Saturday, March 18, 2017

Vinstrimennskan, verkalýðurinn og hnattvæðingin

Ræða haldin á landsfundi Alþýðufylkingarinnar 11. mars 2017)

Eftir fall Sovétríkjanna og sósíalismans í Kína m.m. lækkaði stjarna sósíalismans mjög á himninum. Sá ósigur var um leið ósigur verkalýðsstéttar auðvaldslandanna. Frjálshyggja og hnattvæðing auðhringanna sigldu fram seglum þöndum um heim allan, sem ríkjandi efnahagsstefna og hugmyndafræði. „There is no alternative“ (TINA) sagði Margaret Tatcher. Nú um stundir stendur verkalýðsstéttin höllum fæti og hefur miklu minni samfélagsáhrif en lengst af 20. öld. Vísbending um þróunina er að stéttarfélagsaðild hefur minnkað um nærri helming í Evrópu síðustu 30 ár og réttindi launafólks versna að því skapi.

Hnattvæðingin birtist sem frjálst flæði fjármagns, atvinnu og vinnuafls milli landa, svæða og heimshorna. Auðhringarnir skipta með sér heiminum. Tilgangurinn er að TRYGGJA AUÐVALDINU ÓDÝRT VINNUAFL.  Frjálsa flæðið – t.d. erlenda farandvinnuaflið á Íslandi – er kerfisbundið notað til að brjóta niður áhrif og áunnin réttindi verkalýðshreyfingar. Hnattvæðingin grefur einnig undan valdi þjóðþinga. Hnattvætt auðvald – hjá World Economic Forum og álíka – telur sjálfstæð þjóðríki vera úrelt fyrirbæri. Markaðskratar, og m.a.s sumir sk. byltingarsinnaðir sósíalistar, taka undir þann söng.

Stéttasamvinnustefna skaut snemma rótum í íslenskri verkalýðshreyfingu. Á frjálshyggjutímanum festi hún sig betur í sessi. Vinstri flokkarnir fá að taka þátt í ríkisstjórnum með því skilyrði að lofa auðstéttinni  „ásættanlegri arðsemi peninganna“. Á undanförnum árum hafa þeir gegnt lykilhlutverki í að tryggja hagsmuni auðstéttarinnar. Ætli myndin af stéttasamvinnunni verði skýrari en í samvinnunni um SALEK og makki SA og ASÍ um „leyfilegar launakröfur“ og „forsendubrest“ ef einhver starfsstétt knýr fram eitthvað umfram ASÍ-línuna.

Flokkurinn sem við þurfum er stéttabaráttuflokkur. Ekki þingpallaflokkur sem lofar að færa alþýðu velferð og völd gegnum stjórnkerfi borgarastéttarinnar. Borgarastéttin elur á þeirri blekkingu að valdið í samfélaginu hvíli á þjóðþinginu og óskastaða hennar er að þingpallabaráttan dragi til sín þá athygli og krafta meðal alþýðu og andófsafla sem gætu annars komið fram í fjöldabaráttu í grasrótinni.

„Saga mannfélagsins hefur fram að þessu verið saga um stéttabaráttu“ sögðu Marx og Engels í Kommúnistaávarpinu. Og „lausn verkalýðsstéttarinnar verður að vera hennar eigið verk.“ (Úrvalsrit II, bls. 217) Byltingarsinnar skilgreina verkalýðsstéttina sem hina framsæknu stétt sem með hjálp stéttvísi og með því að treysta á eigin samtakamátt verði að taka forystu í samfélaginu og skapa þjóðfélag fyrir fólk. Verkefni byltingarsinnaðra flokka er þess vegna að efla og leiða stéttabaráttu alþýðu.


Smáborgaraleg vinstrimennska byggir hins vegar á LÍKNARHUGSUN. Að því marki sem smáborgaralegir umbótaflokkar sinnir kjaramálum launafólks tala þeir um að lagfæra hlut „hinna lægst launuðu“ eða styðja „litla manninn“ eins og mannúðlega hugsandi miðstéttarfólk hefur löngum talað. Stefnan miðast við ramma auðvaldsskipulagsins.  

Íslensku vinstriflokkarnir – ég nefni einkum VG og Samfylk. – eru smáborgaralegir flokkar, félagslegur grunnur þeirra er fyrst og fremst mennta- og millistétt. Forystumenn flokkanna tala sjaldan um verkalýðsstéttina og ekki um stéttir yfirleitt. Starf þeirra meðal verkalýðs er afar lítið. Miðað við stærð er t.d. VG merkilega áhrifalaus í verkalýðshreyfingunni.

Hver er tenging vinstri flokka við verkalýðsstéttina? Það svarar spurningunni: Hvers konar vinstrimennsku stunda þeir? Hjá smáborgaralegu vinstriflokkum er verkalýður og stéttabarátta hætt að vera grundvöllur vinstrimennskunnar. Þegar hann týndist fundu þeir annan grundvöll í staðinn: kynjabaráttuna, stöðu útlendinga, litaðra, múslima, samkynhneigðra, hinsegin fólks, fjölmenningin... Kannski felst þá vinstrimennskan helst í orðinu „umburðarlyndi“. Hugtakið „fjálslyndir vinstriflokkar“ hæfir þeim nokkuð vel.  

Ofangreind baráttumál frjálslyndu flokkanna eru flest góð og gild,  en þar gleymist þó eitt mikilvægt atriði: að kapítalisminn snýst fyrst og síðast um ARÐRÁN STÉTTAR Á STÉTT. Ofangreindir minnihlutahópar búa ekki yfir neinu tilsvarandi samfélagsafli og verkalýðsstéttin gerir. Þetta er grundvallaratriði í að skilja úrkynjun og áhrifaleysi smáborgaralegra vinstriflokka. Barátta þeirra hefur færst frá því að vera stéttabarátta um framleiðsluöflin – þar sem höfuðandstæðurnar eru LAUNAVINNA OG AUÐMAGN –  yfir í að vera hugmyndabarátta og siðferðileg barátta innan ramma auðvaldsskipulagsins.

Skilnaður vinstri flokkanna við verkalýðsstéttina birtist alls staðar. Ég nefni tvö mjög áberandi svið: 
A) Í almennri landsmálapólitík birtist skilanaðurinn sem hrun verkalýðsfylgis vinstri flokkanna, það fer nú um stundireinkum yfir til hægripopúlískra flokka. Það hefur m.a. gerst í tilfelli UKIP í Bretlandi og Front National í Frakklandi, Sverigedemokratene svo dæmi séu nefnd. Þetta hefur gerst með því að þessir flokkar taka upp baráttumál vinstriflokka gagnvart velferðarkerfinu –  og ekki síst baráttu fyrir fullveldi og þjóðlegri sjálfsákvörðun. Þeir höfða til verkalýðs og kjósendahópa sem eru helstu fórnarlömb ríkjandi efnahagsþróunar og hnattvæðingarinnar. Það er auðvelt fyrir hægripopúlistana að yfirtaka þessi mál þegar vinstri flokkarnir hafa hlaupið frá þeim.   
B) Skilnaðurinn við verkalýðsstéttina forplantar sér einnig yfir á alþjóðavettvanginn. Sem hnattvæðingarhyggja: Staðan er nú einfaldlega sú að hjá frjálslynda vinstrinu hefur hnattvæðing (frjálst flæði, lágmörkun landamæra, „evrópuhugsun“, fjölmenning...) bókstaflega komið í stað þeirrar heimsvaldaandstöðu sem öðru fremur fylkti vinstri mönnum til baráttu á árum áður. Þeir styðja m.ö.o. hnattvæddan kapítalisma og þau þróunarferli sem grafa mest undan áhrifum verkalýðshhreyfingarinnar, þeir styðja ríkjandi þróun og hugmyndafræði í stað þess að fylkja verkalýð gegn henni.

Í framhaldinu hafa frjálslyndu vinstri flokkarnir einnig stutt stríðsrekstur heimsvaldasinna; s.k. „mannúðaríhlutanir“ í gömlu Júgóslavíu, árásina á Líbíu, valdaránið í Úkraínu og Sýrlandsstríðið. Á tíma vinstri stjórnarinnar á Íslandi dró ekkert úr stuðningi Íslands við þessi árásarstríð. Menn vönduðu sig bara meira en aðrir að útskýra þau sem aðgerðir gegn „harðstjórum“ og til "varnar mannréttindum“.

Róttækir vinstri flokkar vinnan ekki verkalýðsstéttina yfir á sitt band með því að halda yfir henni siðferðispredikanir úr fílabeinsturnum samfélagsins. Við vinnum ekki tiltrú stéttarinnar nema með því að fara til hennar og styðja baráttu hennar gegn æ grófara arðráni og fyrir framsæknum þjóðfélagslegum markmiðum launafólks

No comments:

Post a Comment