Friday, April 28, 2017

Norður-Kórea og "djöflarnir" í heimsvaldakerfinu

(birtist á fésbók SHA 26. apríl og heimasíðu Alþýðufylkingarinnar 4. maí 2017)

                                       Skopmynd af Kim Jong-ún þjóðhöfðingja Norður-Kóreu
Í dag, 26. apríl, boðar Trump alla Öldungadeildina í Hvíta húsið til að ræða ógnina sem stafar af N-Kóreu sem sé „alvarlegt vandamál fyrir allan heiminn“. Þegar Bush-stjórnin útnefndi „öxulveldi hins illa“ eftir 11. september var Norður-Kórea á þeim lista. Hin voru Íran, Írak, Kúba, Líbía og Sýrland. Síðan er hálfur annar áratugur liðinn og önnur ríki hafa bæst á óvinalista USA, nefnd nöfnum eins og „harðstjórnir“ og „bófaríki“: Venezuela undir Chavez og áfram, Súdan, Zimbabwe, Úkraína líka um tíma og í seinni tíð einkum Rússland. Þegar Bandaríkin hafa gefið ríkjum slíka stimpla fylgja bandamennirnir í Vesturblokkinni (NATO + ESB) alltf dæmi þeirra. 
 
Hin útlægu ríki eru sem sagt stimpluð „harðstjórnir“, „einræði“ og þaðan af verra og fá svo meðferð í samræmi við það: Áróðursmaskínan mikla djöfulgerir (demóníserar) viðkomandi, svo koma efnahagslegar refsiaðgerðir, diplómatísk einangrun og valdaskiptaaðgerðir í formi innri „uppreisna“ fjármagnaðra utanlands frá, tilraunum til „litabyltinga“ sem stjórnað er utanlands frá – eða bein innrásarstríð.

Ef við horfum gagnrýnu auga á þessar stimplanir sem koma frá Washington og helstu valdamiðstöðvum Vesturlanda og spyrjum hvað þessi útlagaríki hafi raunverulega til saka unnið kemur yfirleitt í ljós að höfuðglæpur þeirra er skortur á undirgefni við Vestrið.

Útlagaríkin eiga almennt það sameiginlegt að hafna kröfum USA og bandamanna um a) frjálsar fjárfestingar og b) aðstöðu fyrir herstöðvar. Eftir lok kalda stríðsins um 1990 varð sú stefna fljótt ráðandi meðal vestrænna „hnattvæðingarsinna“ að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði vestrænna, fjölþjóðlegra auðhringa. Bandaríkin hafa alls um 900 herstöðvar utan lands og hernaðaraðstöðu í 130-150 löndum, og þú neitar ekki USA um hernaðaraðstöðu ef þú villt vera í „hlýjunni“. Stjórnvöld í Íran, Írak og Líbíu áttu lengi það sameiginlegt að vilja hnekkja valdi dollarsins í alþjóðaviðskiptum, ekki síst olíuviðskiptum. Gaddafí fór m.a.s. fyrir hreyfingu um ný samtök Afríkuríkja og nýtt  fjármálakerfi þeirra þar sem sameiginlegur gjaldmiðill þeirra yrði gulldínar í stað dollars. Það var margföld dauðasök.

Glæpur Pútíns er augljós. Á 10. áratug fékk Rússland sjokkþerapíu einkavæðingar undir leiðsögn AGS og Jeltsín var USA/NATO-veldum undirgefinn. Vestrænir auðhringar sáu fyrir sér eilífar veiðilendur fjárfestinga um allt gamla Sovétsvæðið. NATO tók mikinn sprett landvinninga í austur og lýsti því m.a. yfir 2008 að bæði Úkraína og Georgía innan skamms „munu verða aðildarlönd NATO“. En Pútín eyðilagði þau bjartsýnu áform í Ossetíu og Afkasíu það ár og svo á Krím 2014. Og fór svo að styðja „viðnámsöxulinn“ (Axis of Resistance) í Miðausturlöndum. Djöfuls Rússneski risinn sem var kominn á hnén hafði sem sagt brölt á fætur aftur! Nú duga engir silkihanskar!

Berum að lokum saman tvö lönd sem koma mjög við sögu vestrænnar heimsvaldastefnu. Víetnam og Norður-Kóreu. Eftir sigurinn á heimsvaldasinnum 1975 hóf Víetnam fyrst þjóðlega uppbyggingu, mótað af sovétbýrókratísku stjórnkerfi en fljótlega samt með miklum „markaðslausnum“. En eftir fall Sovét og kapítalíska umbyltingu Kína missti landið sína pólitísku bakhjarla og markaðshyggjan varð alveg ofan á. Víetnam sveigði þá fljótt af hinni þjóðlegu stefnu, opnaði sig fyrir hnattvæðingunni, bauð fram auðlindir landsins til alþjóðlegra auðhringa ásamt afar ódýru og réttindasnauðu vinnuafli, umfaðmaði stofnanir eins og WTO og TPP (Trans-Pacific Partnership), tók svo upp hernaðarsamvinnu við Bandaríkin, m.a. í umkringingu Kína, nokkuð sem var staðfest í heimsókn Obama til landsins á síðasta ári. (heimild)

Norður-Kórea hins vegar hefur frá upphafi (eftir tortímandi stríð og vopnahlé 1953) treyst á efnahagslegan sjálfsbjargarbúskap – og hélt því áfram eftir lok kalda stríðsins – ásamt því að halda fast við ríkiseign á helstu framleiðslutækjum og miðstýrðan áætlanabúskap með takmarkaða aðstöðu fyrir erlenda fjárfesta – og að sjálfsögðu enga hernaðaraðstöðu heimsvaldasinna í landinu. Stefna þeirra brýtur u.þ.b. allar reglur vestrænnar hnattvæðingar. Viðbrögðin létu aldrei á sér standa, með orðum Mike Whitney: „Bandaríkin hafa kallað yfir landið hungursneyð, meinað stjórn þess um aðgang að erlendu fjármagni, kæft efnahag þess með lamandi refsiaðgerðum og komið upp dauðlegum eldflaugakerfum og herstöðvum við landamærin.“ Sjá hér grein um N-Kóreu og Vestrið



Það sem hinir útnefndu „djöflar og útlagar“ eiga sameiginlegt er ekki „harðstjórn“ umfram önnur lönd. Ekki heldur árásarhneigð, það að boða hættu fyrir umheiminn. Djöfulgerðu útlagaríkin hafa hreint ekki sýnt árásarhegðun gagnvart nágrönnum með einni undantekningu: Írak réðist á Íran (með fullum stuðningi USA) og Saddam réðist á Kúvaít (margt bendir til að USA hafi þar leitt hann í gildru). Það sem útlagarnir eiga sameiginlegt er andstaða við bandaríska og vestræna yfirráðastefnu og hnattvæðingu. Það er hún sem er vandamálið, ekki „harðstjórarnir“ í Norður-Kóreu eða annars staðar.

No comments:

Post a Comment