningavalds og stjórnmála. Ekki aðeins sendir bankinn sitt fólk í stjórnmálin, á sama hátt stundar hann það að taka fólk úr toppstöðum í pólitíkinni og ráða það að bankanum. Það gildir um ESB. Ofanskráð um ESB-afskipti bankans byggði ég einkum á grein úr Independent frá 2011. Síðan hefur Goldman Sachs ráðið til sín a.m.k. tvo algera toppmenn á sviði vestrænnar hnattvæðingar. Bankinn réð José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB 2004-2014, sem hátt settan ráðgjafa sinn um leið og hann hætti því starfi. Og áður hafði bankinn keypt til sín Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO, enda hafði bankinn horft með velþóknun á verk þess herskáa hnattvæðingarsinna sem fór fyrir öðrum í að marka nýja herskáa stefnu bandalagsins, séstaklega gagnvart Rússlandi. Pólitíkusarnir sem bankinn tengir við sig eiga eitthvað sameiginlegt: Þeir eru voldugir fulltrúar og boðberar vestrænnar hnattvæðingar, frjálshyggju, „evrópuhugsunar“ og yfirþjóðlegs valds.

„Hnattvæðing“ skilgreind
Hnattvæðingu má skilgreina sem hástig kapítalískrar heimsvaldastefnu, sem hnattræna kapítalíska verkaskiptingu, með sem frjálsast flæði fjármagns og vinnuafls um lönd og álfur, m.a. „útvistun“ iðnaðar í gróðaskyni til lágkostnaðarlanda, allt á forsendum auðhringanna. Takmarkanir landamæra og raunar tilvera hinna mörgu sjálfstæðu þjóðríkja eru eitur í beinum auðhringanna og þessarar hnattrænu elítu. Eftir lok kalda stríðs og fall Austurblokkar um 1990 varð sú stefna fljótt ráðandi meðal vestrænna hnattvæðingarsinna að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði fyrir vestræna, fjölþjóðlega auðhringa.

Hnattvæðingin breiðist ekki út eins og snjöll og bráðsmitandi hugsun. Hún verður ekki skilin nema í ljósi hins hins mikla pólitíska valds risaveldisins eina, og vestrænna fylgiríkja, eftir 1990 og ekki síður í ljósi stríðsrekstrar Vestursins í fjarlægum löndum – innrása og  staðgengilsstríða. Hernaðarstefnan beinist mjög inn á efnahagslega og hernaðarlega mikilvæg svæði eins og Miðausturlönd og ekki síður beinist hún gegn öllum keppinautum vestrænnar auðvaldselítu, nú einkum gegn Rússlandi og Kína. Hér er grein sem skýrir hnattvæðinguna nánar.

Einkavæðingin síðari
Íslensk stjórnvöld gátu eftir hrun tryggt sér bankana og einfaldlega sett þá í þrot, hefðu þau viljað breyta um leikreglur. En endurreistu þá í staðinn og létu hræætur (vogunarsjóði/hrægammafjárfesta) ná sér í uppgrip þegar þeir keyptu kröfur fyrri kröfuhafa á miklu undirverði og tóku að sér harkalega innheimtu skulda. Síðan afhenti vinstri stjórnin þessum aðilum meirihluta í tveimur hinna endurreistu banka (kröfum var breytt í hlutafé). Sjö árum síðar, að afléttum fjármagnshöftum, kaupa þessir aðilar nú eignirnar af sjálfum sér. Þar með eru Goldman Sachs og aðrir bandarískir fjármálafurstar orðnir beinir og formlegir eigendur annars (fyrst um sinn) þessara tveggja banka. Einkavæðing hins bankans, Íslandsbanka,  hefur hingað til farið fram á sama hátt. Sala þess banka er líka á dagskrá og litlar líkur á að framhaldið verði mikið öðru vísi en hjá Arion.

Frekar en að hin umrædda bankasala sé með orðum Bjarna Benediktssonar „mikið styrk­leika­merki fyrir íslenskt efna­hags­líf“ sýnir hún einmitt bága stöðu íslensks efnahagslegs sjálfstæðis. Auðvitað kaupa þessir aðilar banka fyrst og fremst til að hámarka gróða sinn. En enginn skal segja okkur að eigendur helstu fjármálastofnana landsins séu áhrifalausir um íslenska efnahagsstjórnun.

Frank Brosens
Goldman Sachs er ekki aðeins „erki­tákn­mynd alþjóðafjár­mála­kerf­is­ins“ (Sigmundur Davíð) heldur er hann augljóslega banki sem endurspeglar pólitískar áherslur hnattrænnar elítu USA og Vesturlanda. Eins og áður kom fram er Taconic Capital stofnað af tveimur fyrrverandi starfsmönnum Goldman Sachs. Af þeim lifir nú aðeins Frank Brosens. Hann er þekktur fjárfestir á Wall Street og stóð nærri Timothy Geithner fjármálaráðherra Obama. Auk þess er hann meðlimur í hinni voldugu hugveitu Council on Foreign Relataions (CFR), innan um eintóma toppmenn: marga fyrrverandi utanríkisráðherra, CIA-forstjóra og voldugustu bankastjóra. Og um stefnu CFR segirWikipedia í stuttu máli: „CFR stuðlar að hnattvæðingu, fríverslun, minna regluverki um fjölþjóðlega auðhringa, efnahagslegri sameiningu í svæðisbundnar blokkir eins og NAFTA og ESB“.


Kaupin á Arion banka voru stærstu einstöku hlutabréfakaup erlendra aðila í sögu Íslands. Þau sýna okkur inn í nöturlegan heim auðræðis og íslenskrar niðurlægingar. Kreppan frá 2008 hefur ekki aðeins þjarmað að lífskjörum almennings og innviðum samfélgsins. Hún staðfestir líka stöðu Íslands sem hjáríkis í hinu vestræna efnahags- og valdakerfi.

No comments:

Post a Comment