Sunday, March 4, 2018

Íslenska tannhjólið í stríðsvélinni

Íslenska flufélagið Atlanta, sem verktaki Sádí-Arabíska flugfélagsins Saud, hefur flutt vopn frá Búlgaríu, Serbíu og Slóvakíu til Sádi-Arabíu. Hefur flogið a.m.k. 25 ferðir með slíkan farm á undanförnum árum. Það er brot á alþjóðasamningum og SÞ-sáttmálum sem Ísland hefur undirritað, og hafa lagagildi. Stjórnvöld hafa nú hafnað beiðni félagsins um frekari vopnaflutninga til Sádi-Arabíu. Umræðan um málið á þingi og í fjölmiðlum hefur snúist um þetta lögbrot, og er mjög jákvæð sem slík. Ég tel þó að gildi þess sem fram kom í þessum „Kveik“-þætti sé jafnvel enn frekar sú skarpa mynd sem þetta mál gefur af eðli Sýrlandsstríðsins, dæmi sem gegnumlýsir vel gangverk stríðsins.
Þetta eru umtalsverðir vopnaflutningar. Ekki fengust samt þær tölur frá íslenskum yfirvöldum. En Ingólfur Bjarni Sigfússon náði upplýsingum um umrætt flug með hjálp rannsóknarblaðamannasamtakanna OCCRP sem hafa stúderað vopnastrauminn m.a. til Sýrlands. Þar komust menn yfir útflutningsskýrslur frá Slóvakíu yfir vopn sem einmitt voru flutt af flugfélaginu Atlanta. Þar eru m.a. nefndar 2000 eldflaugavörpur, 850 öflugar hríðskotabyssur, 750 sprengujuvörpuskot, 170.000 jarðsprengjur (!) og margt fleira. Og þetta er bara flutningurinn frá Slóvakíu – flutingur frá Búlgaríu og Serbíu er ótalinn. Sömu heimildarmenn staðfesta að viðtakendur vopnanna í Sádi-Arabíu séu „ómerktir pallbílar sem aki farminum burt og ekki inn á næstu herstöð“. Ég sé í heimildum frá OCCRP (sem merkilegt nokk eru samtök styrkt af bandaríska utanríkisráðuneytinu) að CIA er meginaðili í að skipuleggja þessa vopnasölu. Í hjálagðri grein er einmitt vitnað í OCCRP um þess konar flutning vopna frá 9 fyrrum Varsjárbandalagsríkjum til Sádi- Arabíu, Jórdaníu, Arabísku furstadæmanna og Tyrklands fyrir 1.2 milljarðir evra á fimm árum og haft eftir Robert Stephen Ford, sendiherra Bandaríkjanna í Sýrlandi 2011-2014, að „vopnaverslunin er skipulögð af Leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA, Tyrklandi og Persasflóaríkjunum.
Kveikur ræddi við Patrick Wilken vopna- og mennréttindasérfræðing hjá Amnesty International sem þekkir vopnatraffíkina til „uppreisnarinnar“ í Sýrlandi mætavel: „Samkvæmt eftirgrennslan okkar er það mikið magn vopna sem miðlað er af Bandaríkjunum í gegnum austurevrópsk og miðevrópsk ríki og til Sádi-Arabíu og þaðan með ákveðnu vopnadreifikerfi og endar svo í Sýrlandi.“ Ennfremur segir Wilken: „Vopnin sem flutt hafa verið til Sádi-Arabíu eru ekki af þeirri gerð sem herinn þar í landi notar.“
Mikilvægi þessarar frásagnar um Atlanta felst í því að þessi flutningur er dæmigerður og lýsandi fyrir umræddan stríðsrekstur. Þótt Ford sendiherra viðurkenni að CIA standi á bak við slík – stórfelld – vopnaviðskipti eru þau meira og minna í trássi við lög og alþjóðlega samninga. Bandarískir bakmenn – CIA og Pentagon – skipuleggja þessa vopnasölu frá óopinberum vopnasöluaðilum í austanverðri Evrópu í gegnum flókið net skipafélaga og flugfélaga (með almennum flutningavélum, ekki herflutningavélum). Mikinn hagnað er að hafa fyrir viðkomandi flutningsaðila. Kostnaðinn greiða yfirleitt Sádi-Arabar eða önnur fjársterk Persaflóaríki. Þessi viðskipti eru ljósfælin og fara eftir margvíslegum krókaleiðum. Stríð heimsvaldasinna í Miðausturlöndum eru „skítug stríð“ og bakmennirnir vilja almennt ekki láta handarverk sín og fingraför sjást.
Þess vegna er gott að geta vitnað í meginstraumsmálgögn sem öllu jöfnu hafa það meginhlutverk að verja heimsvaldahagsmuni. Í desember sl. birti Newsweek grein, „How ISIS got wapons from the U.S. and usesd them to take Iraq and Syria.“ Þar er fjallað um „ólöggilta“ vopnamiðlun einkum Bandaríkjanna til óopinberra (non-state) aðila, þ.e.a.s. vopnaðrar andstöðu í Sýrlandi, m.a. ISIS, og er í trássi við lög. Einkum er lagt út af vopnabirgðum ISIS sem náðust þegar Sýrlandsher hafði rekið hryðjuverkasamtökin úr borginni Deir Ezzor sl. nóvember. Newsweek skrifar: „...mikill meirihluti vopnanna kom upprunalega frá Rússlandi, Kína og Austur-Evrópu... Bandaríkin og Sádi-Arabía útveguðu mest af þessum útbúnaði án löggildingar, að því er virðist til andstöðuafla. Þessi áframsendi útbúnaður, gerður upptækur hjá liðsveitum ISIS, samanstendur eingöngu af vopnum og skotfærum frá Varsjárbandalagsríkjum, keyptur af Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu í Evrópusambandsríkjum í Austurevrópu.“
Það er meira en tímabært að menn geri sér grein fyrir að óöldin í Sýrlandi snýst ekki um „uppreisn“. Heimsvaldasinnar hafa vissulega löngum lagt sig alla fram við að deila og drottna þar sem finna má þjóðernislegar glufur eða trúarlegar andstæður, en það nægir ekki til að gera innrásarstríð að „uppreisn“. Þetta er ekki heldur „borgarastríð“, heldur staðgengilsstríð háð af fjölþjóðlegum málaliðum. Bakmenn þeirra heimsvaldasinnar kosta þá og hafa dælt í þá gengdarlausu magni vopna frá fyrsta degi. Valdaskiptaaðgerðin mistekst engu að síður af því hana skortir stuðning hjá sýrlensku þjóðinni.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir lýsti á Alþingi vonbrigðum Atlanta-málið og sagði að það „stangast á við utanríkisstefnu sem Ísland hefur verið að mæla með“. Það er ekki nákvæm lýsing. Þáttur Íslands í stríðunum í Miðausturlöndum er vissulega ekki veigamikill í hinu stóra samhengi. En hann er alltaf stuðningur við stríð heimsvaldasinna. Ísland studdi stríð USA og NATO í Afganistan, Írak og Líbíu. Í desember 2012 viðurkenndi Ísland „Þjóðareiningu uppreisnarhópa í Sýrlandi“ sem „hinn lögmæta fulltrúa Sýrlands“ og tók sér stöðu með „uppreisninni“. Og Ísland hefur frá byrjun verið á lista „Fjölþjóðaliðsins gegn ISIS“ sem stjórnað er frá Washington og beinist æ opinskár gegn stjórnvöldum Sýrlands. Og þegar íslenskt flugfélag 25 sinnum fékk leyfi stjórnvalda fyrir vopnaflutningum til Miðausturlanda var það auðsótt enda áfangastaður vopnanna „réttu megin“.

No comments:

Post a Comment