Wednesday, March 21, 2018

Leyniskjöl - "vestræna stjórnlistin" í Sýrlandi



Stríð Vestursins í Sýrlandi er leynistríð. Vissulega var „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“ undir forustu Bandaríkjanna stofnað 2014 og hóf lofthernað á Sýrland, opinberan hernað þó að hann stríði gegn alþjóðalögum. En hinn óopinberi hernaður Vesturvelda (USA fremst) og staðbundinna bandamanna þeirra gegnum leppheri og staðgengilshernað, hernaðarráðgjöf og stjórnun skiptir þó meira máli. Vopnun, kostun, mönnun stríðsins – sem oftast er kallað „uppreisn“.

En þau afskipti eiga og þurfa að vera leynileg og þess vegna er afar lítið um þau rætt í hinni miðstýrðu opnu orðræðu á Vesturlöndum. Vestræn meginstraumspressa er stórkostlega miðstýrð og í málefnum stríðs er henni stýrt beint frá Pentagon. Í valkvæðum miðlunum (fjölmiðlum gegn straumnum) koma hins vegar oft fréttir af slíku, en þá er það gjarnan eitthvað sem hefur „lekið út“, utan dagskrár. Með því að hlusta bara á fjölmiðla eins og RÚV – sem aldrei nefnir vestrænt baktjaldamakk og leyniskjöl – fáum við einfaldlega kolrangan skilning á stríðinu. Ég ætla að tiltaka hér tvö dæmi um brölt vestrænu strategistanna að tjaldabaki.

Fyrra dæmið: Árið 2015 unnu hin íhaldssömu bandarísku baráttusamtök um upplýsingafrelsi Juridical Watch dómsmál og fengu aflétt leynd á ákveðinni skýrslu bandarísku stofnunarinnar Department of Intelligence Agency (DIA) frá 2012, stofnunar sem heyrir undir bandaríka hermálaráðuneytið. Skýrslu um „uppreisnina“ í Sýrlandi. Þar segir berum orðum: „Salafistarnir, Músímska bræðralagið og AQI [Al-Qaeda í Írak] eru aðalöflin i uppreisninni í Sýrlandi.“ Og ennfremur: „Ef greiðist úr stöðunni er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi (í Hasaka og Deir ez-Zor) og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja, til að einangra Sýrlandsstjórn sem líta má á sem hluta af sjía-útþenslunni (Íran og Írak).“ Á öðrum stað í skýrslunni er AQI nefnt „ISI“ og það er alveg ljóst að um er að ræða hið verðandi ISIS. Til að útskýra hverja átt er við með „stuðningsveldin við andspyrnuna“ segir skýrslan: „Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland styðja uppreisnina á meðan Rússland, Kína og Íran styðja stjórnvöld.“ Sjá umrætt skjal.

Þessi áform frá 2012 gengu eftir á næstu misserum, með gríðarlegri styrkingu „uppreisnaraflanna“. Það var sérlega dularfullt mál hvernig hin þungvopnuðu ISIS og önnur útibú Al-Kaida (sem allt eru salafí-súnnítar) gátu yfirbugað Sýrlandsher (og Íraksher) á einu svæðinu á eftir öðru, einni borginni á eftir annarri, og árið 2014 stofnað „kalífat“ í Sýrlandi og Írak. Þá þróun mála notuðu svo Bandaríkin (og Vestrið) sem yfirvarp fyrir áðurnefndri opinskáu íhlutun – sem opinberlega beindist „gegn ISIS“ (!) – þegar þau sama ár stofnuðu „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“.

Seinna dæmið: Breskur diplómat fyrir Miðausturlönd, Benjamin Norman, staðsettur í USA, sendir leynilegt símskeyti 12. janúar 2018 sem lekur samt út og er fyrst birt í líbönsku blaði, Al-Akhbar. Það segir af fyrsta fundi í „The Small American Group on Syria“ höldnum í Washington 11. janúar og öðrum slíkum fundi áformuðum í París 12 dögum síðar. Þessi grúppa lykilaðila setur sér að stjórna þróun Sýrlandsstríðsins bak við tjöldin. Það segir sína sögu að miðað við upphaflega kjarnann í Vestur-bandalagainu (Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland) er Tyrkland nú ekki haft með í hópnum. Fulltrúarnir í „The Small Group“ eru frá Bandaríkjunum (David Satterfield, aðstoðar-utanríkisráðherra fyrir Miðausturlönd), Bretlandi, Frakklandi, Sádi-Arabíu og Jórdaníu. Þarna kemur fram núverandi „strategía Vestursins“: „skipting landsins [Sýrlands], ónýting Sochi-viðræðnanna, hindranir gagnvart Tyrklandi“ (“partition of the country, sabotage of Sochi, framing of Turkey“). Einnig kemur fram að Trumpstjórnin ætlar nú USA langvarandi hernaðarviðveru í Sýrlandi þrátt fyrir sigrana yfir ISIS, og að megintilgangur þeirrar viðveru er að hindra Íran í að ná of mikilli fótfestu í landinu. Fyrstu skref í baktjalda-diplómatíinu eru annars vegar að spilla tilraunum Rússa og Tyrkja til friðarviðræðna í Sochi sem haldnar voru í lok janúar og „styrkja Genfar-ferlið“, að senda „leiðbeiningar“ og „stuðning“ til Staffan de Mistura yfirmanns viðræðnanna í Genf á vegum SÞ. Þarna kemur líka fram vilji Bandaríkjanna að taka með kúrda í „Genfar-ferlið“ þó það skapi erfiðleika gagnvart Tyrkjum. Sjá grein um símskeytið.

No comments:

Post a Comment