Tuesday, January 2, 2018

Vaxandi viðsjár á Norðurlöndum 2017


Stórstríð er í gerjun. Á Norðurlöndum færist það einnig nær. Á árinu 2017 var Ísland flækt betur í styrjaldarundirbúning Bandaríkjanna og NATO. Í júní og júlí stóð tveggja vikna NATO-flotaæfing við Ísland. Þar tóku þátt 2000-3000 manns frá 9 NATO-ríkjum. Tilefnið var sagt vera vaxandi umsvif rússneskra kafbáta á svæðinu. Keflavíkursamningurinn er í gildi og Pentagon hefur nú eyrnamerkt 1,5 milljarð króna til uppgerðar á flugskýlum sínum á Keflavíkurvelli. Það er fyrsta skref.

Í þrjár vikur í september sl. var NATO-heræfingin Áróra haldin í Svíþjóð, stærsta heræfing þar í landi eftir Kalda stríðið. Yfir 20 þúsund hermenn tóku þátt, frá a.m.k. 5 NATO-löndum auk Svíþjóðar og Finnlands. Svíþjóð lét af hlutleysi sínu 1994 þegar það gerðist aukaaðili að NATO undir yfirskriftinni „Partnership for Peace“. Og 2016 tók NATO næsta skref og gerði „gestgjafasamning“ við Svía: Svíþjóð heimilar NATO-æfingar í landi sínu, NATO fær að geyma hergögn í landinu og sendir mannafla með litlum fyrirvara ef ófriðlegt skyldi gerast. Í höfuðstöðvum NATO var heræfingin Áróra skýrð svo: „Í ljósi núverandi stöðu öryggismála, með auknum áhyggjum af rússneskri hernaðarvirkni, þá styrkir NATO samvinnuna við Svíþjóð og Finnland á Eystrasaltssvæðinu.

Nýjustu fréttir frá Noregi: Í Noregi hafa þegjandi og hljóðalaust orðið brotthvarf frá upphaflegum NATO-skilmálum landsins frá 1949 þar sem sagði að ekki yrðu leyfðar í landinu herstöðvar eða herafli framandi hervelda á friðartímum. Nú hefur bandaríski flotinn viðvarandi herafla og hergögn á Værnes í Þrándheimsfirði. Og nú í desember er þar mættur bandarískur yfirhershöfðingi, Robert Neller, heldur fund með bandarískum hermönnum þar og segir: „Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en það er stríð á leiðinni.“ Neller kallar það stórstríð, „a big-ass fight“. Á sama fundi sagði undirforingi hans, Ronald Green: „We've got 300 Marines up here; we could go from 300 to 3,000 overnight.“ Norsk stjórnvöld hafa ekki hafnað þessum orðum herforingjans.


Hin stóraukna beislun Norðurlandanna fyrir stríðsvagninn er hluti af innikróun Rússlands og stríðsundirbúningi NATO gegn Rússum. Aðrir þættir í því eru hinir miklu flutningar hergagna og liðsafla NATO til nýju NATO-ríkjanna, nágrannalanda Rússlands að vestan, m.a. kerfi nýrra eldflaugaskotpalla í Póllandi, Rúmeníu og víðar og tilheyrandi NATO-heræfingar. Allt þetta hefur svo enn margfaldast frá árinu 2014 (þá yfirtóku Rússar Krímskaga) á öllu beltinu frá Eystrasaltssvæðinu til Svartahafs og Miðjarðarhafs. Liðir í hinum sama eru hinar víðtæku efnahagslegu refiaðgerðir USA og NATO-ríkja gegn Rússum sem Íslendingar taka þátt í með stuðningi allra flokka á þingi nema Flokks fólksins (?).

Yfirhershöfðinginn Robert Neller er ekki hver sem er. Hann er meðlimur í Joint Chiefs of Staff, voldugustu einingu bandarískra hermála. Ræða hans í Værnes er stefnumarkandi og eftirfarandi orð hans hafa líklega meira vægi en ef þau kæmu frá Donald Trump: „Ég hef trú á að við munum fljótlega snúa athygli okkar“ sagði hann „frá Miðausturlöndum til Rússlands og Kyrrahafsins“. Þ.e.a.s. áherslan snýst frá svæðisbundnum átökum og beinist beint að hinum strategísku óvinum, Rússlandi og Kína.

Loks verður að nefna Rússafárið í Bandaríkjunum. Bandaríska þjóðin kaus Donald Trump sem forseta m.a. af því hann sagaðist mundu draga úr spennu gagnvart Rússum, en slíkt gengur augljóslega gegn stefnu „djúpríkisvaldsins“ og hefur skapað forsetanum mikinn vanda. Slík pólitík verður ekki leyfð. Og eins og þessi forsetakosning hafi aldrei farið fram eykur bandaríska heilaþvottavélin jafnt og þétt áróðursmoldviðrið um rússneskt samsæri og rússneska íhlutun um bandarískar kosningar og önnur bandarísk innanríkismál. Rússafárið er sálfræðileg kynding stríðsaflanna.

Framantalin atriði snúast ekkert um leifar „kaldastríðs-hugsunar“ eða neitt slíkt. Þau snúast öll um ógnir nýs heimsvaldastríðs sem hrannast nú upp.

No comments:

Post a Comment